Háskólinn á Akureyri

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:06:57 (6148)


[14:06]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég er samþykkur þessu frv. Það er ekkert annað að gera úr því að það er komið hingað, en ég segi alveg eins og er að ég tel að það þurfi að skoða á vegum ráðuneytisins og háskólanna allra í landinu þetta svokallaða framgangskerfi eins og það er og hvernig það rímar við það almenna hæfnismat sem lagt er til grundvallar við skipan manna í prófessorsstöður á háskólastigi hér á landi.
    Ég tel að þarna sé auðvitað fyrst og fremst um að ræða kjaramál og út af fyrir sig afar eðlilegt

að það skuli vera komið fram með þeim hætti og auðvitað liggur einnig að baki þeim niðurstöðum sem verða varðandi framgangskerfið hæfnismat. Engu að síður tel ég að hérna séu að þróast hlið við hlið kerfi sem virðast vera eins en eru ekki eins og ég hvet til þess að það verði tekið upp með eðlilegum og sanngjörnum og yfirveguðum hætti við háskólana að þessi mál verði skoðuð í heildarsamhengi því að ég er ekki alveg viss um að það sé skynsamlegast af öllu að afgreiða mál af þessum toga með sjálfvirkum hætti án þess að skoða samhengi þeirra, m.a. við aðra háskóla og við ráðningarkerfi og skipunarkerfi prófessora í landinu í heild.