Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:18:25 (6151)


[14:18]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja ótrúlega stutt síðan var farið að ræða um málefni leikskóla hér í þessari virðulegu stofnun. Ég hygg að það séu ekki nema liðlega tveir áratugir síðan sú umræða hófst. Síðan hafa þau mál komið inn með ýmsum hætti á undanförnum árum. M.a. með því að fluttar hafa verið þáltill. um málefni leikskólans aftur og aftur, t.d. þáltill. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um uppeldisáætlanir og uppeldisstefnu fyrir leikskóla. Sú áætlun var samþykkt og eftir henni var unnið undir forustu Valborgar Sigurðardóttur. Það er athyglisvert að einmitt í því frv. sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstjórn er gert ráð fyrir að þessu merka stefnumótunarstarfi sé haldið áfram eins og bent er á og fram kemur í 4. gr. þessa frv. og er reyndar sérstaklega rakið í skýringum við frv. til laga um leikskóla á bls. 4 í því þskj. sem hér liggur fyrir.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar var fjallað um leikskólann sem hluta af hinu almenna skóla- og menntunarkerfi landsins og hygg ég að það hafi verið í fyrsta sinn sem það var lögfest að tekin var um það ákvörðun á Alþingi Íslendinga að líta þannig á að leikskólinn væri hluti af hinu almenna skóla- og menntakerfi í landinu. Það er ekki hægt að neita því að annars vegar var um þessi mál ágæt samstaða, m.a. við Fóstrufélagið og fleiri uppeldisstéttir, en hins vegar birtist nokkur ágreiningur um þessi mál aðallega við sveitarfélögin, sem ég tel reyndar að hafi verið að miklu leyti á misskilningi byggður. Af þeim ástæðum var það svo að í tíð síðustu ríkisstjórnar tók það lengri tíma en ég hafði gert mér hugmyndir um að koma leikskólafrv. fyrir Alþingi til meðferðar. Það var efnt til mikilla átaka um það mál á þeim tíma og endaði þannig að það náðist pólitískt samkomulag við þáv. og núv. hæstv. félmrh. um leikskólafrv. eins og við lögðum það fyrir á sínum tíma og það varð svo að lögum með samhljóða atkvæðum í þessari virðulegu stofnun. Það má því segja að um málið hafi verið allgóð samstaða, þ.e. um lagabókstafinn sem slíkan.
    Síðan er þess að geta að það hefur ósköp lítið gerst í málinu að öðru leyti. Það hefur ekki fengist meira fé til uppbyggingar leikskóla. Það hefur ekki verið tekið á einstökum þáttum í innra starfi þeirra, t.d. með því að skipa umdæmisfóstrur eins og gert var ráð fyrir í gildandi lögum og að þær störfuðu við fræðsluskrifstofurnar. Það hefur einnig skort á það að mínu mati að málinu væri fylgt eftir með því að tekið væri á menntunarmálum leikskólakennara þannig að menntun þeirra yrði með afgerandi hætti flutt yfir á háskólastig eins og gerst hefur í grannlöndum okkar og sem í rauninni hlýtur að vera miðað við ef við ætlum að líta þannig á að leikskólinn sé hluti af hinu almenna menntunarkerfi í landinu.
    Ég hlýt því í tilefni af þessu að inna hæstv. menntmrh. eftir því: Hvað er að frétta af nefndarstörfum sem ég hygg að séu í gangi á vegum menntmrn. varðandi menntunarmál leikskólakennarar og samhengi þeirra við önnur menntunarmál uppeldisstétta í landinu?
    Fyrir nokrrum dögum kom það fram í umræðum hér, af einhverju tilefni sem ég man ekki svo glöggt, í máli hv. 18. þm. Reykv. að það væri nauðsynlegt að færa menntunarmál uppeldisstéttanna saman í eina skólaheild á einhvern hátt. Ég vil láta það koma fram að í þeirri áætlun um menntamál til nýrrar aldar sem við gengum frá árið 1991 var gert ráð fyrir þessu. Það var gert ráð fyrir því að menntunarmál uppeldisstéttanna yrðu færð undir einn uppeldisháskóla Íslands eða hvað við nú kunnum að kalla þá stofnun. En kannski er það hægara ort en gjört að koma því á, ekki fyrst og fremst vegna leikskólakennarana heldur kannski ekki síst vegna sambýlis við Háskóla Íslands sem útskrifar núna mikinn fjölda kennara og einnig vegna þess að menn höfðu ekki þá frekar en nú, að ég hygg, gert sér nákvæmlega hugmyndir um það hvernig verkmenntakennarar yrðu menntaðir í okkar kennaramenntunarkerfi.
    Þrátt fyrir lögin frá 1991 verð ég því að segja alveg eins og er að mér finnst hafa ríkt ákveðin stöðnun í þessum málum núna síðustu árin. Það hefur ekki verið sóknarflagg uppi fyrir leikskólauppbyggingu í landinu, því miður, frekar en reyndar önnur skólastig og það ber að harma.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er einnig bersýnilega niðurstaða af pólitískri málamiðlun þeirra flokka sem standa að núv. ríkisstjórn. Ég get út af fyrir sig sagt það að ég tel að sjálfsögðu að margt sé jákvætt í þeim hugmyndum sem hér er hreyft. Ég sé ekki betur en t.d. sú áhersla sem birtist í 1. gr. sé a.m.k. mjög í mínum anda, sem ég vil sjá og ég fagna henni. Þar er því slegið föstu, eins og reyndar var teiknað var upp til í gildandi lögum, að leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Ég tal að þetta sé mikill áfangi og ég óska hæstv. menntmrh. til hamingju með þessa niðurstöðu vegna þess að ég tel að hún sé mikilvæg. Þótt hún sé kannski ekkert annað en orð í dag þá er hún engu að síður mikilvæg inn í framtíðina og ég vil ekki síst óska hæstv. menntmrh. til hamingju með það að hafa náð þessum árangri í samningum sínum við hæstv. félmrh. og verð að játa það að hæstv. núv. menntmrh. nær meiri árangri í þeim efnum en ég gerði. Er það nú ekki algengt að ég beri með þessum hætti lof á núv. ráðherra og telji ég hann mér fremri á mörgum sviðum, ég játa það, ég tel hann mér fremri á þessu sviði og óska honum innilega heilla í þeim efnum og vona að það gangi eftir sem víðast í samskiptum mennta- og félagsmála. ( Menntmrh.: Ég þakka.)
    Varðandi önnur atriði frv. en 1. gr. vil ég víkja sérstaklega að 9. gr. frv. í IV. kafla, en þar segir neðst á bls. 2:
    ,,Leikskólanefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Einn fulltrúi starfsfólks leikskóla og einn fulltrúi foreldra leikskólabarna eiga rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.``
    Ég tel að í rauninni hefði verið eðlilegt að slá því föstu í þessari grein, og ég mun kanna hvort það er fylgi við það í hv. menntmn., að hér verði því beinlínis slegið föstu að skólanefnd geti annast þessi verkefni. Að skólanefnd geti annast þessi verkefni þannig að það þurfi ekki þetta sérstaka og sérkennilega heimildarákvæði í síðasta málsl. 9. gr., sem er bersýnilega samkomulagstexti. En ég tel að í sjálfu sér sé textinn samt sem áður varasamur vegna þess að þarna er verið að gefa því undir fótinn að leikskólann sé hægt að reka í tengslum við félagsmálasviðið með skýrar hætti en kveðið er á um í 1. gr. frv. Ég tel því að síðasti málsl. 9. gr. rími ekki við 1. gr. frv. eins og hún lítur hér út.
    Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því og gera það nokkuð að umtalsefni að það er gert ráð fyrir því að þetta kerfi sem hér er gerð tillaga um fylgi á eftir því kerfi sem menn hafa verið að tala um varðandi grunnskólann, þ.e. að öll skipulögð uppeldisstarfsemi á vegum opinberra aðila flytjist til sveitarfélaganna, bæði grunnskóli og leikskóli. Af þessum ástæðum eru fræðsluskrifstofurnar í raun og veru felldar út úr þessu frv. og hafa ekki sama hlutverk samkvæmt því og gert er ráð fyrir í gildandi lögum.
    Í fyrsta lagi vil ég benda á það, hæstv. forseti, að það hefur engin ákvörðun verið tekin um að flytja grunnskólann til sveitarfélaga. Það er hvergi hægt að taka ákvörðun um það nema á Alþingi Íslendinga og sú ákvörðun hefur ekki verið tekin hér. Það liggur engin tillaga fyrir á Alþingi Íslendinga um það að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna þannig að það eitt út af fyrir sig gerir það óeðlilegt að mínu mati að fara að sníða leikskólakerfið að hugsanlegum flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég sé ekki að það séu nein rök fyrir því að taka fræðsluskrifstofurnar út eins og gert er ráð fyrir í frv.
    Ég tel einnig vert, hæstv. forseti, að vekja athygli á því sem fram kemur í 5. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því lögfesta áfram þróunarsjóð til þess að stuðla að þróunar- og tilraunastarfi innan leikskólans. Ég tel ánægjulegt að áfram er gert ráð fyrir honum. Ég verð hins vegar að segja að ég hefði talið að það ætti að athuga það að festa viðmiðunartölu í 5. gr. vegna þess að eins og orðalagið er á 5. gr. þá er

hægt að hugsa sér að sjóðurinn sé afgreiddur með 1 krónu, fræðilega séð, þó að það sé vafalaust ekki ætlunin. Ég hygg að það mundi styrkja lögin, ef þetta frv. verður að lögum, ef þarna væri tiltekin einhver viðmiðunartala. Ég tel að ákvörðunin um þróunarsjóð leikskóla hafi hjálpað mjög mikið til og það eigi að halda þessu þróunarstarfi áfram, en ég minni á að þessi sjóður var stofnaður með einfaldri ráðherraákvörðun. Fyrir honum voru engar lagaheimildir þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma og ég held að það þyrfti að styrkja lagagreinina um þennan þróunarsjóð aðeins frá því sem gert er ráð fyrir í frv.
    Ég vék aðeins að því, hæstv. forseti, áðan að það hefði verið nokkur stöðnun í þeim málum sem lúta að leikskólanum á undanförnum árum. Ég held að það sé ekki nokkur leið að neita því að þau hafa mjög lítið hreyfst. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, eins og ég gerði um menntunarmálin sérstaklega, um gæðaeftirlitið sem gert er ráð fyrir í 6. gr. frv. Hvernig á að framkvæma þetta gæðaeftirlit? Það er gert ráð fyrir því að nú þurfi ekki lengur leyfi menntmrn. til að stofnsetja leikskóla heldur sé það eingöngu í höndum sveitarfélaga. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að gera stórar athugasemdir við það á þessu stigi málsins, en það er gert ráð fyrir því í frv. að sett sé reglugerð um starfsemi leikskóla og í henni verði kveðið um gæðaeftirlit menntmrn. með starfsemi leikskóla, gerð áætlun um uppbyggingu leikskóla, samstarf leikskóla við foreldra og grunnskóla, um heilsugæslu, um öryggi barna, um lágmarkskröfu til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks í leikskólum að svo miklu leyti sem kjarasamningar taka ekki til þeirra atriða, um lengd daglegs dvalartíma barna í leikskólum, um aðstoð og þjálfun barna skv. 16. gr., um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla og starfssvið hennar og um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald í leikskólum með sérstöku tilliti til fatlaðra barna sem þar dvelja. Það er alveg augljóst mál að eins og þessi grein er og miðað við þau verkefni sem eru ætluð ráðuneytinu, þá er ljóst að þau eru mikil, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir því að hinar einstöku leyfisveitingar fari þaðan út. Þess vegna hlýt ég að inna hæstv. menntmrh. eftir því hvernig hann sér fyrir sér framkvæmd þessa gæðaeftirlits menntmrn. og hvaða aðstöðu og möguleika ráðuneytið hefur til að sinna þessu.
    Eins og sakir standa þá hefur ráðuneytið einn starfsmann í leikskólamálum. Það er of lítið. Og þar hefur orðið fækkun. En spurningin er: Er það ætlun ráðherrans að styrkja leikskóladeildina, styrkja þessa starfsemi í ráðuneytinu þannig að 6. gr., ef samþykkt verður, standi undir nafni því að hún gerir það ekki með einum starfsmanni, það er útilokað, eða hvort ráðherrann hugsar sér að verkefnaráða starfsmenn eftir því sem framkvæmd þessara laga miðar áfram.
    Ég endurtek það, hæstv. forseti, að þetta frv. vekur ýmsar spurningar. Það er ýmislegt jákvætt í því og annað sem vekur spurningar af öðrum toga. Ég ætla ekki að orðlengja um málið frekar. Hér er gert ráð fyrir því að fella út umdæmisstarfsmenn sem gildandi lög hafa og koma í staðinn á leikskólafulltrúum, jafnvel sameiginlegum leikskólafulltrúum sveitarfélaganna. Það er út af fyrir sig ágætt ef sveitarfélögin koma sér saman um það. Ætlar ráðuneytið að beita sér fyrir því að það verði til sameiginlegir leikskólafulltrúar á vegum nokkurra sveitarfélaga eða hvað?
    Eins og ég gat um áðan, þá tel ég bersýnilegt að þetta frv. hafi svona heldur þróast í átt til menntmrn. frá því sem var þegar samkomulag var gert um þessi mál 1990/1991 og ég tel að það sé ástæða til að þakka fyrir það, sérstaklega stefnuyfirlýsinguna í 1. gr. eins og ég sagði áðan. Ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því enda þótt svo kunni að vera að ráðherrann eigi ekki einn hólið því að ef ég man rétt, þá er a.m.k. einn stjórnarmaður Fóstrufélagsins á Alþingi og á sæti í hinum stjórnarflokknum.