Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:50:02 (6153)


[14:50]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta merka mál sem hér er á dagskrá. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með það að málið skuli vera komið fram á hv. Alþingi og tel að það sé í öllum aðalatriðum mjög gott mál og mun að sjálfsögðu í hv. menntmn. kynna mér það frekar. Á þessu stigi get ekki gert mér grein fyrir því hversu auðvelt það mun verða fyrir þingið að afgreiða það sem lög á þessu vori en miðað við það sem ég hef kynnt mér málið og hlustað á hv. þm. tel ég að það ætti kannski ekki að verða svo mjög umfangsmikið starf fyrir hv. nefnd að vinna að því.
    Ég get í sjálfu sér tekið undir alla ræðu síðasta hv. ræðumanns, hv. 11. þm. Reykn., sem talaði af mikilli þekkingu um þennan málaflokk. Það var mjög ánægjulegt að hlusta á hana því að það er ekki svo oft á hv. Alþingi að við hlustum á fagfólk í þessari grein og má kannski segja að það hafi verið tími til kominn.
    Hér er um við að fjalla um málaflokk sem að verulegu leyti heyrir undir sveitarfélögin hvað varðar alla uppbyggingu og rekstur, en þó er það ekki ómerkilegt hlutverk sem ríkið hefur hvað þennan málaflokk varðar, eins og það að sjá til þess að skólinn sé samfella og fullnægt sé lögum um leikskóla. Ég tók þá afstöðu þegar málefni leikskólans voru síðast til umræðu á hv. Alþingi að það væri rétt að leikskólinn félli undir málefnasvið menntmrn. og yrði þannig eins og fyrsta skólastigið á skólagöngu barnsins. Ég held að það hafi sýnt sig að það sé hárrétt og þetta frv. sem við höfum nú til umfjöllunar ítrekar enn frekar þann vilja.
    Eins og hér hefur komið fram er það í sjálfu sér nokkuð misjafnt hversu vel sveitarfélögin standa sig í því að bjóða öllum börnum á leikskólaaldri upp á leikskólapláss. Því miður vantar nokkuð mikið upp á það í mörgum sveitarfélögum og kannski ekki síður þeim stóru að þar séu menn með háleit markmið, því miður. Mér segir þó svo hugur nú að þar sé vilji til að taka á málum og það er kannski vegna þess sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það er farið að styttast nokkuð í sveitarstjórnarkosningar og fólk sem er í ábyrgðarstöðum í sveitarfélögum er að gera sér betur og betur grein fyrir því að þennan málaflokk má ekki vanrækja.
    Mér er vel kunnugt um það sem landsbyggðarþingmanni úr litlu sveitarfélagi hversu mikilvægt það var fyrir grunnskólann þegar settur var á laggirnar leikskóli í sveitarfélaginu því þá vöndust börnin vinnubrögðum sem grunnskólakennarar fullyrða að sé ákaflega mikilvægt fyrir börn að þekkja þegar þau koma í grunnskólann. Agavandamál t.d. gerbreyttust og snarminnkuðu við það að börnin vöndust við það að fara

í leikskólann áður en þau komu í grunnskólann. Þetta finnst mér vera dálítið athyglisvert að velta fyrir sér og þá er ég ekki að gagnrýna foreldra sérstaklega fyrir þetta, en það er mikilvægt að börn venjist því að höfð sé regla á hlutunum eins og er í leikskólum, bæði hvað varðar útivist, matmálstíma og annað slíkt. Það þjálfar þau í ákveðnum vinnubrögðum sem síðan nýtast í grunnskólanum.
    Ég vil aðeins velta einu upp hér, kannski fyrir það að ég hef ekki kynnt mér málið nægilega vel eða geri mér ekki nógu vel grein fyrir því, en það er ákvæðið um skólaskrifstofurnar. Ég segi það alveg satt að ég veit ekki til þess að það séu skólaskrifstofur í hverju sveitarfélagi. Ég veit ekki hvað er átt við þarna. Ég veit að það er skólaskrifstofa í Reykjavík en þetta er ákvæði sem ég vil biðja hæstv. menntmrh. að útskýra fyrir mér. Samkvæmt 10. gr. skulu skólaskrifstofur í hverju sveitarfélagi hafa frumkvæði að því að eðlileg tengsl og samstarf verði á milli leikskóla og grunnskóla. Í litlum sveitarfélögum er ekki til neitt sem heitir skólaskrifstofa að því er ég best veit.
    Í frv. er ákvæði um það að foreldrar fái meiri áhrif og það er af hinu góða. Það er annað sem er lagt niður með frv., ef að lögum verður, og það er ákvæðið um umdæmisfóstrurnar. Nú hefur það ekki komið til framkvæmda fram að þessu og var kannski ekki mikil von til þess að það gerðist en engu að síður er það ákveðin uppgjöf sem kemur fram í því að fella út ákvæði um umdæmisfóstrur. Hæstv. menntmrh. kom ekki mikið inn á það í sinni framsöguræðu hverjar ástæðurnar eru fyrir þessu og væri forvitnilegt að heyra frekar um það ef hann tekur aftur til máls.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil bara leggja áherslu á það að lokum hvað þetta skólastig er mikilvægt fyrir þjóðfélagið, fyrir barnið og ég vonast til þess að okkur gefist tími til að vinna málið til enda á þessu vori. Ég hlýt þó um leið og ég segi það að harma að málið skuli ekki vera fyrr fram komið.