Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:58:43 (6154)


[14:58]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Framkoma þessa lagafrv. undirstrikar það sem raunar var undirstrikað 1991 í lögunum sem þá voru sett að leikskólinn á að vera fyrsta skólastig barnanna og byrjar allsnemma á lífsferli þeirra, eins og við heyrðum einn ágætan hv. þm. segja hér áður. Það er ánægjulegt að sjá að nú er ekki lengur litið á leikskóla eða dagvistarstofnanir barna sem félagslegt úrræði því það var gert áður fyrr. Nú er þetta orðin leið til menntunar. Einungis þessi viðhorfsbreyting er mjög merkileg og mikils virði.
    Hin samfellda leið á milli leikskólans og grunnskólans ætti að vera nokkuð auðfarin, en þó geri ég mér grein fyrir því að t.d. í Reykjavíkurborg þarf að gera stórátak til þess að tengja leikskólana og grunnskólana þannig að börnunum verði eiginlegt að fara úr hinum litla verndaða heimi leikskólans inn í hinn miklu stærri og stundum afskaplega grimman heim grunnskólans og er það mál sem þyrfti að taka fyrir alveg sérstaklega hvernig á að bregðast við þeim vanda sem víða er í grunnskólum, sérstaklega stórum.
    Markmiðsgreinarnar hérna eru allar býsna fagrar og raunar get ég verið sammála þeim öllum. Það stendur hér að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barnanna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna. Þetta er gott markmið en því miður dálítið fjarlægt vegna þess hve mikið vantar enn þá af leikskólaplássum. Og við vitum það allt í kringum okkur í borginni og raunar mjög víða annars staðar er mikill skortur á leikskólaplássum og þarf að gera stórátak til að hægt sé að ná þessu markmiði.
    Það er fjarri því að ég vilji hafa á móti því að í frv. standi markmiðið að efla kristilegt siðgæði barnanna og leggja grundvöll að því að börnin verði sjálfstæðir, hugsandi og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun. Samt sem áður get ég ímyndað mér að þar sem leikskólar verða ekki allir reknir af ríkinu heldur af einstaklingum og félögum þá gæti hugsast að leikskólar yrðu stofnaðir af trúfélögum sem eru alls ekki kristnir, t.d. Vottum Jehóva eða einhverju því um líku og ef það yrðu það margir búddatrúar á Íslandi gætu þeir líka gert það. Þess vegna veit ég ekki hvernig á að snúast við þessu. Ég er afskaplega hrifinn af kristilegu siðgæði, þ.e. því siðgæði sem Jesús Kristur vildi innræta okkur, en ég held að það þurfi að athuga þetta mál, hvernig eigi að orða þetta þannig að lögin verði ekki brotin með því að veita hinum ýmsu hópum leyfi til leikskólarekstrar.
    Það verður aldrei undirstrikað of rækilega hversu mikilvægt hlutverk leikskólinn hefur, hversu mikilvægt hlutverkið er að leiða börnin fyrstu sporin í samstarfi við foreldrana. Síðasta markmiðsgrein 2. gr. frv. ,,að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt`` er háleit og afar nauðsynleg. Þessi markmiðsgrein er eiginlega undirstaðan undir því að við byggjum upp í framtíðinni samfélag sem er lífvænlegt og gott að vera í.
    Ég er hrifin af þessari grein og las hana sérstaklega fyrir ykkur, líka vegna þess að ég verð svo oft vör við það að einmitt þetta hefur misfarist í öllu skólakerfinu. Börnin koma niðurbrotin og með skakka sjálfsmynd og vantraust á sjálf sig og leita því aðeins til þeirra meðala sem þau þekkja, þ.e. ofbeldis og ófriðar og náttúrlega líka vímugjafa. Þess vegna held ég að ef við bara næðum þessu síðasta markmiði í frv. þá værum við búin að ná stórkostlegum framförum á Íslandi.
    Að yfirstjórn leikskólanna sé í höndum menntmrn. finnst mér harla gott. En mér finnst að þessi yfirstjórn leggi menntmrn. þó nokkuð miklar skyldur á herðar, ekki bara að stýra því sem það nú þegar hefur gert heldur að móta stefnuna í framtíðinni og byggja upp menntakerfið fyrir það fólk sem á að kenna

í leikskólunum og raunar í öllum öðrum uppeldisstofnunum landsins. Þetta er stórt og mikið hlutverk. Það er ekki bara það að leggja fram fögur orð á blaði heldur eru miklar skyldur sem hæstv. menntmrh. er að leggja sjálfum sér og ráðuneytinu á herðar.
    Ég tel að það sé af því góða að í leikskólanefndinni sé fulltrúi foreldra og fulltrúi starfsfólks. Báðir þessir aðilar þurfa að hafa heilmikið um þróunina að segja og hið innra starf stofnananna. Innra starf í leikskólum er geysilega viðkvæmt, merkilegt og raunar hægt að gera stórkostlega hluti í leikskólum með börnunum. Það liggur við að ég öfundi þá af að fá að fást við þetta.
    Það stendur í 11. gr. að leikskólafulltrúar eigi að starfa í sveitarfélögum. Leikskólafulltrúinn á að hafa leikskólakennaramenntun og ég tel að það sé lágmarksmenntun sem leikskólafulltrúi eigi að hafa. Að öðru jöfnu ætti hann jafnvel að hafa heldur meiri menntun til þess að vera leiðandi á sínu svæði til framfara innan leikskólanna. Þess vegna er það lágmark að hann hafi leikskólakennaramenntun en helst þyrfti hann að hafa heldur meira.
    Í 12. gr. stendur að leikskólastjóri og það starfslið er annast uppeldi og menntun barnanna skuli hafa menntun leikskólakennara. Þetta er markmið sem er langt í að við náum. Það er núna í nánast hverjum einasta leikskóla starfsfólk sem alls ekki hefur þessa menntun og við sjáum fram á að svo muni verða um einhvern tíma, ég veit ekki hvað mörg ár, kannski ætíð, en mér finnst að það ætti því að standa í þessari grein að öllu starfsliði leikskóla eigi að standa til boða uppeldisfræðsla eftir þörfum og við hæfi þess starfs sem viðkomandi vinnur. Ég vona að hæstv. menntmrh. skilji hvað ég er að fara af því að á meðan ekki eru leikskólakennarar í öllum störfum þar þá er lágmark að allt starfsfólk geti fengið einhverja fræðslu og menntun á þessu stigi. Það er auðvitað víða en það þarf að gæta mjög vel að þessu og efla þetta.
    Í 15. gr. frv. stendur:
    ,,Börn á leikskólaaldri sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á henni innan leikskólans og undir handleiðslu sérfræðinga.``
    Og í 17. gr. stendur: ,,Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum.``
    Þetta er í sjálfu sér alveg sjálfsagðar greinar en þær auka enn á skyldur ráðuneytisins og ábyrgð og sveitarstjórnanna sem eiga að annast rekstur þessara stofnana. Mér finnst að nánast allt þetta frv. og líka ákvæði til bráðabirgða þar sem stendur: ,,Í lögum þessum tekur starfsheitið leikskólakennari til þeirra sem lokið hafa viðurkenndu fóstrunámi`` hníga að hinu eina og sama: að það þarf að koma á fót uppeldisháskóla á Íslandi. Ég er ekki að segja að það eigi að gerast á morgun en það þarf að stefna að því og sú stefna þarf að vera nokkuð traust og örugg og mætti gjarnan byrja sem fyrst að þreifa sig áfram í samstarfi þeirra stofnana sem að uppeldisháskóla mundu standa.
    Ég álít að fóstrunám sé mjög gott nám. Þær fóstrur sem ég hef kynnst, og ég hef kynnst þeim mörgum í þeim störfum sem ég unnið við um ævina, hafa yfirleitt verið vel færar manneskjur á sínu sviði og ég vil alls ekki rýra gildi þeirrar menntunar sem leikskólakennarar hafa í dag. En ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þá leikskólakennara sem eru starfandi í dag og leikskólakennara framtíðarinnar að þeir eigi möguleika á að bæta við þekkingu sína og gera sig færari á sínu sviði. Ég er ekkert endilega viss um að það þurfi allir leikskólakennarar að vera með háskólamenntun, síður en svo. En ég held að það sé mjög mikið atriði að þeir eigi kost á að bæta við menntun sína og stunda rannsókna- og þróunarstörf á því sem ég mundi kalla háskólastigi. Því legg ég eindregið til að hæstv. ráðherra íhugi vandlega hugsanir mínar og orð um uppeldisháskóla.
    Í heildina lít ég svo á að þetta frv. sé til bóta og það stefni í rétta átt. Ég vona að innan tíðar komist sem flest af þessum greinum til framkvæmda, ekki síst það að uppeldisaðstaða barna jafnist mikið meira en er í dag og að sú uppeldisaðstaða verði ekki bara á leikskólastigi heldur líka á grunnskólastigi. Það er þó annað mál sem ég mundi kannski koma að einhvern tímann seinna.