Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:15:24 (6156)


[15:15]
     Guðrún J. Halldórsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 11. þm. Reykn. virðist hafa misskilið mig hrapallega. Ég er nefnilega afskaplega hlynnt þessum markmiðum og það er síður en svo að ég sé að draga það í efa að við munum öll sem hér erum vinna að þessum markmiðum, ég vil gjarnan vinna að þeim líka. Þetta er mjög mikill misskilningur að ég hafi verið að draga þau í efa og vilji draga úr þessum markmiðum, síður en svo. Við stöndum einmitt saman í þessu.
    Hvað viðkemur þetta með kristilega siðgæðið, sem ég undirstrikaði að ég væri mjög hlynnt í sjálfu sér, þá dró ég í efa úr því að það stendur hér í grein að það sé hægt að veita öðrum heimild til þess að reka leikskóla samkvæmt þessum lögum. Það var það sem ég rak augun í, ef aðrir sem ekki hafa sama viðhorf og við kæmu inn og ættu að reka leikskólann samkvæmt þessum lögum. Þetta er ekki að ég sé að setja út á þetta efnislega séð heldur er ég hrædd um að þessi tvö atriði geti stangast á.
    En að halda að ég hafi viljað draga úr einhverjum af þessum markmiðum, það er síður en svo, þau mættu gjarnan vera jafnvel hærri.