Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 15:27:18 (6159)


[15:27]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir góðar undirtektir við þetta frv. bæði þeim konum sem hér hafa talað og líka karli fyrir málefnalegar umræður og góðar undirtektir við þetta mikilvæga mál.
    Það eru aðeins örfá atriði sem mér sýnist ég þurfa að nefna og komið hafa fram hér í máli hv. þm. Hv. þm. Svarvar Gestsson taldi frv. bera með sér að um það hefði náðst pólitísk málamiðlun milli stjórnarflokkanna og óskaði mér raunar til hamingju með þann árangur sem ég hefði náð að mér skildist í baráttunni við hæstv. félmrh. Ég ætla nú ekki að fara út í neinn meting við hv. þm. um það hvort ég hafi náð meiri árangri í því en hann. En ég met hins vegar við hæstv. félmrh. að hafa fallist á að þetta frv. yrði flutt sem stjfrv. vegna þess að því er ekki að leyna að um það var nokkur ágreiningur.
    Hv. þm. nefndi menntunarmálin og að þau skyldu færast á háskólastig, það væri það markmið sem við ættum að setja okkur og ég er því út af fyrir sig sammála. Til þess að svara spurningu hv. þm. um hvað væri að frétta af nefndarstörfum varðandi kennaramenntunina þá hef ég svarað því nýlega í þinginu að nefnd sem falið var það verkefni að semja rammalöggjöf um kennaramenntun í landinu er u.þ.b. að ljúka störfum, er komin nokkuð fram yfir þann tíma sem henni var ætlaður, en ég hef skilið það svo að nefndin þurfti einfaldlega meiri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir að hún þyrfti. Það mál er sem sagt að komast á lokastig og þar ætla ég að verði minnst á menntunarmál leikskólakennara eins og það heitir nú.
    Hv. þm. og raunar fleiri hafa minnst hér á 9. gr. sem kveður á um stjórn leikskólans og hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hvort ekki væri rétt að slá því föstu að skólanefnd gæti annast málefni leikskólans. Ég tel ekki þörf á að slá því föstu í lagagreininni að skólanefndinni verði falið þetta viðfangsefni. Ég tel eðlilegt að það sé viðfangsefni sveitarstjórnarinnar að ákveða það hvort hún felur skólanefnd að annast jafnframt stjórn leikskólans eða hvort kosin skuli sérstök leikskólanefnd eins og talað er um í greininni. Mér finnst eðlilegast að sveitarstjórnin sjálf kveði upp úr um það hvaða leið hún telur skynsamlegasta að þessu leyti. Það er ekkert sérstaklega verið að gefa undir fótinn með það að málefnum leikskólans verði stjórnað af félagsmálanefndum. Ég nefndi það í framsögu minni áðan að mér sýndist það ekki útilokað en það yrði þó að gæta ákvæðanna í greininni um aðild foreldra og starfsfólks leikskólans að nefndinni. En ef það er félagsmálanefnd þá er varla um það að ræða að þeir aðilar geti átt aðild að málinu nema þá eingöngu þegar rætt er um málefni leikskólans. Þetta ber að hafa í huga.
    Ástæðan fyrir því að fræðsluskrifstofurnar eru felldar út úr þessu frv. frá því sem er í gildandi lögum er ekki sú að það liggi fyrir ákvörðun um að grunnskólinn flytjist yfir til sveitarfélaganna. Það er rétt hjá hv. þm. að Alþingi hefur ekki samþykkt neitt um það. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að grunnskólinn flytjist yfir til sveitarfélaganna 1. ágúst á næsta ári og það ákvæði mun verða í grunnskólafrv. sem væntanlega verður lagt fyrir Alþingi til kynningar nú á næstu dögum. Það er sem sagt ekki ástæðan og þarf ekki að ganga út frá því sem gefnu að grunnskólinn flytjist yfir til sveitarfélaganna. Það er eðlilegt að fræðsluskrifstofurnar komi ekki áfram að þessu máli þegar leikskólinn er alfarið kominn yfir til sveitarfélaganna sem hann í raun er með verkaskiptalögunum frá 1989 en nú er verið að hnykkja á því með því að flytja það sem eftir er til sveitarfélaganna og því ekki eðlilegt að málefni leikskólans gangi í gegnum fræðsluskrifstofurnar sem eru skrifstofur á vegum ríkisins, menntmrn. Það er sem sagt ástæðan.
    Varðandi ákvæði í 5. gr., sem hv. þm. minntist líka á, um þróunarsjóðinn og tilraunastarf innan leikskólans, að hann taldi rétt að hafa þarna einhverja viðmiðunartölu. Má vel vera að viðmiðunartala væri æskileg í lögunum en nú er það eins og hv. þm. vita að það hlýtur að fara eftir afgreiðslu fjárlaga hverju sinni, hvað sem kann að standa í lögum, hverjar fjárhæðir verði veittar til þessara sviða sem annarra.
    Hv. þm. spurði hvernig gæðaeftirlitið sem talað er um í 6. gr. yrði framkvæmt. Eins og segir í 6. gr. og hv. þm. rakti rækilega, þá er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um starfsemi leikskólans og að því verki komi Samband ísl. sveitarfélaga ásamt fulltrúum frá ráðuneytinu. Þarna er um mjög viðamikið atriði að ræða og eins og segir í athugasemdum við 6. gr., þá eru í greininni talin upp ýmis atriði sem kveða þarf nánar á um í reglugerð og upptalningin er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Þarna eru sveitarstjórnum lagðar miklar og mikilvægar skyldur á herðar og þess vegna nauðsynlegt að fulltrúar þeirra komi að gerð tillagna um reglugerðarákvæðin. Ég get þess vegna ekki á þessari stundu kveðið upp úr með það hvernig þessi framkvæmd verður en um það verður kveðið á í reglugerð eins og segir í lagagreininni. Það er eðlilegt að setja fram stefnumiðin í lagagreininni en þau verða að sjálfsögðu nánar útfærð í reglugerðinni.
    Þá spurði hv. þm. hvort ætlunin væri að efla leikskóladeildina í ráðuneytinu. Það er rétt sem hv. þm. sagði að í beinum störfum varðandi leikskólann er aðeins einn starfsmaður og sá starfsmaður vinnur af eljusemi og þekkingu að málefnum leikskólans. Ég sé ekki beina þörf á því að bæta sérstaklega við starfsliði í endurskipulagðri skrifstofu menntamála og vísinda þar sem málefnum leikskólans verður sinnt.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi það að í 10. gr. væri talað um að skólaskrifstofur ættu að stuðla að eðlilegum tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla, vildi vita hvað þetta þýddi þar sem skólaskrifstofur væru ekki í hinum fámennari sveitarfélögum. Skólaskrifstofa væri til í Reykjavík. Þær eru að vísu til í stærri kaupstöðum, fleiri en Reykjavík, en það er rétt að eiginlegar skólaskrifstofur eru ekki í hinum fámennari sveitarfélögum en þess vegna er það í greininni að talað er um sveitarstjórn annars vegar eða skólaskrifstofur. Þar sem ekki eru skólaskrifstofur annast sveitarstjórnin þessi eðlilegu tengsl. Á þessu er því mjög einföld skýring.
    Varðandi ákvæðið um umdæmisfóstrurnar sem er í gildandi lögum en ekki í frv. þá felst ekki í þeim nein uppgjöf eins og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sýndist. Það felst engin uppgjöf í því að hætt er við að ríkið eða ráðuneytið ráði sérstakar umdæmisfóstrur sem starfi á vegum ráðuneytisins eða ríkisins. Þetta er eingöngu til þess að innsigla það að þessi málaflokkur er nú alfarið í höndum sveitarstjórnanna og og ekkert starfslið á vegum leikskólanna verður beint ráðið af ríkisvaldinu eða starfar á þess vegum.
    Hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir kom inn á nokkur atriði. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræðu hvernig fer með að fullnægja ákvæðunum um að efla kristilegt siðgæði. Ég hef ekki trú á að það verði starfi leikskólanna til neinna trafala þótt þannig sé kveðið að og jafnvel ekki þótt einhver sérstakur trúflokkur sem ekki telst til þjóðkirkjunnar fengi leyfi til að starfrækja leikskóla. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki svo nákvæmlega til allra trúflokka í landinu en ég hef ekki trú á því að einhverjir þeirra starfi þannig að í beinu ósamræmi yrði við þetta ákvæði löggjafarinnar. En ég viðurkenni að ég þekki það ekki nægilega vel.
    Um 12. gr. nefndi hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir að það vantaði kannski inn í hana eða væri ástæða til þess að koma inn því ákvæði að öllu starfsliði leikskólanna, ég skildi hv. þm. þannig, að öllu núv. starfsliði sem ekki hefði þá menntun sem krafist væri nú í þessu frv., ef að lögum verður, yrði gefinn kostur á að bæta menntun sína. Mér finnst það að sjálfsögðu koma til greina og vera æskilegt markmið og væri alveg hliðstæða við það sem ráðuneytið vinnur að og Kennaraháskólinn sérstaklega varðandi menntun kennara eða leiðbeinanda sem svo heita nú og vilja leita sér frekari menntunar til þess að fá réttindi. Ég teldi æskilegt að stefna að því alveg eins og er með menntun grunnskóla- og framhaldsskólakennara.
    Varðandi ákvæðin í 15. og 17. gr. um aðstöðu fatlaðra barna þá er þar gert ráð fyrir óbreyttum

ákvæðum frá því sem er nú. Ég kem þá um leið inn á orð hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur sem taldi að þarna væri misræmi í frv. þar sem gert er ráð fyrir að áfram verði greitt fyrir dagvist fatlaðra barna af ríkisins hálfu. Það er rétt. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að svo verði og á fjárlögum yfirstandandi árs eru þetta 83,6 millj. kr. sem er þátttaka ríkisins í umframkostnaði sveitarfélaganna við vistun fatlaðra barna á leikskólum. Ef þessu yrði breytt sem auðvitað kæmi til greina, þá yrði þar að semja sérstaklega við sveitarfélögin ef þau ættu að taka þennan kostnað alfarið á sig, þá þarf að bæta þeim það með einum eða öðrum hætti og yrði sem sagt að semja um það sérstaklega eins og ég sagði.
    Ég sé að tíma mínum er lokið en ég vona að ég hafi komið inn á flest þau atriði sem hv. þm. sem hér hafa talað nefndu og ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir við þetta mál og það eykur mér bjartsýni á því að málið hljóti afgreiðslu þótt skammt lifi til þinghlés.