Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:06:47 (6165)


[16:06]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Það er löngu tímabært að endurskoða lög um útflutning hrossa og ég vil í það minnsta fyrir mitt leyti gera það sem hægt er til þess að það náist að afgreiða þetta mál núna í vor. Og það hlýtur að greiða fyrir því að þingmenn landbn. stuðli að því, hin auðmjúku orð hæstv. ráðherra í niðurlagi hans ræðu þar að lútandi. Vissulega er ekki nógu gott að mál komi eins seint fram og þetta gerir ef það er meiningin að afgreiða þau.
    Ég get í meginatriðum tekið undir það sem kom fram í framsögu hæstv. ráðherra. Ég vil þó nefna hér örfá atriði. Það er að mínu mati jákvætt og í raun ber okkur skylda til þess að skilja á milli á þann hátt að það sé ekki útflytjandinn sjálfur sem greiðir fyrir heilbrigðisskoðanir og það sem því tengist, heldur er það hlutverk hins opinbera, en það er síðan innheimt með þessu sérstaka gjaldi sem þarna er nefnt. Það er kannski þessi gjaldtaka sem við þurfum helst að skoða í þessu máli og hvernig þeim fjármunum verður varið. En samkvæmt því sem tekið er fram hér í frv. og greinargerð með því, þá er þessu gjaldi ætlað að mæta heilbrigðisskoðuninni og upprunavottorðinu, sem menn hafa greitt fram að þessu, og Stofnverndarsjóðnum, en síðan er gjaldinu í raun ætlað að fjármagna nýjan útgjaldalið sem er starf útflutnings- og markaðsnefndar. Þó kom það ekki glöggt fram í skýringu við frv. hvað menn telja að yrði í afgang til þessa starfs af þeim um 14 millj. sem þetta 7. þús. kr. gjald mundi skila miðað við núverandi útflutning og það væri nú æskilegt að fá eilítið nánari skýringar á því. En mér sýnist svona fljótt á litið að þetta verðum við að skoða því þessar 7 þús. kr. sem ætlað er að greitt sé fyrir hvert hross að viðbættum sjóðagjöldunum er upphæð sem er orðin hærri heldur en menn eru að greiða í dag fyrir þessa þjónustu.
    Ég fékk upplýsingar frá einum af stærstu útflytjendunum á hrossum sem flytur út 630 hross og við

fyrstu sýn væri hægt að ætla að heildargreiðslurnar lækkuðu ekki en að teknu tilliti til sjóðagjaldanna þá sýnist mér á öllu að þarna sé útflutningurinn að greiða meira en hann gerir í dag. En vel að merkja, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, á móti kemur að hluti af fjármagninu á að renna í markaðsstarf. Það er út af fyrir sig æskilegt að við getum lagt meira í markaðsstarf á þessu sviði, en þá þarf líka að skoða vel hvernig það fjármagn nýtist og að það séu í raun allir jafnir gagnvart aðgangi að því eða réttara sagt gagnvart því að njóta góðs af því starfi sem er þá fjármagnað hjá markaðsnefndinni varðandi útflutninginn.
    Ég vil einnig varpa því fram hér í umræðunni hvort mögulegt væri að fella sjóðagjöldin inn í þessa föstu upphæð, e.t.v. þyrfti þá að hækka hana eitthvað eilítið. Ég held að það væri á margan hátt, miðað við þessa grein sem er að framleiða fyrst og fremst eða í þessu tilfelli eingöngu fyrir útflutning, æskilegt ef það væri heimilt vegna annarra laga, en það þyrfti að skoða í hv. nefnd, hvort það væri heimilt að ákveða að sjóðagjöldin á útflutt hross verði bara föst krónutala á hross. Það er það sama og verið er að gera núna varðandi kynbótagjaldið til Stofnverndarsjóðsins. Í staðinn fyrir að vera prósentutala á útfluttar hryssur og stóðhesta þá er búið að ákveða að taka inn í þetta gjald fasta krónutölu á öll hross. Það tel ég vera jákvætt og velti því þess vegna hér upp hvort hægt væri að koma sjóðagjöldunum þarna inn líka þannig að skorið væri algjörlega á gjaldtöku sem er prósentvís við þennan útflutning.
    Ég nefndi aðeins gjaldið til Stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins sem var, ef ég man, rétt 10--20% af söluverði á merum og stóðhestum. Ég hef nefnt það áður að ég tel jákvætt að það falli út enda er tekið fram hér að hann geti starfað áfram þótt ekki renni til hans nema sem svarar 350 kr. af útfluttu hrossi samkvæmt því sem hér er upp gefið. Þessi sjóður er öflugur og það mun vera innstæða í dag upp á 28 millj. kr. Þannig að hann er ekki alveg á flæðiskeri staddur þó greiðslur til hans lækki enda tel ég tímabært að endurskoða reglur um hann því það hafa verið mjög deildar meiningar um ágæti sjóðsins og hvernig honum hefur verið beitt á síðustu árum. Það hafa reyndar komið fram hér í hliðarsölum tillögur um að e.t.v. ættum við að gera frekari breytingar þarna og leggja til að þessi sjóður verði notaður að einhverju leyti við stofnvernd íslenska hundsins. Það gæti komið ágætlega heim og saman við þá mynd sem menn hafa séð af manni á hestbaki í lopapeysu og íslenski hundurinn fylgir með þannig að þetta er kannski skyldara en margur ætlaði. En þetta er nú sagt hér utan dagskrár og e.t.v. frekar í gamni en alvöru.
    Það þarf ekki að orðlengja það hér að við erum að ræða um vaxandi atvinnugrein og starfsumhverfi eins af vaxtarbroddunum í íslenskum landbúnaði. Það sem ég hef heyrt í hestamönnum og þeim sem stunda ræktun og útflutning á íslenska hestinum þá líta þeir björtum augum til framtíðarinnar og telja að með markvissu starfi geti tengst þessu uppbygging, ekki bara útflutningnum, ekki síður í tengslum við ferðaþjónustuna þar sem áhugafólk og hugsanlegir kaupendur íslenska hestsins komi hér heim og taki þátt í ferðalögum á hestum. En mér er sagt af þeim sem þetta stunda að það sé mjög vaxandi samband á milli þessara þátta.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því að við getum afgreitt þetta mál á þeim stutta tíma sem eftir er í vor. Það sem ég sé fyrst og fremst að þurfi að skoða betur og fara ofan í saumana á er þessi gjaldtaka. Þarna er vissulega um að ræða verulega fjármuni og það verði á allan hátt gengið þannig frá hlutunum að þessi breyting nýtist sem best og það fjármagn sem þarna kann að verða afgangs til markaðs- og sölustarfa verði nýtt á þann hátt að allir standi jafnt gagnvart því.