Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:17:32 (6166)


[16:17]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum hér er mjög þýðingarmikill lagarammi, væntanlegur, utan um vaxandi atvinnugrein sem hefur verið að hasla sér völl á síðustu árum og er að verða stöðugt mikilvægari þáttur í okkar íslenska landbúnaði og ekki síður í íslenskum útflutningi. Sannleikurinn er sá að sennilega er óvíða sem við höfum séð jafnmikinn vöxt eiga sér stað í útflutningi eins og einmitt í hrossaræktinni og þess vegna skiptir mjög miklu máli að sá lagarammi sem þessi útflutningsgrein og þessi atvinnugrein þarf að búa við sé atvinnugreininni og útflutningsgreininni sem hagstæðastur og verði til þess að auðvelda þá mikilvægu útflutningsstarfsemi sem þegar er hafin og við sjáum mjög víða merki í íslensku þjóðfélagi í dag. Það er enginn vafi á því að þessi mikli vaxtarbroddur hefur verið að skila íslenskum landbúnaði mjög miklum og auknum tekjum sem honum hefur vissulega ekki veitt af en ekki síður hefur þessi útflutningsgrein orðið til þess að renna styrkari stoðum undir alls konar aðra atvinnustarfsemi í landinu sem einnig skiptir mjög miklu máli.
    Mér sýnist í aðalatriðum að þetta frv. til laga um útflutning hrossa sem hér er lagt fyrir þingið sé í flestum atriðum mjög til bóta. Eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. þá býr þessi útflutningur nú við lagagrundvöll sem er nokkuð gamall og er sniðinn að aðstæðum sem eru orðnar gjörbreyttar. Þessi mikli útflutningur á íslenskum hrossum til útlanda hefur vaxið svo mikið og breyst svo mikið og hefur haft í för með sér sókn inn á nýja markaði þannig að það er nauðsynlegt að endurskoða þennan lagaramma. Engu að síður er ástæða til að velta því fyrir sér og a.m.k. vekja á því athygli að þessi mikli útflutningur og þessi mikli vöxtur sem hefur orðið í útflutningi á hrossum hefur þrátt fyrir allt gerst í fyrsta lagi án mikilla afskipta hins opinbera og í öðru lagi þrátt fyrir að lagaramminn sé gamaldags og ekki í samræmi við þær kröfur sem atvinnugreinin gerir til lagalegs grundvallar sem hún þarf að búa við. Þetta er auðvitað mjög athyglisvert og nauðsynlegt að vekja athygli á og gæti örugglega verið okkur lexía um ýmislegt annað sem við erum að gera í okkar atvinnulífi.
    Það sem er auðvitað athyglisvert og nauðsynlegt að nefna hér er að með þessu frv. er stigið skref í þá áttina að auðvelda og einfalda framkvæmdina við útflutning á hrossum. Það er í fyrsta lagi kveðið afdráttarlaust á um það í 2. gr. að útflutningur á hrossum sé heimill án sérstakra leyfa. Með öðrum orðum, leyfisbindingin er horfin og almenna reglan er frelsi til útflutnings og undantekningin er sem sagt leyfisbindingin. Í öðru lagi er reynt að greiða fyrir því að allt eftirlit sé með þeim hætti að það reisi ekki skorður við útflutningnum. Hér er gert ráð fyrir að heilbrigðisskoðunin geti farið fram af dýralækni í heimahéraði en eigi sér ekki stað við útflutningshöfn eins og núna er gert ráð fyrir. Síðan hefur verið reynt að einfalda alla leyfisbindingu og þar fram eftir götunum. Ég er hins vegar sammála hv. 6. þm. Norðurl. e. um að ég tel að það sé mest ástæða fyrir okkur að skoða það í hv. landbn. með hvaða hætti við ætlum að leggja sérstakt gjald á útflutninginn á hrossunum. Ég held að sú hugsun eigi fyrst og fremst að ríkja í þessum málum að gera þennan útflutning sem frjálsastan, sem auðveldastan fyrir bændur þannig að a.m.k. ekkert í lagasetningunni sjálfri verði til þessa að torvelda útflutning á hrossum.
    Ég hef nokkrar áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til, þó það sé mjög til bóta frá því sem áður hefur verið, sé of þunglamalegt og kostnaðurinn við útflutninginn gæti orðið fullmikill. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt fyrir hv. landbn., þar sem ég á raunar sæti, að við förum rækilega ofan í þetta með hrossabændum til að átta okkur á því hvort hægt sé að einfalda þetta fyrirkomulag enn frekar. Í þessu sambandi ber auðvitað sérstaklega að skoða bæði þetta 7 þús. kr. gjald og önnur gjöld sem við erum að tala um í þessu sambandi.
    Mér er heldur ekki alveg ljóst af lagatextanum eða skýringunum hvað við gætum hugsanlega verið að tala um í þessu sambandi varðandi markaðsátak. Það er gert ráð fyrir að afganginum af útflutningsgjaldinu verði varið til að standa undir markaðsstarfsemi. Í fyrsta lagi er mér ekki alveg ljóst hvort það sé vilji hrossabænda að standa þannig að þessum málum að markaðsstarfsemin fari fram á þessum nótum eða hvort menn vilja stunda þessa markaðsstarfsemi einir og sér. Það þarf auðvitað í fyrsta lagi að liggja fyrir og í annan stað hvort við erum hér að tala um slíka smáaura að það muni e.t.v. litlu skila.
    Ég vil hins vegar í þessu sambandi segja að ég tel að hér þyrfti að takast meira samstarf milli útflytjendanna sjálfra og sendiráða Íslands, a.m.k. í þeim ríkjum þar sem útflutningurinn hefur á einhvern hátt skotið rótum. Ég nefni lönd eins og Þýskaland og Frakkland þar sem vissulega eru fyrir hendi miklir markaðsmöguleikar á útflutningi á hrossum. ( Gripið fram í: Íslenskan sendiherra fyrir hesta.) Ég veit nú ekki hvort það sé rétt. Það mætti kannski frekar segja að leggja hrossunum til sendiherra þó það megi kannski segja sem svo að íslenski hesturinn sé mjög myndarlegur sendiherra fyrir íslensku þjóðina vegna þess að hann hefur með óbeinum hætti verið mikil kynning fyrir íslensku þjóðina. Það er nú ástæða til að nefna það alveg sérstaklega.
    Og af því að hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi áðan að menn hefðu haft á orði að það séu tengsl á milli hrossaræktarinnar annars vegar og ferðamennskunnar hins vegar þá er það alveg augljóst mál. Í þessu sambandi er ástæða til að nefna það að í sumar verður landsmót hestamanna haldið á Hellu og menn reikna með miklum fjölda útlendinga hingað til lands til að fylgjast með þessu. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá einum góðum hrossabónda, Andersi Hansen á Árbakka á Landi, þá er áætlað að ferðamenn sem koma til Íslands fyrst og fremst vegna kynna af íslenska hestinum séu nú taldir vera um 5.500 á ári hverju. Og miðað við meðaleyðslu hvers erlends ferðamanns má áætla að þessir ferðamenn skilji eftir á Íslandi um hálfan milljarð kr. Gjaldeyrissköpunin vegna tengsla hestsins og ferðamennskunnar er með öðrum orðum allt að hálfur milljarður kr. Þannig að hér er auðvitað mjög þýðingarmikill þáttur í þeirri almennu aukningu á ferðamennsku sem við flest viljum sjá gerast hér á landi.
    En vegna þess að við erum að tala hér um útflutning á hrossum þá er ekki úr vegi og raunar nauðsynlegt að nefna það að á því hefur verið vakin athygli að því miður hafi ekki tekist í hinum annars ágætu EES-samningum að tryggja frjálsari aðgang íslenska hestsins inn á markaði Evrópu. Eftir því sem ég hef upplýsingar um þá er það svo að það þarf að greiða um 25% innflutningsgjald eða toll eða hvað menn vilja kalla það þegar menn flytja hesta til Evrópu. Það sjá það auðvitað allir að þetta eitt og sér torveldar mjög útflutning á hrossum inn á þennan markað. Þess vegna vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann sjái einhverja möguleika á næstunni á því að taka upp þetta mál sérstaklega við Evrópubandalagið á grundvelli EES-samningsins eða með einhverjum þeim öðrum hætti sem gæti orðið til þess að efla þessa mikilvægu útflutningsgrein.
    Ég nefndi hér áðan töluna 500 millj. kr. bara vegna tengsla hestanna og ferðamennskunnar, en það mætti auðvitað nefna það líka í þessu sambandi að talið er að salan á hestum til útlanda skapi okkur 500 millj. kr. í auknar gjaldeyristekjur. Þá erum við ekki að ræða um þær afleiddu tekjur sem eru af hrossabúskapnum fyrir þjóðarbúið í heild vegna þess að það er margs konar önnur atvinnustarfsemi sem tengist þessu. Það eru bændur, það eru tamningamenn, það eru eigendur hestaleiga, bílstjórar, verslunarmenn o.s.frv. Þannig að hér er auðvitað um að ræða gríðarlega mikla hagsmuni sem eru í húfi. Og einhvern veginn er það þannig að fram undir þetta hafa menn kannski haft svolitla tilhneigingu til þess að taka hestamennskuna og hrossaútflutninginn ekki alveg fullkomlega alvarlega. Menn hafa kannski ekki alveg litið á þetta sem alvörubúgrein þó það sé sem betur fer að breytast þegar menn fara að átta sig á því hvað hér er um að ræða stórkostlega atvinnugrein sem hefur svona mikla vaxtarmöguleika. Kunnugir telja að við séum rétt einungis að byrja í því mikla ævintýri sem fram undan gæti verið í útflutningi á hestum og möguleikarnir á nýjum mörkuðum séu ótalmargir.
    Þess vegna vildi ég ítreka þessar spurningar til hæstv. landbrh. hvort hann telji í þessu sambandi að unnt sé að greiða enn frekar fyrir útflutningi á íslenskum hrossum með því að taka upp viðræður við Evrópubandalagið um þetta sérstaka innflutningsgjald. Í annan stað vildi ég gjarnan heyra álit hæstv. landbrh. á því að íslensk utanríkisþjónusta taki virkari þátt í því að efla markaðsstarfsemi á erlendri grundu fyrir íslenska hestinn þar sem markaðir virðast vera fyrir hendi en á skortir að við höfum afl til að standa að þeirri bráðnauðsynlegu kynningarstarfsemi sem er forsendan fyrir því að við getum eflt þessa útflutningsgrein okkar.
    Virðulegi forseti. Ég kaus í 1. umr. um þetta frv. að fara dálítið út um víðan völl og ræða þetta mál almennt vegna þess að hér er verið að leggja til frv. að lögum sem er lagagrundvöllur fyrir þessa útflutningsstarfsemi. Ég tel að það sé nauðsynlegt að sá lagarammi sé sem almennastur og frjálslyndastur fyrir starfsemina til þess að það verði hægt að efla hana á næstu árum. Við Íslendingar þurfum á því að halda að efla okkar útflutningsstarfsemi og hér sýnist manni vera um að ræða raunverulegan og góðan vaxtarbrodd sem þarf að hlúa að. Ég tel að í öllum meginatriðum sé gengið í þá átt með þessu frv. Ég hef hins vegar af því nokkrar áhyggjur, svo ég dragi þetta nú allt saman, að enn þá standi eftir einhverjir hnökrar sem við gætum lagfært í meðferð þingsins. Ég tek undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að okkur ber að reyna að hraða þessu máli um leið og við vöndum alla efnislega vinnu við það í hv. landbn.