Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:37:09 (6169)


[16:37]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég skal ekki segja um það hvort það séu stöðluð viðbrögð eða ekki. Spurningin er stöðluð og mótið er staðlað og þá hlýtur það sem út úr því kemur að vera líka staðlað. Það liggur fyrir að fulltrúar Íslands mættu ekki á þeim samningafundum sem fjölluðu um íslensk landbúnaðarmál. Það liggur fyrir. Það var ákvörðun síðustu ríkisstjórnar, það var gert á hennar ábyrgð og það er ástæðan fyrir því að Íslendingum gafst ekki færi á né tækifæri til að koma að athugasemdum við einstök atriði. Þetta liggur allt ljóst fyrir. Samningarnefndarmennirnir íslensku komu að landbúnaðarmálunum eftir stjórnarskiptin, það var sú krafa sem ég lagði fram á ríkisstjórnarfundi strax í maímánuði 1991 og mér er ekki kunnugt um annað en að þeir hafi með öllum hætti, í þessu sem öðru, reynt að verja íslenska hagsmuni og ná niður þeim tollum sem þá voru. Auðvitað athuguðu þeir líka hvort þeir gætu þrýst á hagsmuni okkar í sambandi við íslenska hestinn.