Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:57:16 (6177)

[16:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessi till. til þál. er lögð fram til staðfestingar á samningi milli samgrh. og Spalar hf. frá 23. júní sl., um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1990. Sá samningur kemur í stað samnings frá 25. jan. 1991 og er í öllum atriðum samhljóða ef undanskildar eru breytingar sem gerðar voru á 6., 9. og 12. gr. Þær voru ákveðnar að undangenginni undirbúningsvinnu fulltrúa ríkisvaldsins og Spalar hf. og sérfræðinga þeirra. Breytingarnar voru forsenda þess að áfram væri unnt að

vinna að undirbúningi vegtengingarinnar og voru samþykktar í ríkisstjórn 22. júní sl. Þær fela í sér að rekstrartími Hvalfjarðarganga í höndum Spalar hf. styttist, að virðisaukaskattur á umferðargjaldi verði 14% og að ágreiningi sem upp kann að koma verði vísað til dómstóla í stað sérstaks héraðsdóms nema um annað verði samið.
    Á þeim tíma sem liðinn er síðan samningurinn var undirritaður hafa fulltrúar Spalar unnið að undirbúningi framkvæmda. Sú vinna er nú á lokastigi og er gert ráð fyrir að unnt verði að senda verktökum útboðsgögn í lok þessarar viku eða byrjun hinnar næstu. Áætlað er að tilboð verði opnuð í síðari hluta júnímánaðar og að framkvæmdir geti hafist í lok sumars eða snemma hausts.
    Í viðræðum við fulltrúa Spalar hf. hefur komið fram að nauðsynleg forsenda þess að viðunandi tilboð fáist í gerð Hvalfjarðarganga sé að þær breytingar sem gerðar voru á samningnum frá 25. júní 1991 og undirritaðar voru 23. júní sl. verði staðfestar hér á Alþingi í samræmi við 2. málsl. 2. gr. laga um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, en þar segir: ,,Slíkur samningur öðlast ekki gildi fyrr en hann hefur hlotið staðfestingu Alþingis.``
    Til þess að eyða öllum vafa um að samningurinn sé fullgildur er þessi tillaga flutt.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Þessi mál eru ítarlega rakin í greinargerð með þáltill. Ég vona að hv. samgn. geti tekið málið til skjótrar afgreiðslu þannig að það nái fram að ganga á þessu þingi. Að öðrum kosti hljóta framkvæmdir og útboð að dragast á langinn þangað til þing kemur saman að nýju.
    Ég legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og samgn.