Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:15:52 (6181)


[17:15]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er almennt svo um samgönguþáttinn að eftir því sem við náum betri samningum við hið Evrópska efnahagssvæði eða önnur lönd, þá batnar samkeppnisstaða okkar Íslendinga. Það á ekki aðeins við um vöruflutninga á landi, líka vöruflutninga á sjó og vöruflutninga í lofti. Það er þess vegna metið þannig af flutningaaðilum að hvert skref sem við náum þannig til opnari viðskipta sé styrkur bæði fyrir hina íslensku flutningastarfsemi auk þess sem það hefur í för með sér lækkun á flutningskostnaði sem er mjög brýnt fyrir okkur Íslendinga, hvort sem við horfum til lífskjara hér heima eða til samkeppnisstöðu okkar á mörkuðum erlendis.
    Varðandi fyrirspurn hv. þm. um það hver gefi út leyfi skv. 2. gr., þá er kveðið á um að það skuli vera samgrn. eftir þeim reglum sem samningurinn segir til um.
    Í sambandi við ótta hv. þm. um Eimskipafélagið er það að segja að Eimskipafélagið rekur nú þegar flutningastarfsemi á landi og skipafélögin hafa farið inn á þá braut og æ lengri leiðir sem þjónað er nú landleiðina en flutningakerfið á sjónum hefur verið að breytast og lengra á milli viðkomustaða en áður. Ég skal ekki segja um það hver þróunin verður en ég hygg að það sé mat Landvara að þessi opnun á meginlandinu sé góð fyrir þeirra hagsmuni. Þeir hafi meiri möguleika en áður og það svigrúm sem þannig opnast hafi þeir fullan hug á að nýta sér eftir því sem tilefni gefst til.
    Ég tek undir með hv. þm. að við hefðum gjarnan kosið að geta stigið strax stærri skref til opnunar en því miður tókst það ekki og þess vegna er frv. úr garði gert eins og það er, að gert er ráð fyrir tíu leyfum nú á þessu ári og þeim fari síðan fjölgandi á næstu árum.