Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:20:33 (6183)



[17:20]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég fæ að taka þátt í umfjöllun um þetta mál í hv. samgn. en ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði ekki um það í framsögu sinni fyrir frv. hvort hann vonaðist til þess að það yrði hægt að afgreiða þetta mál fyrir þinglok því að þetta mál er það seint á ferðinni að það er mjög snúið að koma því af fyrir lok þingsins. Ég tel ansi vandræðalegt að vera að koma með þessi EES-mál, sem hefur legið fyrir svo lengi að þyrfti að afgreiða á þessu þingi ef þessar reglur koma til framkvæmda í sumar, eins seint og raun ber vitni því að samgn. hlýtur að þurfa að sinna því hlutverki sínu að fara yfir þetta mál og kalla eftir umsögnum og öðru sem því tilheyrir.
    Mig langaði svo að spyrja hæstv. ráðherra aðeins betur út í það sem hér er verið að leggja til. Það er þá sérstaklega um möguleika til flutninganna. Mér sýnist í fljótu bragði að Íslendingar megi reka tvo bíla í tíu mánuði á næsta ári og þeir mega þá líklega reka tvo bíla allt árið á þar næsta ári út frá þeim reglum sem hér er verið að tala um. Það verður því ekki um mikinn atvinnurekstur í flutningum að ræða samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir og varla hægt að ná fótfestu í flutningastarfsemi á næstu árum út á þetta í löndunum í kringum okkur. En í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með þá sem vilja koma til Íslands og reka þessa starfsemi hér? Það er ekkert ákvæði um það að þeir fái aðeins tíu leyfi eins og hér er gert ráð fyrir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti ætlar hann að takmarka aðgang útlendinga að þessum markaði ef einhver skyldi hafa á því áhuga að reka þessa starfsemi, a.m.k. með það í huga að það verði eitthvert samræmi í því sem Íslendingar fá út úr þessum samningi og því sem útlendingar fá?
    Annars ætla ég ekki að ræða þetta efnislega hér og nú. Ég tel ástæðu til að nefndin fari ofan í þetta mál og fái ítarlegar upplýsingar um það sem hér býr að baki og ég fæ tækifæri til að fjalla um þau mál í hv. nefnd.