Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:31:08 (6187)


[17:31]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það má hafa smekk á því hvort menn vilji fljúga í flugvél stórs flugfélags eða lítils ef vélin er vel úr garði gerð. Það liggur fyrir og er hv. þm. vel kunnugt að flugstjórar og þeir sem eru kunnugir flugi hafa áhyggjur af því að ef eiginfjárstaða flugfélaga verður mjög léleg kunni það að verða á kostnað öryggis og viðhalds vélanna. Menn hafa af þessu ríkar áhyggjur og það eru ekki nema tveir dagar síðan maður einmitt úr þeirri stétt vék að þessu við mig. Ég þekki ekki dæmi þess að einhverju flugfélagi hér hafi verið lokað vegna slæmrar eiginfjárstöðu. Hvaða félag var það?
    Það er nýbúið að gefa heimildir, ég vil segja með mjög rausnarlegum hætti til að endurvekja flugfélög og það var ekki gerð tilraun til að standa á móti því vegna hagsmuna þeirra sem fyrir voru í samkeppninni. En ég hygg að Flugmálastjórn hafi ekki farið út fyrir sínar reglur að þessu leyti og með engum hætti níðst á þeim flugfélögum sem eru í landinu.