Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:08:50 (6196)


[18:08]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mér kom að vísu ekki á óvart ræða hv. þm. hér áðan, en nauðsynlegt er að gera við hana nokkrar leiðréttingar og svara sjónarmiðum sem stangast fullkomlega á við þau sjónarmið sem ég hef í mörgum efnum.
    Ég vil í fyrsta lagi víkja að 2. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt sé að endurskipa menn í ferðamálaráð en að þeir sem þar sitja séu ekki ráðnir til ákveðins tíma eða fjögurra ára. Við getum ekki verið að tala um það hvort við séum að hygla einhverjum mönnum pólitískt í þessu sambandi. Það er ekki sú hugsun sem liggur hér á bak við þótt hv. þm. hafi verið að reyna að gefa það í skyn, heldur liggur sú hugsun til grundvallar því sem hér stendur að stjórnskipanin sé virkari en ella, ákveðnari og að trúnaðarmenn ráðherra séu raunverulegir trúnaðarmenn hans. Að í þeim nefndum sem eiga að vera ráðgefandi fyrir ráðherra sitji þeir sem ráðherra getur vel sætt sig við og þá er ég ekki að tala um persónulega heldur er ég að tala um þau sjónarmið og þau markmið sem ráðherrann hefur.
    Það liggur þannig alveg ljóst fyrir að ég er fullkomlega ósammála hv. þm. um að það frv. sem hann lagði fram á þinginu 1990--1991 hafi verið til bóta fyrir ferðaþjónustuna. Af þeim sökum stöðvaði ég frv. í efri deild að ég taldi það ekki til bóta. Á hinn bóginn voru þeir fulltrúar sem áttu að heita mínir í ferðamálaráði þeirrar skoðunar að það væri til bóta að vinna eftir því sem þar var kveðið á um.
    Nú er hins vegar kominn annar ráðherra með annan metnað, með aðra tillögugerð og önnur markmið og vildi standa öðruvísi að málum. Þá er spurningin: Var ekki eðlilegt að þær undirnefndir sem voru mér til ráðuneytis og hafa verið þennan tíma sem ég hef verið ráðherra væru skipaðar af mér? Ég vil í þessu sambandi rifja upp að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á meðan hann var samgrh. var sömu skoðunar og ég. Þannig óskaði hann eftir því að aðstoðarmaður Matthíasar Á. Mathiesens segði af sér þeim trúnaðarstörfum sem hann hafði skipað hann til innan samgrn. og það er til bréf undirritað af fyrrv. hæstv. samgrh., Steingrími J. Sigfússyni, frá 10. nóv. 1988 þar sem hann óskaði eftir því að Hreinn Loftsson hætti sem fulltrúi samgrn. í stjórn Ferðaskrifstofu Íslands.
    Það er því ekki rétt sem hv. þm. sagði hér áðan að hann hafi á meðan hann var samgrh. haft einhver önnur sjónarmið en ég í þessum efnum. Hann sagðist ekki hafa amast við þeim mönnum sem Matthíasarnir tveir höfðu skipað til verka, Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason, þegar fyrir liggur í skjölum ráðuneytisins bréf sem sannar hið gagnstæða. Ég er ekki að segja þetta til þess að áfellast þær skoðanir forvera míns að það geti verið nauðsynlegt fyrir ráðherra að skipta um menn í trúnaðarstöðum, ég er þvert á móti að leggja áherslu á að ég tel að Steingrímur J. Sigfússon hafi farið þar rétt að. Ég tel

að þeir menn sem séu ráðherra til ráðuneytis eigi að finna og vita það sjálfir að það er ætlast til þess af þeim að þeir gæti þess trúnaðar umfram allt.
    Ég hafði sjálfur þann háttinn á þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lét af störfum í septembermánuði árið 1988 að segja mig úr öllum þeim nefndum sem ég var skipaður í af ráðherrum vegna þess að ný ríkisstjórn hafði tekið til starfa og ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnir verði sjálfar að ráða sínum trúnaðarmönnum og sínum vinnubrögðum.
    Um þetta er ágreiningur milli okkar. Um þetta er ágreiningur. Ég er ekki að fara fram á það að fá að endurskipa í stjórnir og ráð til þess að mínir trúnaðarmenn geti setið lengi eftir að ég fer úr embætti, þvert á móti er ég að opna greiða leið fyrir þann sem við tekur af mér til þess að hafa meiri áhrif inn í stjórnskipan ríkisins. Ég er því ekki að tala um pólitíska misnotkun. Ég er þvert á móti að greiða fyrir því að eftirmanni mínum gefist tækifæri á því að skipta um menn eftir því sem hann telur rétt. Ef hann vill hafa sömu menn þá er honum auðvitað frjálst að gera það. Eins og ég sagði þá er reynsla fyrir því að sveitarfélögin hafa unnið með þeim hætti í ferðamálum sem ég er að lýsa. Þannig var ástandið í t.d. stjórn ferðamálasjóðs á síðasta ári að í henni átti sæti maður sem ekki sat lengur í ferðamálaráði af því að hann hafði orðið að víkja þar, hann hafði flust búferlum og gat ekki lengur verið fulltrúi þess sveitarfélags sem hann áður var. Svo einfalt er það. Þessi regla hefur því verið viðhöfð af sveitarfélögunum í þessari starfsemi. Hún er líka viðhöfð af hagsmunaaðilum.
    Ég er auðvitað sammála hv. þm. um að það sé álitamál hvort það eigi að hugsa sér að Reykjavíkurborg annars vegar og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar eigi sinn hvorn fulltrúann í framkvæmdastjórn ferðamálaráðs. Þetta er matsatriði. Hugsunin á bak við það er sú að Reykjavíkurborg sé það öflugur aðili innan ferðaþjónustunnar að af þeim sökum sé gagnlegt að borgin eigi fulltrúa í framkvæmdastjórninni. Og með sama hætti megi það ekki vera á kostnað þess að sjónarmið annarra sveitarfélaga úti á landsbyggðinni komi fram. Þetta eru þau rök sem liggja til grundvallar þessari breytingu af því að ekki var svigrúm til þess að skipa bæði fulltrúa Reykjavíkurborgar og svo landsbyggðarinnar nema að það yrði á kostnað þess að samgrh. gæti ekki skipað formann ferðamálaráðs án tilnefningar.
    Ég er líka þeirrar skoðunar að varaformaður ferðamálaráðs eigi að sitja í framkvæmdastjórn ráðsins gagnstætt því sem stundum hefur verið. Um það má líka deila. En þetta er mín skoðun. Ég álít að þetta sé til bóta fyrir starfsemi ferðamálaráðs og er þess vegna hér flutt. Það er ugglaust rétt hjá hv. þm. að þetta skiptir svo sem engum sköpum en það gæti orðið til að liðka fyrir ýmsu og í sumum tilfellum orðið kveikjan að því að gera mögulegt að ráðast í verkefni sem annars lægju hjá garði. Þetta er um það að segja.
    Ég get ekki látið því ósvarað þegar hv. þm. segir að í skipulagi ferðaþjónustu hafi ekkert gerst þau þrjú ár sem ég hef verið samgrh. og að fjárveitingar til ferðamála séu minni nú en áður hefur verið. Það eru ekki margir dagar síðan starfsemi ferðamálaráðs var skilgreind með öðrum hætti og sá hluti hennar sem lýtur að upplýsingaöflun, umhverfismálum og skipulagi ferðamála innan lands var flutt til Akureyrar til að leggja áherslu á þann þátt starfseminnar. Á bak við það liggur sú hugsun að skrifstofa ferðamálaráðs í Reykjavík hafi á undanförnum árum látið það sitja fyrir að sinna ýmsum opinberum störfum og snúa sér fremur að því sem lýtur að markaðssetningu erlendis heldur en skipulagi ferðamála hér heima, heldur en að því að laða saman krafta þeirra sem þar eiga hagsmuna að gæta víðs vegar á landsbyggðinni og koma öðrum sjónarmiðum á framfæri.
    Þetta er auðvitað alveg gjörbreyting. Ég held því fram að á skömmum tíma muni þessi breyting skila miklum árangri. Ég tel að hún muni vaxa meira en við sjáum fyrir nú á þessari stundu og ég tel að það sé líka mjög gagnlegt fyrir ferðaþjónustuna víðs vegar um landið að efna þannig til skipulagðs og beins samstarfs milli þessa hluta ferðamálaráðs og útibúa Byggðastofnunar í öðrum fjórðungum. Þarna er komið greiðara og nánara samband en áður var. M.a. hefur Ferðaþjónusta bænda tekið þessari breytingu mjög vel og telur að hún muni hafa góð áhrif á starfsemi þeirra. Ég tel því að þarna sé um skipulagsbreytingu að ræða sem muni marka viss þáttaskil. Skýringin á því að ég kom ekki með hana inn í þingið er sú að ég hafði tækifæri til að gera þetta, heimildir til að gera þetta innan laganna eins og þau eru nú og þurfti þess vegna ekki að leggja það fyrir þingið.
    Það er þannig með sum lög til allrar hamingju að ráðherrar þurfa ekki að koma inn á Alþingi út af hverju einu heldur hafa þeir visst svigrúm ef þeir á annað borð vilja hafa frumkvæði að því að breyta hlutunum.
    Ég held að það sé heldur ekki rétt --- nú skal ég ekki segja hvort hv. þm. hefur athugað það gaumgæfilega, ég hef ekki flett því upp í fjárlögum, en eftir þeim heimildum og upplýsingum sem ég hef frá aðilum í ferðaþjónustu er gert meira á þessu ári til markaðsátaks erlendis á sviði ferðaþjónustu af opinberri hálfu en nokkru sinni fyrr. Þannig var að samkvæmt fjárlögum er heimild fyrir því að ég verji 40 millj. kr. af ráðstöfunarfé stofnana undir samgrn. til sérstaks markaðsátaks erlendis og enn fremur kemur Framleiðnisjóður landbúnaðarins að þessu verkefni og á móti leggja Flugleiðir fram 50 millj. kr. Þessu fé hefur verið varið til að auglýsa, kynna og markaðssetja Ísland með öðrum hætti en áður hefur verið, m.a. í virtum tímaritum eins og Stern og með ýmsum öðrum hætti. Ég skal ekki segja hvort það hefur þegar skilað nokkrum árangri en hitt liggur alveg ljóst fyrir að þær pantanir og bókanir sem nú hafa verið gerðar lofa góðu um næsta sumar. Það liggur líka fyrir að við munum reyna að kynna okkur það á sumri komanda hvort rekja megi hingaðkomu einhverra ferðamanna til þessa sérstaka átaks sem við beitum okkur fyrir og allir þeir aðilar sem að koma líta til með mikilli bjartsýni.
    Loks hefur tekist samvinna um það við aðila innan lands, bæði sveitarfélög og aðila í ferðaþjónustu, fyrir utan stórfyrirtækin Mjólkursamsöluna og Olíufélag Íslands að efna til sérstaks ferðaátaks innan lands sem ég hygg að muni líka skila góðum árangri. Ég held að þessi tvenns konar sókn, bæði út á við með markaðsátakinu með Flugleiðum og inn á við með þessu sérstaka ferðaátaki, með þeim samningi og því samkomulagi sem við gerðum, ég og ferðamálaráðherra Grænlands, um að kynna löndin saman og ýmislegt annað sem er í deiglunni og hefur komist í framkvæmd sýni einmitt að við erum farnir að standa að ferðamálunum öðruvísi en áður. Við leggjum meira undir og ég vil trúa því að það muni skila sér margfalt til baka og verða til þess að auka þær gjaldeyristekjur sem við höfum af ferðaþjónustunni.
    Ég minni á að þessi atvinnuvegur er að því leyti jákvæður að hann skilar sér í atvinnu í öllum fjórðungum en á hinn bóginn hygg ég að ýmislegt sé það í skipulaginu hjá okkur sjálfum Íslendingum sem við verðum að huga að betur en áður sem bæði lýtur að umhverfismálum, aðstöðu til móttöku ferðamanna, aðbúnaði og öðru þvílíku.