Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:23:40 (6197)

[18:23]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta mál en það hefur haft langan meðgöngutíma. Þegar hæstv. samgrh. kom í embætti var honum mikið kappsmál að ota sínum mönnum og þá byrjaði hann að hugsa upp þessa reglu sem hér er sett upp með stjórnirnar. En tíminn hefur nú liðið og ferli hæstv. samgrh. er senn að ljúka og ég vona að það eigi ekki yfir þjóðina að ganga að hafa þessa ríkisstjórn mikið lengur. Það hefur sannarlega ekki verið stofnað neitt þúsundáraríki í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
    Þetta er ekkert stórmál. Ég held að við komumst ekki hjá að uppfylla þau skilyrði sem við tókum á okkur með inngöngu í Evrópskt efnahagssvæði. En ríkisstjórninni hættir til hvað eftir annað að hengja utan á nauðsynlegar breytingar á lögum sem leiða af Evrópsku efnahagssvæði eða Brussel-reglunum ýmislegt fleira og yfirleitt er það heldur til óþurftar. Ef þeir sem skipaðir hafa verið í trúnaðarstöður hafa geðslag og skapstillingu til að starfa með nýjum ráðherra þá sé ég ekkert á móti því. Mér finnst þetta heldur óheppileg regla sem hér er verið að taka upp.