Skipulag ferðamála

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:36:11 (6199)


[18:36]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er af því að hv. þm. dró almennt aðstoðarmenn ráðherra inn í umræðurnar. Það var þannig að 20. okt. 1988 skrifaði aðstoðarmaður Matthíasar Á. Mathiesens bréf til samgrh. þar sem hann sagði sig úr pólitískt skipuðum ráðum og nefndum nema úr stjórn Ferðaskrifstofu Íslands sem fyrrv. samgrh. bað hann um að segja lausri með formlegum hætti einnig. Nú er það svo að hv. þm. hafði tvo aðstoðarmenn. Annan í samgrn. og hinn í landbrn. Annar þeirra, sá í samgrn., sat sem varaformaður ferðamálaráðs fram á sl. haust og varamaður hv. samgrh. í landbrn. situr enn í stjórn framleiðnisjóðs. Ég vek athygli á þessu að það er greinilegt að aðstoðarmenn ráðherra fara misjafnlega að.