Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 13:51:27 (6211)


[13:51]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það liggur svo mikið á hjá hæstv. ráðherrum að keyra í gegn ákvarðanirnar frá Brussel að það er ekki haft fyrir því að doka við þangað til ráðuneytið getur komið því í verk að reikna út áætlaðan kostnað eða fá fjmrn. til þess með sér því það er fjmrn. sem á að gera þetta að jafnaði, hagsýsla þess sem stendur að slíkum útreikningum. Ráðherrann talaði um að þetta væri í athugun í ráðuneytinu. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra á við félmrn. eða hagsýslu fjmrn. í þessu sambandi en ráðherra upplýsti okkur hér um að það mundi fylgja þessu óverulegur kostnaður, ef ég tók rétt eftir. Óverulegur kostnaður. Ég heyrði ekki betur en hér væri um stórfelldar auknar skuldbindingar að ræða í sambandi við upplýsingar og það kemur dálítið spánskt fyrir sjónir ef því á að fylgja óverulegur kostnaður nema ráðherrann líti svo til að annað frumvarp um vinnumiðlun sem verið er að samþykkja tengist ekki þessu máli og sá kostnaður sem þar er kemur væntanlega fram teljist ekki til þessa máls og eigi ekki upptök sín í því.