Röð mála á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 13:56:14 (6215)

[13:56]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem ég hafði skilið dagskrá þessa fundar þá leit ég svo á að hér ætti að ræða EES-mál því að í drögum að vikudagskrá sem við þingflokksformenn fórum yfir þá er á miðvikudegi EES-mál, framhald 2. umr., sem er fyrst sett þar á blað. Það er í samræmi við það sem er á dagskrá í dag, þ.e. að 10. málið er framhald af umræðunni sem hér hafði verið hafin um EES-mál. Síðan gerist það að hér er verið að mæla fyrir málum sem eru nr. 11 og 12 og virðist eiga að halda áfram hér niður og menn eru engan veginn undirbúnir undir það. Ég held að flestir sem hér eru hafi reiknað með því að það ætti að byrja á því að taka fyrir 10. málið. Ég vil því mótmæla því við hæstv. forseta að þannig sé staðið að dagskrá.