Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:04:05 (6218)

[14:04]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Eftir allítarlega umfjöllun um þetta mál, bæði á þessu þingi og fleirum þá náðist samstaða um að fara þá leið sem hér um ræðir. Hér er um nýmæli að ræða hér á landi, ekki einungis þar sem ekki hefur áður verið boðið upp á þennan möguleika við afplánun dóms, heldur einnig vegna þess að hér er hafður nokkuð annar háttur á heldur en erlendis þar sem þessi úrræði hafa verið reynd. Kemur það m.a. til af sérstöðu okkar samfélags og smæð samfélagsins en einnig vegna þess að ákveðin rök voru fyrir því að reyna þetta. Þess ber að geta að það er ekkert afskaplega löng reynsla í öðrum löndum af þessum málum þannig að það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að gera þessa tilraun þar sem ákveðin rök hnigu að því að hafa þennan hátt á hér að um stjórnvaldsaðgerð væri að ræða en ekki dómsvaldsaðgerð.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að það kom fram í störfum nefndarinnar að hér væri ekki verið að grípa til einhverra aðgerða til þess að leysa húsnæðisvanda fangelsa sem vissulega er nokkur, hann þarf að leysa með öðrum hætti. Það verður farið mjög varlega í það að nýta þennan kost og það finnst mér bera vott um ábyrgð og treysti því að það gangi eftir.
    Annað sem mér finnst líka sérstök ástæða til að taka fyrir hér er það að þessi kostur kemur ekki í stað annarra úrræða sem hafa verið notuð, t.d. undir lok fangelsisvistar þar sem einhverjum föngum, sem hafa átt í sérstökum vandamálum vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu, hefur verið boðið upp á að ljúka afplánun sinni í vímuefnameðferð. Það held ég að sé afskaplega góður kostur en það var sérstaklega tekið fram í umfjöllun í nefndinni að hér er ekki verið að tala um að þetta komi í stað eða til viðbótar slíku úrræði, heldur sem sjálfstæður kostur.
    Hér finnst mér skipta verulegu máli að farið sé varlega af stað því að við höfum í raun engar hliðstæður til að miða við vegna þess hversu fámennt okkar samfélag er og heldur ekki vegna þess að að mörgu leyti hefur hvert samfélag, líka íslenskt samfélag, ákveðin sérkenni varðandi afbrot. Hér á landi t.d. er áfengisneysla og áfengismenning e.t.v. stærri þáttur í afbrotum heldur en annars staðar þar sem önnur þjóðfélagsleg atriði geta einnig vegið þyngra en hugsanlega gæti verið hér á landi, en þar á ég við atvinnuleysi sem fram til þessa hefur ekki verið ýkja mikið vandamál hér og verður það vonandi ekki í framtíð ef myndarlega verður tekið á þeim málum. Ég á einnig við þau einkenni stórborgar sem við höfum vissulega kynnst í smáum stíl hér á landi en eru auðvitað stórfelld vandamál og miklu meiri annars staðar.

    Ég tel að það sé langmikilvægast í afgreiðslu þessa frv. að hér er um tímabundna tilraun að ræða og að allir sem að málinu hafa komið eru sammála um það að hér verði að fara að með gát og reyna eftir fremsta megni að nýta þetta úrræði á þann hátt að það fylgi því bæði ábyrgð og að menn séu reiðubúnir að skoða það gagnrýnum huga hvernig til tekst.
    Það er ýmislegt sem e.t.v. væri ástæða til að taka hér fyrir en ég verð að viðurkenna að ég átti von á og var búin að búa mig undir aðra umræðu í dag og samkvæmt dagskrá var ekki gert ráð fyrir að þetta mál kæmist til umræðu miðað við það hversu viðamikið mál 10. dagskrármálið er. En eins og fram hefur komið hefur hér orðið breyting sem kom fleirum en mér í opna skjöldu, m.a. hv. formanni allshn. sem hér lenti í að taka þetta mál til umræðu jafnóvænt og sú sem hér stendur. En ég tek það fram að ég stend heils hugar að því að þetta mál sé afgreitt með þeim hætti sem það er gert. Ég gat því miður vegna veikinda ekki verið viðstödd afgreiðslu málsins en ég hef hins vegar komið að því innan allshn. og fannst ástæða til að taka þau atriði fram sem ég gat hér um.