Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:34:54 (6227)


[14:34]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög náið samband milli mín og Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra. Það eru álitamál sem víkja að þessu frv. hér og ég vil líka segja að þetta frv. sé þess eðlis að það er vel fallið til að hafa langar umræður hér við 1. umr. En ég hef bæði haft samband við formann samgn. og eins við forustumenn leigubifreiðastjóra og aðra er málið varðar til þess að biðja þá að fara mjög vel ofan í málið því að hér séu mörg álitamál á ferðinni. Það má taka sem dæmi 1. gr., hvort við eigum að tala um hlutaðeigandi stéttarfélag bifreiðastjóra eða bara félag bifreiðastjóra. Það eru þannig mörg álitamál sem nauðsynlegt er að þingið sjálft myndi sér skoðun á. Við erum ekki að tala hér um flokkspólitísk málefni eða mál af þeirra tagi heldur viðkvæmt atvinnumál sem kemur mjög inn á neytendamál og ýmsar skoðanir eru uppi um. Og ég vísa því algerlega til föðurhúsanna ef verið er að tala um að ekki hafi verið haft samband við leigubifreiðastjóra um þessi mál. Margir af forustumönnum þeirra hafa lýst ánægju sinni yfir frv. eins og það er, en það hefur líka komið fram að það sé rétt að gera þar ákveðnar lagfæringar. Það er síður en svo að ég sé með einhverjar stífar meiningar á ýmsum þeim álitamálum sem hér eru borin fram, en nauðsynlegt var að frv. kæmi fyrir þingið.