Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:10:59 (6234)


[15:10]
     Steingrímur J. Sigfússon ( andsvar) :
    Hæstv. forseti. Því atriði að ég hafi mikinn áhuga á því að hafa vit fyrir öðrum svara ég þannig að ég reyni a.m.k. ekki að hafa vit fyrir hv. þm. Árna Johnsen. Hann verður að sjá um það sjálfur.
    Varðandi miðstýringaráráttu mína, þá get ég svo sem farið út í umræður um það. Ég hef ekki séð að hæstv. núv. ríkisstjórn ætti að hætta sér langt út á þann ís.
    Um að ganga út frá tímabundnu ástandi, sem sé atvinnuleysi, þá sé ég því miður ekki neitt fararsnið á atvinnuleysinu, a.m.k. ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég leyfi mér þess vegna, því miður, að halda því fram að við verðum frekar að reikna með því að verða að búa við það a.m.k. jafnlengi og við höfum þessa ríkisstjórn og eitthvað lengur því að það mun taka tíma að vinda ofan af því atvinnuleysi sem hún hefur sannanlega innleitt í sinni tíð í landinu.
    Ég held svo að það hafi verið óskynsamlegt af hv. þm. Árna Johnsen að vera sérstaklega að vekja athygli á frv. þeirra félaganna, hv. þm. Björns Bjarnasonar, Árna Johnsens, Egils Jónssonar og nokkurra fleiri, vegna þess að á sama tíma erum við hér að ræða stjfrv. flutt af hæstv. samgrh., sjálfstæðismanninum Halldóri Blöndal, sem gengur í þveröfuga átt. Þetta er að vísu að verða tíska í ríkisstjórninni og hjá meiri hlutanum. Ráðherrarnir koma með frumvörp, hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson með frv. um fiskveiðistjórnun, svo koma 12 stjórnarliðar og flytja frv. um alveg gerólíkt fyrirkomulag. Hæstv. ráðherra Halldór Blöndal kemur hér með leigubílafrv. Nokkrum dögum seinna koma þeir hv. þm. Björn Bjarnason, Árni Johnsen og fleiri stórsnillingar og flytja tillögu um ákvæði sem gengur í þveröfuga átt. Ég held því að þeir ættu að ræða þetta í þingflokki Sjálfstfl. áður en þeir félagarnir fara að taka upp orðaskipti við menn úr öðrum flokkum. Þeir eru greinilega ekki í takt við flokksbróður sinn og hæstv. foringja í samgöngumálum, hæstv. samgrh. Eitthvað er því að á kærleiksheimilinu, í þingflokki Sjálfstfl.