Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:56:23 (6246)


[15:56]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar maður hlustar á þær umræður sem hér hafa farið fram þá getur hugurinn ekki annað en hvarflað að því að á sl. 100 árum eða raunar styttri tíma, frá því eftir aldamót, hafa málefni hinna starfandi stétta í samfélaginu og réttindamál þeirra breyst afskaplega mikið. Í upphafi aldarinnar og lengi fram eftir miðaðist félagsleg viðleitni við það að taka höndum saman og standa saman í kjarabaráttunni og réttindabaráttu sinni.
    Núna á allra síðustu tímum virðast vindarnir blása í þveröfuga átt. Það er reynt á ýmsa vegu að draga það í efa að samtakamátturinn sé nokkurs virði og samstaðan sé einhvers virði og við berum einhverja ábyrgð hvert á öðru. Sá dómur sem féll úti í Brussel um réttindi þessa ágæta manns, atvinnubifreiðastjórans, til að vera ekki í félagi er eitt ljóst dæmi um þá þróun sem er að verða í íslensku samfélagi, þróun sem ég ber dálítinn kvíðboga fyrir. Hvað á að koma í staðinn fyrir samtakamáttinn? Eigum við

öll að pota hvert í sínu horni, bifreiðatjórar, kennarar og alþingismenn? Hver út af fyrir sig að berjast fyrir sínum rétti.
    Mér finnst þetta mjög varhugaverð þróun. Það getur vel verið að það sé hægt að segja um bifreiðastjóra að þeir séu í rauninni atvinnurekendur, reki hver sinn bíl, en atvinnurekendur hafa líka hér á Íslandi a.m.k. eða víðast hvar sem ég þekki til séð sér hag í því að standa saman í félögum til þess að sjá sínum málum borgið. Nú er skyndilega orðið svo að það er afskaplega gott fyrir launþegana að vera ekki í stéttarfélagi eða neinum samtökum sem standa saman að því að reka réttindi og önnur mál sem við koma starfsgreininni. Þetta er alveg stórkostlega undarleg þróun sem hefur átt sér stað og afskaplega varhugaverð. Ég hef ekki getað séð það að vinnuveitendur líti svo á að það sé betra fyrir þá að vera ekki í samtökum vinnuveitenda, en þeir boða okkur að það sé betra fyrir okkur launþega að vera ekki í samtökum. Við eigum að standa ein og semja fyrir okkur sjálf. Þetta er þróun sem er því miður að eiga sér stað og við erum búin að játast undir tilskipanirnar frá Brussel og verðum að beygja okkur samkvæmt því.
    Þetta er áhyggjuefni fyrir mig og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir allt hugsandi fólk. Við græðum ekki á þessu, við töpum á þessu. Bílstjórinn sem vann mál sitt svo glæsilega í Brussel er að tapa og stéttin sem ætlar sér að fylgja í fótspor hans tapar líka á þessu. Það hefur komið margsinnis fram í umræðum að lífeyrisréttindi þessara stétta séu mjög takmörkuð og þar af leiðandi þurfi bifreiðastjórar að geta keyrt bílinn sinn fram í rauðan dauðann. Það getur vel verið að svo sé en það þarf að laga þau mál fyrst og fremst en ekki að sundra stéttinni og félögunum.
    Fari svo að stéttarfélög bifreiðastjóra splundrist og hver vinni fyrir sig, þá er þeim mun meiri ástæða til þess að athuga um leyfin til starfanna vegna þess að bifreiðastjórn er afskaplega vandasöm. Hún varðar ekki bara þann sem stjórnar bifreiðum heldur alla aðra sem njóta þjónustu viðkomandi aðila og alla vegfarendur. Það er því ástæða til að íhuga það hvort bifreiðastjóri eigi að missa meiraprófsréttindi um sjötugt eða hvort leita eigi einhverra annarra leiða. Ef ekki á að takmarka réttindin á einhvern hátt miðað við aldur, þá verður alla vega að takmarka þau miðað við andlegt og líkamlegt ástand mannsins. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra og aðrir þeir sem þessum málum ráða þurfi alla vega þá að koma því að í lögunum að fólk sem orðið er sjötugt og vill stunda akstur sem atvinnugrein verði að ganga undir læknisskoðun á vissum fresti til þess að geta fengið vinnuleyfi sitt framlengt.
    Þetta tvennt vildi ég nefna: Að það verður að vera einhverjum skilyrðum háð að fólk fái að halda starfsleyfi fram eftir öllum aldri og hitt að það er varhugavert að líta svo á að það hafi verið stórsigur sem unninn var í Brussel.