Mál á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 16:06:51 (6251)


[16:06]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þetta gengur náttúrlega bara alls ekki. Það hafði verið tilkynnt í þingflokkunum á mánudaginn var, hygg ég, að frv. til laga um Lyfjaverslun ríkisins yrði rætt seinna í þessari viku, þ.e. á morgun að ég hygg. Þá hefðu menn búið sig undir það að þeir sem því máli sinna a.m.k. fyrir flokkana byggju sig undir það að fara í umræður um málið. Að ætla sér hins vegar að setja núna fund með tveggja tíma fyrirvara og boða það að þetta stóra mál verði tekið til umræðu eru algerlega fráleit vinnubrögð. Það er útilokað að sætta sig við vinnubrögð af þessu tagi fyrir hina almennu þingmenn sem ekki ráða forustu í þessari stofnun.
    Ég lýsi því yfir að ég tel að þetta sé í rauninni grimmasta móðgun við þá menn sem vilja vanda málflutning sinn og taka þátt í umræðum með eðlilegum hætti ef það á að fara að róta þessu máli inn á óundirbúinni dagskrá með tveggja tíma fyrirvara. Ég mótmæli því og skora á hæstv. forseta að slíta nú fundi og setja ekki nýjan fund fyrr en á morgun með venjulegum hætti.