Mál á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 16:09:26 (6253)


[16:09]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er svo að segja nýlokið þingflokksformannafundi með forseta niðri í húsakynnum Alþingis þar sem þetta mál var rætt. Það er rétt að það varð niðurstaða af þeim fundi að menn mundu fara með það til sinna félaga að það yrði fundur áfram kl. 6 eftir að þingflokksfundum lyki og ég stóð að þeirri gerð. Ég taldi að það væri óhætt að reyna þetta. En auðvitað liggur sá fyrirvari ævinlega á bak við þegar menn eru að tala um svona hluti að einstakir þingmenn eru ekki fyrir fram bundnir af slíku samkomulagi eins og hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. veit auðvitað. Ég get ósköp vel skilið það að þeir menn sem hafa ætlað að blanda sér í þessa umræðu síðar, þó þeir hafi ekki verið búnir að setja sig á mælendaskrá, hafi einhverjar athugasemdir við þessa meðferð málsins.
    En vandræðin á dagskránni í dag er ekki þeim mönnum að kenna heldur hefur það nú komið upp

á að aðalmál dagskrárinnar, EES-málið, sem menn ætluðu að ræða í dag og töldu að mundi taka allan tímann og voru að ræða önnur mál meira og minna óundirbúnir þess vegna, það var ekki hægt að ræða vegna þess að hæstv. ráðherra, sem átti að vera viðstaddur, hljóp í burtu og hlýtur að hafa gert það með mjög litlum fyrirvara því að það virðist hafa komið hæstv. forseta þingsins í opna skjöldu. Þess vegna standa menn frammi fyrir þessum vandræðum. Það er auðvitað þess vegna sem hér er verið að bjóða upp á a.m.k. lausn sem ekki er nema eðlilegt að einhver óánægja sé með.