Mál á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 16:11:48 (6255)


[16:11]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú spurning hvaða nafn á að gefa því þegar þingflokksformenn og forusta þingsins hittast kl. 3 á sama tíma og þeir þingmenn sem á annað borð nenna að sinna skyldum sínum eru bundnir af umræðum uppi í sal. Hér voru þeir sem eru viðstaddir flestir hverjir þátttakendur í umræðu um frv. til laga um breytingu á leigubílalögum og áttu þess ekki kost að taka þátt í einhverju samráði né samþykkja eitthvað sem kom út úr fundum þingflokksformanna. Það sem maður fréttir svo hér þegar verið er að slíta fundi kl. 4 er að það eigi allt í einu að taka á dagskrá kl. 6 mál sem eru á starfsáætlun þingsins á morgun og maður var búinn að reikna með að geta treyst því að kæmi þá til umræðu. Ég er að vísu búinn að mæla fyrir minni afstöðu í málinu sem einn af nefndarmönnum en ég ætla að sjálfsögðu að vera viðstaddur umræðuna áfram og taka aftur til máls ef svo ber undir og það kemur sér mjög illa fyrir mig, sem hafði reiknað með því að geta ráðstafað mínum tíma með öðrum hætti, að frétta af svona breytingum með nokkurra mínútna fyrirvara. Þetta verða menn náttúrlega að skilja hvað sem líður því að þetta hafi verið ráðslagað í herbergi neðar í húsinu fyrir svo sem klukkutíma síðan. Það breytir ekki þeirri aðstöðu sem það setur óbreytta þingmenn í og eru þeir þó ekki orðnir of margir sem eru að reyna að vinna hér af einhverju skipulagi, af einhverju viti eins og viðvera hér dögum oftar ber vitni um.
    Ég trúi því þess vegna ekki að forseti þingsins og þingflokksformaður Sjálfstfl. þegar þeir hugleiða málið sjái það ekki að í þessu ljósi séð eru þetta ekki góðar uppákomur að þurfa að standa í hringli af þessu tagi með málið. Og ég hlýt að lýsa megnustu óánægju minni með það að þessu verði breytt. Ég get á þessu stigi engan veginn fullyrt það að ég komi því með nokkrum hætti við að vera viðstaddur umræðuna þegar hún hefst kl. 6. Og það finnst mér bölvað að rétturinn sé þar með tekinn af manni til þess að vera viðstaddur umræður um þau mál sem maður sérstaklega vill láta sig varða. Ég hafði reiknað með því að fundarhaldið, það sem eftir yrði ef eitthvað, mundi snúast um þau mál á dagskrá fundarins í dag sem hafa legið fyrir síðan í morgun og ekki eru útrædd, en það eru fyrst og fremst 10. og líklega 15. dagskrármálin og önnur ekki. Í rauninni er því búið að skila hér ágætu dagsverki og nánast tæma þá dagskrá sem lá fyrir og var hún þó upp á 18 mál.
    Ég ítreka því óánægju mína með þetta hæstv. forseti. Ég tel þetta engan veginn vinnubrögð sem gangi og það er spurning hvort þá er ekki betra að sleppa því með öllu að gera starfsáætlanir fyrir vikuna ef hringlað er svo með þær með þessum hætti því það getur verið að mörgu leyti verra fyrir mann en ekki neitt ef menn hafa treyst því að þær mundu halda.