Mál á dagskrá

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 16:20:19 (6259)


[16:20]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það væri kannski ástæða til þess í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram að ræða betur um þá tilhögun sem var gert ráð fyrir. Ég held að það sé til hins betra að reyna að hafa eitthvert samkomulag um hlutina og hleypa ekki þinginu í það farið að slegist verði um stjórn mála eins og nú er verið að gera.
    Svo vil ég segja það líka vegna orða hv. þm. Geirs Haardes um að það væri sambandslítið á milli okkar alþýðubandalagsmanna, að við vorum staddir niðri í herbergi hjá hæstv. forseta áðan. Ég þurfti að fara beint í ræðustól frá þeim fundi. Það var stutt ræða sem ég flutti og önnur sem hæstv. ráðherra hélt þar á eftir sem ég þurfti að hlusta á og stutt andsvör og síðan ræða hjá hv. 18. þm. Reykv. sem var líka mjög stutt og andsvar ráðherrans. Ég hlustaði á þetta og hafði ekki gefið mér tíma til --- og það verður hver að lá mér sem vill, hann er þá mikill afreksmaður hv. þm. Geir Haarde ef hann hefur verið búinn að ná samkomulagi við sína menn alla um að láta gilda það samkomulag sem við vorum að ræða um þarna niðri.