Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:02:18 (6262)


[18:02]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 75 er að finna 72. mál þingsins sem er frv. til laga um breyting á lögum nr. 21 frá 5. maí 1990, um lögheimili. Efni þess frv. er þrjár greinar. Allshn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar og afgreitt það frá sér og meiri hluti nefndarinnar hefur afgreitt málið með svohljóðandi nál., með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara og frá Hagstofu Íslands Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Skúla Guðmundsson skrifstofustjóra. Nefndinni bárust á 116. löggjafarþingi umsagnir frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra og Hagstofu Íslands og á 117. löggjafarþingi frá félmrn. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frv. þetta var afgreitt frá allshn. á síðasta þingi en dagaði uppi vegna ófyrirsjáanlegra þingloka.
    Með frv. er lagt til að tekin verði í lögheimilislög heimild til handa þeim sem búa á dvalarheimili eða í húsnæði, sem ætlað er öldruðum, til að eiga áfram lögheimili þar sem þeir höfðu fasta búsetu áður.
    Núgildandi lögheimilislög voru samþykkt á Alþingi 21. apríl 1990 og tóku gildi 5. maí sama ár. Meginregla samkvæmt lögunum er að maður eigi lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu, en jafnframt eru gerðar undantekningar frá þeirri reglu hvað varðar námsmenn, alþingismenn og ráðherra.
    Fram hefur komið við framkvæmd laganna að þau geta leitt til verulega ósanngjarnrar niðurstöðu

gagnvart öldruðu fólki. Verði frv. að lögum geta aldraðir átt val um hvort þeir kjósa að halda lögheimili í sínu gamla sveitarfélagi og getur slíkt verið verulegt réttlætismál, t.d. ef annað hjóna flytur einhverra aðstæðna vegna á dvalarheimili á undan hinu.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að um réttlætismál sé að ræða og leggur því til að frv. verði samþykkt.``
    Auk mín rita undir þetta nál. Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jón Helgason, Ingi Björn Albertsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Eyjólfur Konráð Jónsson.