Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:11:33 (6264)


[18:11]
     Ólafur Þ. Þórðarson :

    Herra forseti. Ég þakka allshn. fyrir vönduð vinnubrögð á afgreiðslu á þessu máli og mætti það vera til fyrirmyndar þegar stór mál eru til umræðu hvað hún hefur gefið sér góðan tíma til að fara yfir þetta og ekki verið að flana að neinu. Hins vegar virðist gæta viss misskilnings hjá minni hlutanum í þessu máli og er hann aðallega í því fólginn að sú uppsetning á brtt. sem minni hlutinn hefur sett fram gengur út á það að manni sem flyst á dvalarheimili aldraðra er heimilt í allt að 18 mánuði frá flutningi að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi sem hann hafði fasta búsetu í áður. Auðvitað má hann áfram eiga lögheimili í því sveitarfélagi meira en 18 mánuði, fyrr mætti nú vera bölvuð vitleysan. Ef hann flytur úr Lönguhlíð á Hrafnistu í Reykjavík má hann þá ekki eiga lögheimili í Reykjavík nema 18 mánuði eftir að hann flytur úr Lönguhlíðinni? ( Gripið fram í: Ekki samkvæmt brtt.) Samkvæmt brtt. er gert ráð fyrir að hann verði bara að flytja sig eitthvert annað. Þarna hefur náttúrlega slegið út í fyrir ágætu fólki og ég vona að áður en þetta kemur til atkvæða þá átti menn sig á því að þetta var ekki hugsun minni hlutans. Það var ekki hugsun minni hlutans, eða ég trúi því ekki, heldur hitt ef um flutning væri að ræða á milli sveitarfélaga, það er sú hugsun sem um er að ræða. Ég vil hvetja minni hlutann í allri vinsemd til þess að fara yfir þetta þannig að sú hugsun sem ég tel að sé þarna á bak við komist til skila.
    En ég lít svo á að það geti verið jafnmikið réttlætismál fyrir mann sem býr í Reykjavík og mann sem býr úti á landi að fá að halda sínu lögheimili í Reykjavík. Hvers vegna má maður sem býr, svo við höldum áfram, í Lönguhlíðinni ekki eiga þar lögheimili áfram? Maðurinn eða konan sem kannski eru á svo misjöfnum aldri að það verði 10 eða 15 ára munur þangað til annað á rétt á því að fara á dvalarheimili fyrir aldraða, jafnvel þó að það vildi fylgja maka sínum.
    Ég tel að sú afstaða sem kemur fram hjá Félagi eldri borgara og því fólki sem á að njóta þessara réttinda lýsi sér best í eindregnum stuðningi við þetta frv. vegna þess að þetta eru fyrst og fremst almenn mannréttindi sem verið er að tala um. Gamla fólkið vill ekki láta ráðskast með sig, það vill að litið sé á það sem sjálfstæða einstaklinga sem geti stjórnað sínum málum og metið það eðlilega sjálft, eins og var áður, hvenær það telur tímabært að líta svo á að það flytji sitt lögheimili til.
    Mér finnst að hér séum við ekki að tala um neitt stórmál en við erum að tala um réttlætismál. En ég endurtek þakkir mínar til nefndarinnar.