Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:15:57 (6265)


[18:15]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hér hefur verið mælt fyrir tveim nál. frá allshn. og ég veit ekki hvort það eru örlög mín að vera oftast sammála minni hlutanum en nú er ég sammála áliti minni hluta allshn. Eða í stuttu máli sagt get ég ekki verið sammála frv. um breyting á lögum nr. 21/1990, um lögheimili, á þskj. 75.
    Ég tel mjög mikilvægt að menn hafi lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu og get tekið undir það sem kemur fram í nál., sérstaklega tel ég mikilvægt að þeir sem eru að flytja búsetu til frambúðar hafi lögheimili þar. Þess vegna hefði ég talið að það hefði verið eðlilegt að hafa þann sveigjanleika í þessu máli sem brtt. á þskj. 827 frá minni hlutanum gerir ráð fyrir. Ég er hins vegar alveg sammála þeirri ábendingu sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. að það er ekki víst að það sé eðlilegt að þetta standi nákvæmlega eins og þar segir heldur sé eðlilegt að breyta orðalagi greinarinnar. Mér finnst eðlilegt að það þurfi að athuga og hefði talið eðlilegt að umræðu um þetta mál lyki ekki fyrr en búið væri að athuga það og hefði gjarnan viljað að það yrði gert til þess að hægt væri að breyta tillögunni í þá veru sem ég held að væri eðlilegt, þ.e. breyta orðalagi þannig að það sé augljóst hvað við er átt.
    Það breytir ekki því að vandamálið er fyrst og fremst þegar skipt er um sveitarfélag. Þegar um er að ræða að fólk flyst búferlum hefur sveitarfélagið ákveðnar skyldur við íbúana. Ég tel mjög óheppilegt að ef fólk flytur, t.d. frá Reykjavík til Selfoss og vill búa þar, þá flytji það ekki lögheimili sitt þar sem það væri miklu eðlilegra upp á alla þjónustu sveitarfélagsins sem hefur ákveðnar skyldur og það þarf að veita ákveðna þjónustu. Þá finnst mér eðlilegt að fólk eigi þar lögheimili. Mér finnst því eðlilegra að líta á þetta út frá sveitarfélögunum og það er kannski þess vegna sem þessi brtt. er þannig sett fram. Ég tel hins vegar miklu eðlilegra að hafa það þannig að þetta gildi almennt, þ.e. ef flutt er innan sveitarfélagsins þá eigi að hafa lögheimili þar sem fasta búsetan er.
    Þess vegna vil ég enn og aftur óska eftir því að þetta verði aðeins skoðað þar sem mér sýnist í fljótu bragði að sú athugasemd hv. 2. þm. Vestf. eigi rétt á sér að það þurfi að óska eftir því að minni hlutinn líti á þetta mál. Sérstaklega vil ég beina því til hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, sem mælti fyrir nál. og ég veit að er formaður allshn. og er mjög nákvæm og vönduð í sinni vinnu, að athuga hvort þarna hafi ekki orðið einhver mistök. Það þarf þó kannski ekki endilega að vera en mér sýnist það í fljótu bragði.
    Frú forseti, ég vil lýsa því hér yfir að ég get ekki stutt þetta frv. eins og það kemur fram á þskj. 75 en hefði talið eðlilegt að styðja sveigjanleika að því er þetta atriði varðar þó mér finnist 18 mánuðir dálítið langur tími en úr því að það er lagt til þá ætla ég ekki að koma með brtt. að því er það varðar en ítreka enn og aftur að ég tel mjög mikilvægt að fólk eigi lögheimili þar sem það hefur fasta búsetu til frambúðar. Nú er ég ekki að tala um þó maður flytji í einn, tvo eða þrjá mánuði, eins og margir þurfa að gera af ýmsum ástæðum, heldur þegar um fasta búsetu er að ræða.
    Það er aðeins eitt atriði sem ég legg höfuðáherslu á og það er það sem kemur fram í nál. á bls.

2. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Lögð er til breyting á 1. gr. frv. sem felur annars vegar í sér að gildissvið greinarinnar takmarkist við þá sem búa á dvalarheimilum aldraðra en nái ekki til þeirra sem búa í öðru húsnæði sem er sérstaklega ætlað öldruðum.``
    Þetta finnst mér vera nokkuð mikilvægt atriði vegna þess að ég tel að það skipti mjög miklu máli hvort það er eingöngu verið að tala um dvalarheimili aldraðra eða íbúðir sem eru byggðar sérstaklega fyrir aldraða, t.d. þjónustuíbúðir sem í rauninni eru nákvæmlega eins og aðrar íbúðir og er svo sem enginn munur á því hvort fólk býr þar því það er fullfrískt fólk og í mörgum tilvikum vinnur það fulla vinnu og greiðir auðvitað skatta og skyldur, þá væntanlega ekki til síns sveitarfélags ef það er hugsanlega í öðru sveitarfélagi heldur en búseta þeirra er.
    Ég tel marga galla á frv. sem hérna er lagt fram og hefði talið eðlilegt að á því yrðu gerðar brtt. sem mér sýnist að séu í rétta átt eins og kemur fram á þskj. 826. En ég segi enn og aftur að ég tel eðlilegt að það verði skoðað hvort ekki þurfi að laga þessar brtt. því ég held að meiningin hafi verið sú sem hv. 2. þm. Vestf. benti á.