Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:24:59 (6268)


[18:24]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er reynslan sem hefur knúið menn til að líta á þessa löggjöf á nýjan leik og sýnir að lagabreytingin frá 1990 var ekki nægjanlega vel ígrunduð og af því er komin fram breyting á lögunum. Ég vek athygli á því að báðir aðilar, meiri hluti og minni hluti nefndarinnar, taka undir það að lögunum þurfi að breyta. Ég legg sérstaka áherslu á það svo mönnum yfirsjáist ekki sú grundvallarstaðreynd að allir nefndarmenn í allshn. eru sammála því að það verði að breyta lögunum. Ágreiningurinn er hins vegar um það hversu langt eigi að ganga til að breyta lögunum. Ég tel nauðsynlegt að mönnum sé þetta ljóst, þetta grundvallaratriði.
    Því minnist ég á þetta að mér fannst eins og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur væri þetta ekki alveg ljóst. Eins vil ég líka benda á að með þeim rökum sem þingmaðurinn bar hér fram þá ber Hagstofunni að flytja nauðungarflutningum fjölda manns um land allt, frá sínum heimilum yfir á sjúkrahús landsins. Þannig er það í dag að um fólk sem er komið á hjúkrunardeildir sjúkrahúsanna má vissulega segja að það er komið til þess að vera. Samkvæmt málflutningi þingmannsins ættu menn að flytja það út af sínum lögheimilisskráða stað og inn á spítalana. Menn verða nefnilega að hafa hóf á stjórnseminni í þessu máli og þó forræðishyggjan sé góð í hæfilegum skömmtum þá er hún afleit þegar svona langt gengur.