Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:31:48 (6271)


[18:31]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að það væri kerfið sem væri á móti gamla fólkinu. Hér kemur Samband ísl. sveitarfélaga, Biskupsstofa, það má kannski segja að félmrn. og Hagstofan sé kerfið á móti. Þetta með tölvurnar, ég hafði ekki heyrt þau rök. Voru þau borin fram í þessum ræðustól? Það er alveg nýtt í mínum huga að það séu tölvurnar sem kalla á þetta. Ég notaði það ekki sjálf og heyrði það reyndar ekki en það gat hafa verið einhvern tíma fyrr í umræðunni, 1. umr. eða einhvern tíma áður. Ég heyrði það ekki. Ég kannast því ekki við að það séu rök í málinu.
    Það er alveg rétt að viðkomandi sveitarfélög þar sem dvalarheimili eru fá tekjur af því fólki en ég er ekki síst að tala um aðrar íbúðir sem sérstaklega eru byggðar fyrir aldraða. Ég geri greinarmun á þessu tvennu. Ég geri greinarmun á því hvort um er að ræða dvalarheimili fyrir aldraða eða aðrar íbúðir sem eru ósköp venjulegar íbúðir en eru samt byggðar með þeim formerkjum að þær séu íbúðir fyrir aldraða þó að slíkar íbúðir sem ég hef farið í beri það ekkert sérstaklega með sér, hvorki í þjónustu né öðru. Þó þær heiti í mörgum tilvikum þjónustuíbúðir þá er hægt að kaupa nákvæmlega eins íbúð í einhverri annarri blokk t.d. í Reykjavík. Það er ákaflega lítill munur, a.m.k. þar sem ég hef komið, ég hef ekki komið nema í tvær eða þrjár.
    Þess vegna finnst mér skipta mjög miklu máli að gera greinarmun á hvort um er að ræða dvalarheimili eða hvort verið er að ræða um íbúðir sem eru byggðar sérstaklega fyrir aldraða, eins og tekið er fram, því þar er gífurlega mikill munur á. Þess vegna finnst mér miklu eðlilegra að miða við dvalarheimili, eins og gert er ráð fyrir í brtt., en ekki um allar íbúðir eins og er gert í frv.