Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:43:41 (6274)


[18:43]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður staðfesti nú endanlega, hafi einhver verið í vafa, kröfuna sem uppi er um breytingu á þessum lögum. Það kom fram með þeirri tilvitnun sem þingmaðurinn las upp úr erindi frá félmrn. og enn fremur í því sem kemur fram hjá Hagstofu Íslands. Þar er talað um að framkvæmd laganna sé með nærfærni eða sveigjanleika. Við skulum fara nánar út í það af því að þingmaðurinn gerði það ekki. Hvað er átt við, hvað á Hagstofa Íslands við þegar hún talar um að framkvæma lögin með sveigjanleika? Það er þannig að hjón eiga að eiga lögheimili á sama stað. Þegar annað hjóna, sem e.t.v. er eldra, þarf á undan hinu að fara á elliheimili eða slíkan stað þá ber samkvæmt lögunum að flytja lögheimili þess þangað. Þá eiga hjónin ekki lengur lögheimili á sama stað. Hvað gerir Hagstofan þá? Þá er úr vöndu að ráða. Því ef hjónin vilja ekki skilja, sem er hin eðlilega kerfislæga leið, þá verða menn að velja á milli þess hverjum á að þjóna. Og Hagstofan hefur valið þá leið að líta fram hjá því að hjónin eigi ekki lögheimili á sama stað. Því samkvæmt laganna hljóðan ætti það hjóna sem eftir er að eiga lögheimili hjá hinu sem farið er en þá ætti það ekki lögheimili þar sem það býr. Það er látið óátalið í því tilviki en ekki ef málinu er snúið við. Framkvæmd málsins er þannig að það verður að breyta lögunum, það held ég að öllum ætti að vera ljóst eftir þessa yfirferð sem ég hef sett fram á útlistun Hagstofunnar á framkvæmd laganna í þessu tilviki.