Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:48:48 (6277)


[18:48]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um breytingar á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988, með síðari breytingum. Nál. er á þskj. 891.

    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur í sér að Hollustuvernd ríkisins og önnur yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits flyst í heild frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis.
    Á fund nefndarinnar kom til viðræðna ýmsir aðilar, m.a. Ólafur Ólafsson landlæknir. Nefndinni bárust umsagnir enn fremur frá ýmsum aðilum sem taldir eru upp nánar í þessu áliti. Enn fremur sendi nefndin málið til umfjöllunar umhverfisnefndar þingsins og heilbrigðis- og trygginganefndar þingsins og birtast umsagnir þeirra sem fylgiskjöl með áliti þessu.
    Hluti af starfsemi Hollustuverndar ríkisins, þ.e. mengunarvarnadeildin, heyrir þegar undir umhverfisráðuneytið og hefur svo verið frá stofnun ráðuneytisins. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að æskilegt sé að Hollustuvernd ríkisins heyri undir eitt ráðuneyti. Þá bendir meiri hlutinn einnig á að í umsögnum kemur fram að fagleg tengsl Hollustuverndar ríkisins við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið séu hverfandi og að umhverfisráðuneytið eigi að geta veitt stofnuninni nauðsynlegan stuðning, jafnt stjórnsýslulegan sem faglegan.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, þ.e. þskj. 892, virðulegi forseti. Lagt er til að við 1. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem tryggi vægi heilbrigðissjónarmiða í umfjöllun um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þannig verði landlæknir umhverfisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um þennan málaflokk en óbreytt gerir frumvarpið ráð fyrir að á brott falli ákvæði þessa efnis sem er í grein 4.2 í gildandi lögum. Þá er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að það taki gildi 1. júní 1994 en nauðsynlegt þykir að gefa viðkomandi stofnunum nokkuð ráðrúm til undirbúnings þeirra skipulagsbreytinga sem felast í frumvarpinu.
    Ingi Björn Albertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. rita Sólveig Pétursdóttir, Gísli S. Einarsson, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Jón Helgason og Pétur Bjarnason. Þeir tveir síðastnefndu með fyrirvara.