Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:01:55 (6281)


[21:01]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég efa að annar en sá sem í þessum stól stendur nú hafi farið öllu hlýrri orðum um hæstv. umhvrh. í gegnum tíðina. Ég hef vakið á því athygli að þar er á ferðinni lærðasti maður Alþfl. þeirra er á þingi sitja. Auðvitað hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að við slíka menn eru bundnar nokkrar vonir. Við sem sátum á Alþingi Íslendinga þegar umhvrn. var stofnað áttuðum okkur á því að það var ekkert einfalt mál að fá þann skilning viðurkenndan yfir höfuð að það þyrfti umhvrn. í landinu. Það var ekki einfalt mál. Það var ekki sjálfgefið að áliti margra að svo væri. Þau verkefni sem upphaflega voru sett til umhvrn. hlutu þess vegna að vera byrjunarákvarðanir, þ.e. menn voru að reyna að sjá til þess að umhvrn. næði einhverri fótfestu í landinu.
    Ég er þess vegna einn þeirra sem hef horft á það mjög föstum augum hver sóknin yrði hjá hæstv. umhvrh. til nýrra verkefna fyrir sitt ráðuneyti í takt við þarfir íslensku þjóðarinnar og þarfir þess samfélags sem við lifum í. Að mínu viti er mér það ekki heilagt hvort sú breyting verður hér gerð að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit færist undir umhvrn. frá heilbrrn. Það eru bæði rök með og á móti þeirri ráðstöfun. Ég treysti út af fyrir sig báðum ráðuneytunum til að fást við þá málaflokka sem þar eru á ferðinni. Það sem blasir þó við stjórnsýslulega séð er að það hefði þurft að brjóta upp Hollustuverndina og skipta henni niður á milli þessara tveggja ráðuneyta. En það sem mér þykir alvarlegt mál og vil koma hér á framfæri er það að sókn umhvrn. til hafsins er það sem við höfum þörf fyrir. E.t.v. finnst mönnum að þetta skipti ekki máli, það sé allt í lagi að eiga þessa stóru landhelgi og líta svo á að við höfum engan umhvrh. yfir henni. Við höfum sjútvrh., það er alveg rétt. Við höfum líka iðnrh. til að fylgjast með iðnaðarframkvæmdum í Mývatnssveit en við viljum líka hafa umhvrh. til eftirlits með hvað er að gerast í Mývatni. Um það er ekki deilt. Og skyldi það þá vera svo að það sé friður um það sem er að gerast í hafinu og á hafinu í kringum Ísland innan íslensku landhelginnar? Svo er alls ekki, þar stendur stríð. Þar stendur stríð um hvað er að gerast. Það er spurt í stofnunum í Reykjavík: Er verið að fleygja þorski í sjóinn við Ísland? Stofnanir í Reykjavík segja nei. Það er ekki verið að fleygja þorski í sjóinn við Ísland. En sjómennirnir eru komnir í þá aðstöðu að þeir vita það að ef þeir koma með meiri þorsk að landi en þeir hafa heimildir fyrir þá er mjög óvíst að þeir geti keypt sér meiri heimildir og þess vegna muni þeir lenda í stórum sektum. Hvað gera menn undir þeim kringumstæðum? (Gripið fram í.) Þeir fleygja fiskinum í sjóinn segja sjómennirnir.
    Hæstv. umhvrh. hefur nú gengið úr salnum og tel ég það miður. Það er nefnilega svo að það er erfitt að ná eyrum manna um þau mál sem hljóta að verða stóru málin í umhverfisvernd á Íslandi. Hvernig förum við með lífríki hafsins? Ég ætla samt ekki að hika við að tína hér upp þau verkefni sem ég tel að þurfi að snúa sér að og ég treysti ekki öðrum betur að sinna en umhvrn. íslenska. Það eru drauganetin, hæstv. ráðherra. Eru grásleppunetin skilin eftir í sjó? Eru þorskanetin skilin eftir í sjó? Það hefur einu sinni verið farið í það samkvæmt fyrirmælum sýslumannsins í Stykkishólmi að draga upp ógrynni af drauganetum úr Breiðafirði sem voru grásleppunet sem voru skilin eftir í sjó. Hefur það hvergi gerst annars staðar á Íslandi að þannig hafi verið gengið um og er það bara í þetta eina skipti sem þurfti að fara af stað og draga þessi net upp? Því miður veit ég betur. Það er ekkert gert. Hvað með drauganetin, þorskanetin, sem menn missa og tína og skilin eru eftir og koma svo seinna upp á togvírum togaranna eftir að þau hafa e.t.v. rekið langa leið þó megnið af þeim sé á sama stað? Þetta eru bara óhreinu börnin hennar Evu sem enginn kannast við og enginn vill ræða. Hvað með notkun skelfiskplóga? Það var farið með neðansjávarkvikmyndavél til að aðgæta hvernig menn stæðu að hörpudiskveiðunum í Breiðafirði. Það kom í ljós að þeir drógu plógana einum þriðja lengur í tíma en þeir þurftu til að vera öruggir með að hafa þá fulla. En eftir að búið var að fylla plóginn, hver var þá afleiðingin af því að draga hann áfram? Þeir muldu skelina. Hvað með rækjutrollið? Hvað drepur það mikið af öðrum fiski, m.a. þorskseiðum? Hvað með botninn og lífríkið gagnvart öðrum tegundum? Hvað með ásakanir um að trollið sem togararnir nota í dag sé víða orðið það þungt að það slétti hreinlega íslenska grunninn þar sem skipin fari og þar sem áður hafi verið hraun sé nú hægt að fara með troll af þessum ástæðum?
    Það sem ég vil fyrst og fremst vekja athygli á er það hvort ekki sé ráð að við förum að skoða þessa hluti, reynum að gera okkur grein fyrir því hvað við erum að gera lífríkinu, hafinu í kringum Ísland, í næsta nágrenni við landið. Hvað með þær kenningar sem uppi hafa verið um að ferskvatn við suðurströnd Íslands sé miklu minna á vorin en það var vegna þess að við höfum stíflað við Þjórsá og e.t.v. breytt lífríkinu út af suðurströndinni og e.t.v. haft áhrif á hrygningar hjá þorskinum? Er úrgangi fleygt í sjóinn innan íslensku lögsögunnar sem mengar hafið? Á losun eiturefna sér stað innan lögsögunnar eða í nágrenni við hana sem hafa sömu afleiðingar? Ég vænti þess og veit reyndar að hæstv. umhvrh. gerir sér grein fyrir því að þetta eru verkefni sem óumflýjanlegt er að verði tekist á við og þau skoðuð. Spurningin er bara þessi: Getum við verið sammála um að það sé þessi sókn umhvrn. sem verði að koma til vegna þess að við Íslendingar höfum ekki efni á því að sofa á verðinum í þessum efnum? Við höfum ekki efni á því að vera að rífast um það fram og til baka hvort þetta sé gert eða hvort þetta sé ekki gert og einhverjar stofnanir upp á landi sem ekkert vita um þetta séu spurðar álits en að við förum ekki að rannsaka þetta með vísindalegum hætti. Það er nú einu sinni svo að það á ekki saman að atvinnuráðuneytið fari með þetta eftirlit og að það skapist sú trúverðuga niðurstaða sem þarf að skapast í þeim efnum. Þess vegna segi ég við hæstv. umhvrh.: Mínar vonir í þessum efnum voru þær að í 13. gr. um umhvrn. kæmu fram ný áhersluatriði þar sem þessi sókn væri hafin.
    Mér er ljóst að það er mikið að gera á Alþingi Íslendinga. Það eru ógrynni af málum sem liggur fyrir að afgreiða. En er nokkurt mál stærra hjá íslenskri þjóð en verndun fiskimiðanna, eftirlit og verndunin á vísindalegum grunni af hlutlausum aðila unnin þannig að það liggi ekki allt undir árekstri á milli þrýstihópa? Er það ekki þetta sem verður að eiga sér stað? Hvernig getur það gerst að þjóð eins og við Íslendingar, sem á jafnmikið undir fiskveiðunum og við, teljum okkur ekki þurfa að snúa okkur að þessu verkefni af alvöru út frá umhverfissjónarmiði? Hvers vegna er það svo að þetta eigi aðeins að heyra undir atvinnuráðuneyti sem hreinlega hefur ekki snert á því áratug eftir áratug að skoða þetta? Erlendar þjóðir sumar hverjar hafa talið að það yrði að breyta um veiðarfæri algjörlega frá því sem áður var og við Alaska veiða menn t.d. í gildrur mestallan þann afla sem er veiddur, t.d. allan þorskinn sem þar er veiddur.
    Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. taki það ekki illa upp þó ég hafi talið mig þurfa á þessari kvöldstund að koma þessum spurningum á framfæri. Ég tel að þó við deilum um það fram og til baka hvar þetta frv. sem hér á að vera eigi að vista ákveðna stofnun sem getur verið hjá báðum þeim ráðuneytum sem rætt er um þá er stóra málið: Verður það sókn umhvrn. í framtíðinni að handsama stofnanir sem heyra undir önnur ráðuneyti eða verður það sóknin til hafsins sem verður hafin? Og ég vænti þess að sá hæstv. ráðherra, sem fer með þessi mál nú og ég lít á sem brot af vísindamanni alveg tvímælalaust, geri sér grein fyrir því að ef þeir sem eru ungir og vel menntaðir eins og hæstv. umhvrh. telja það ekki skyldu sína að snúa sér að þessum verkefnum hvernig geta þeir þá ætlast til þess að aðrir, sem e.t.v. hafa átt minni kost á að kynna sér alvöru lífríkisins, alvöru þessara mála, hvernig geta þeir þá gert ráð fyrir að þeir muni gera það þegar þeir taka við?
    Það er vonlaust að una því að sókn umhvrn. til nýrra verkefna verði fyrst og fremst skæklatog um þær stofnanir sem fyrir eru í landinu. Það verður að gera þá kröfu að sú sókn liggi út á hafið og við náum valdi yfir því verkefni að fylgjast með því hvað er að gerast í lífríkinu í kringum Ísland.