Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:17:48 (6283)


[21:17]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Af því að umhvrh. óskar nú eftir beinu svari varðandi frv. sjálft þá liggur það alveg ljóst fyrir að ég mun sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu.
    Ég ætla hreinlega ekki að skipta mér af því hvorum megin þetta mál verður vistað. Þeir hafa komið sér saman um það félagar og fóstbræður í hæstv. ríkisstjórn að færa það og ég ætla ekki að tefja fyrir því eða vinna gegn því. Ég sé að mínu viti að það gæti verið á báðum stöðum. Ég gat þess áðan hver mín ástæða væri, ég teldi að það ætti að skipta því upp.
    Ég er sannfærður um að það eftirlit með gróðri og mörgu slíku á að færast undir umhvrn., það er rétt, eftirlitið en ekki framkvæmdin. Það gengur ekki, hæstv. umhvrh., að hæstv. umhvrh. sé bæði aðalbeitarbóndi þessa lands, aðalbeitarbóndi þessa lands á viðkvæman gróður landsins að vetrarlagi og líka eftirlitsaðili. Það gengur ekki. Búpeningur hæstv. umhvrh. er þessa dagana á viðkvæmum gróðri Austurlands, sumt fellur úr hor e.t.v., vonandi þó ekki. Það er þetta að við blöndum alltaf saman framkvæmd og eftirliti í öllum stofnunum í staðinn fyrir að reyna að aðskilja þetta. Það er sá þáttur sem ekki gengur upp. Ég vona að við séum með á hvað um er að ræða. Eins og allir vita þá er menntmrh. ekki lengur stærsti beitarbóndi landsins, ( Gripið fram í: Illu heilli.) illu heilli, heyrist hér, heldur hæstv. umhvrh. Ég er ekkert að amast við hæstv. ráðherra sem einstaklingi þó ég orði þetta svo. Ég er aðeins að vekja athygli á þessum tvískinnungi í okkar kerfi. Við erum alltaf að láta menn vera með eftirlit með sjálfum sér sem gengur ekki.