Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:20:08 (6284)


[21:20]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að veita mjög skýr svör um afstöðu hans til þessa frv. Mér þykir það auðvitað miður að hann skuli ætla að sitja hjá við það vegna þess að ég taldi að hann væri það skýr maður að hann sæi þá bót sem fólgin væri í þessu frv. og að því leyti til hefur hann valdið mér nokkrum vonbrigðum sem er afar sjaldgæft þegar þessi ágæti þingmaður á í hlut.
    Ég er auðvitað þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það beri að stefna að því að þessar stofnanir sem ég nefndi hér áðan, Skógræktin og Landgræðsla ríkisins eigi að færast í tímans rás yfir til umhvrn. Og nú hefur það gerst sem annar hv. þm. mundi sennilega kalla sögulega stund að við umræður um þetta frv. þá hafa ekki einn heldur tveir hv. þm. Framsfl. lýst yfir stuðningi við þessa skoðun. Ég vísa til þess, virðulegur forseti, að við 1. umr. nefndi hv. þm. Finnur Ingólfsson það sérstaklega að svona ætti að fara með Skógrækt ríkisins og Landgræðsluna. Þetta, virðulegur forseti, gefur mér ástæðu til að horfa björtum augum til framtíðarinnar ef svo ólíklega skyldi vilja til að Framsfl. kæmist til meiri áhrifa í umhverfismálum landsins en nú er.