Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 21:53:39 (6291)


[21:53]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Hæstv. ráðherra vill vita af hverju ég tel að mál sem alls ekki er umhverfismál geti skaðað ráðuneytið. ( Umhvrh.: Áttu við þetta mál?) Já, þetta mál sem er það að flytja heilbrigðismál og matvælaeftirlit undir umhvrn. Ég tel það geta skaðað þann málaflokk. Ég tel að það sé skaðlegt að taka málaflokka af handahófi úr öðrum ráðuneytum sem ekki eru umhverfismál, hvort sem það heitir Heilbrigðiseftirlit eða eitthvað annað. ( Umhvrh.: Er þetta handahóf?) Ég vil meina að þetta sé handahóf. Já, úr því að hæstv. ráðherra kallar fram í og spyr. Ég tel að það einkennist allt of mikið af því. Vegna þess að það hafa engin fullnægjandi rök að mínu mati komið fram um að þessi málaflokkur sé betur kominn hjá umhvrn. og það er einn handleggur. En síðan það að vera að taka málaflokka sem ekki eru umhverfismál og setja þá undir umhvrn. það drepur þeim málaflokki á dreif. Ég tel mjög mikilvægt að umhvrn. sé með þá málaflokka sem eru umhverfismál og sé sterkt í því. Það þarf að efla það og styrkja á þeim sviðum en ekki að fara að setja undir það ráðuneyti málaflokka sem ekki styrkja sviðið. Það sem hér er verið að gera er að það er verið að taka þarna málaflokk inn í umhvrn. og meira að segja svo að það er ekki miðað við að því er maður sér t.d. á fjárlagatillögum að það eigi að bæta eitthvað verulega þá um leið við umhvrn. Það er alltaf verið að skera niður á því sviði, því miður. Alla vega var það gert við síðustu fjárlög. Ég vona að á því verði breyting. En einmitt það að setja inn í ráðuneytið málaflokka sem beinlínis ekki eru umhverfismál vil ég meina að skaði.