Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:48:57 (6297)


[22:48]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kem ekki í þennan ræðustól til að kenna hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni mannasiði. Hins vegar verð ég að segja það að ég hef ævinlega álitið þann ágæta þingmann allt of gildan og merkan þingmann til að falla í far ýjanna og dylgna eins og hann gerði hér áðan. ( Gripið fram í: Ýjanna og dylgna?) Ég get ekki orðað öðruvísi en svo þau ummæli sem hv. þm. lét hér falla um skipan í stjórn Hollustuverndar ríkisins sem hann vildi tengja þessum flutningi. Það var ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi og það kalla ég dylgjur sem þingmanninum er ekki sæmandi.
    Hv. þm. hefur sömuleiðis kallað flutning þessa frv. flausturskennd vinnubrögð, handahóf. Þá er vert að rekja þetta mál til uppruna síns. Hvaðan koma mönnum þær hugmyndir í koll sem hér eru fluttar í formi frv.? Þær, virðulegur forseti, eru sprottnar úr margítrekuðum álitsgerðum stjórnar Hollustuverndar. Síðast á fundi þann 14. apríl á síðasta ári og reyndar síðar lúta álitsgerðir stjórnar Hollustuverndar ítrekað að þessu. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Lögð er áhersla á að í stað þess að kljúfa stofnunina verði hún sett öll undir umhvrn. Ákveðið var að árétta þessa afstöðu stjórnar bréflega til heilbrrh. og umhvrh. og er það hér með gert.`` Undir þetta ritar stjórnarformaður Hollustuverndar ríkisins.
    Þetta eru hin handahófskenndu vinnubrögð. Það er með öðrum orðum stjórn stofnunarinnar sem beinlínis fer þessa á leit. Ég get ekki fallist á það, virðulegur forseti, að þetta séu handahófskennd vinnubrögð.
    Virðulegur forseti, vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat þess réttilega að það væri nauðsynlegt að styrkja ráðuneyti sem stjórnstöðvar vildi ég leyfa mér að benda á að í dag er það óneitanlega veikt þegar fagleg stjórn einnar tiltekinnar deildar eins og innan Hollustuverndar er undir einu ráðuneyti en hið fjármálalega vald undir öðru. Auðvitað styrkir þetta umhvrn. sem stjórnstöð.