Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:53:20 (6299)


[22:53]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef litið svo á að í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fælist ósk um það að inn í ráðuneytin kæmu fleiri menn sem væru sérfróðir um hin ýmsu mál sem undir þau heyra. Hann er sérfræðitrúar, ég er það líka. Ég er ,,teknókrat`` eins og hann er. Ég tel þess vegna að það eigi að taka mark á fólki sem þekkir til að mynda störf Hollustuverndar út í hörgul, þ.e. yfirstjórnendur stofnunarinnar. Þeir eru þessarar skoðunar. Ég tel fráleitt að gera lítið úr því eins og hv. þm. gerði áðan.
    Jafnframt, virðulegur forseti, vil ég koma á framfæri þeirri skoðun minni að stjórnmálamenn mega ekki láta stjórnast af ótta. Ég sá ekki betur en að afstaða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í þessu máli stjórnaðist af ótta. Óttanum við það að ef þessi stofnun yrði flutt yfir til umhvrn. þá mundi hún girða fyrir að hægt væri að flytja þangað aðrar stofnanir sem sömuleiðis með réttu lagi ættu frekar heima þar heldur en annars staðar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé nokkurt samband þar á milli. Það að flytja Hollustuvernd ríkisins yfir til umhvrn. kemur alls ekki í veg fyrir að aðrar stofnanir sem menn kunna að telja að eigi að vera þar flytjist þangað líka. Þessi afstaða byggist þess vegna á óttanum. Ég er hins vegar ekkert hræddur.