Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 11:01:31 (6311)


[11:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nú óþarfi að fara mörgum orðum um þessa ræðu. Hún var nánast flutt um daginn líka. Það eru sömu efnisatriðin og fram koma aftur og aftur í þessari umræðu. Ég vil aðeins taka það fram að málaferli eiga ekki að fresta þessum frv. sem fyrir liggja. Það er ágreiningur um 14. gr. laganna frá 1954. Það vita þeir sem um þau mál hafa fjallað, annars vegar fyrir hönd ríkisvaldsins og hins vegar fyrir hönd viðsemjenda þeirra og þá sérstaklega forráðamenn BSRB sem hafa aðra skoðun á því hvað 14. gr. inniheldur og hvað ekki, þ.e. þegar tekið er tillit til þeirra réttinda sem þar er minnst á, hvort þau safnast upp eða eru réttindi af öðrum toga. Um það ætla ég ekki að ræða hérna frekar.
    Það er hárrétt að frsm. er ekki við þessa umræðu og reyndar vantar þann þingmann sem hrökk frá sinni álitsgerð en ég minni á að 3. umr. er eftir og ég hvet hv. þm. ekki síst í ljósi þess að hinn 2. mars var nál. undirritað að reyna að ljúka þessari umræðu. Það má vera að við 3. umr. verði ég að flytja eða nefndin eftir atvikum brtt. og fresta gildistöku málsins því 1. maí dugar varla þar sem nú er kominn miður apríl en gert hafði verið ráð fyrir því í upphafi að þetta mál afgreiddist fyrir páska.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram ef það mætti skýra málið að nokkru leyti og flýta kannski fyrir okkur í 2. umr. málsins. Mín vegna mætti þá 3. umr. bíða þar til hv. þm. sem nefndir voru til sögunnar eru komnir og geta tekið þátt í þeirri umræðu sem þá verður.