Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 12:00:06 (6328)


[12:00]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að mín athugasemd hér áðan er algerlega óháð því dagskrárefni sem hér er til umræðu þó að athugasemdir hæstv. fjmrh. lytu aðallega að stöðu þess. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli og á ekki að mismuna dagskrármálum hvort þau eru í hugum einhverra stór eða smá, þá á að sýna sambærilega virðingu og umfjöllun um þau hvað varðar dagskrá þingsins, uppsetningu hennar og fundarstjórn.
    Ég beindi að sjálfsögðu orðum mínum til hæstv. forseta en ekki hæstv. fjmrh., enda lít ég svo á að það sé ekki ráðherranna að stjórna hér störfum þingsins þó að á því kunni að vera skiptar skoðanir eins og dæmin sanna.
    Ég kannast ekki við þessa nýju formúlu að þingflokksfundi sem sé þannig að þingmenn komi saman, að vísu fyrir tilviljun í þingflokksherbergi Sjálfstfl. og að vísu fyrir tilviljun hafi skiptiborð Alþingis verið beðið að boða þingflokksfund í gær. En þetta sé sem sagt svona, að þingmenn komi saman, sitji svona huggulega saman og rabbi um málin niðri í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Þetta er greinilega alveg ný útgáfa af fundum og ekki meira um það að segja.
    Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan. Það er algerlega óviðurkvæmilegt að það sé boðaður með hátt í sólarhringsfyrirvara þingflokksfundur sem fellur inn á löngu ákveðinn og reglubundinn starfstíma þingsins. Ef þarna er eitthvað annað fyrirbæri á ferðinni hjá þeim sjálfstæðismönnum þá það. En miðað við þær upplýsingar sem ég hafði til að ganga út frá frá starfsfólki Alþingis og fleirum þá gat ég ekki ráðið í það að þarna væri annað á ferðinni en venjulegur þingflokksfundur.
    Síðan held ég að hæstv. fjmrh. ætti ekki að fara út í samanburð á viðveru manna hér. Í þeim töluðum orðum sem hæstv. fjmrh. lét falla voru hér 11 eða 12 stjórnarandstæðingar, einn hv. óbreyttur þm. stjórnarliðsins, einn. Hlutföllin 11:1. Ég legg þar ekki að jöfnu viðveru hæstv. fjmrh. og hæstv. forseta, sem af skiljanlegum ástæðum eru hér stödd. En svona var nú hin frjálsa mæting, ef svo má að orði komast, óbreyttra þingmanna. Það var einn hv. þm. stjórnarliðsins, reyndar Alþfl., og 11 eða 12 stjórnarandstæðingar. Og auðvitað er það þannig, hæstv. forseti, að það er mál sem þarf að ræða rækilega og helst utan þessa salar hvernig málum er komið hér í starfsháttum þingsins og hvers konar vinnustaður þetta er að verða hvað mætingu áhrærir.
    Ég ítreka sem sagt óánægju mína með þetta hvernig þetta gengur hér til og vona að forseti taki það eins og það er talað til þess að hafa til íhugunar og eftirbreytni í framhaldinu að nóg er nú samt upplitið á störfum Alþingis þessa síðustu daga þó að svona lagað verði ekki opinbert.