Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 12:11:38 (6334)

[12:11]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mér þykir fróðlegt að heyra það í máli hæstv. forseta áðan að það hafi þótt tilhlýðilegt að fundum yrði frestað hálfeitt vegna þess að þá ættu að vera nefndarfundir. En svo hátt hefur ekki þeim fundi þingflokks Sjálfstfl. sem hefur staðið yfir verið gert undir höfði. Ég sé a.m.k. ástæðu til að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á það að þingflokkar séu að halda fundi á sama tíma og umræður um mál eins og þessi standa yfir.
    Ég kem í þennan ræðustól fyrst og fremst í þeim tilgangi að láta það koma fram að ég er andvígur þessu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins. Aðalástæðan fyrir því að ég er andvígur þessu frv. er sú að ég treysti ekki þessari ríkisstjórn fyrir húshorn með hf. upp á vasann í neinu félagi. Reynslan af einkavæðingu hæstv. ríkisstjórnar er með þeim endemum að það er ekki hægt að halda áfram nema það verði einhvers konar stefnubreyting hjá ríkisstjórninni og það verði gert algerlega ljóst og klárt með hvaða hætti eigi að standa að einkavæðingu á hennar vegum.
    Ég hef reyndar fleiri ástæður til að vera andvígur þessu frv. og ekki síst þá ástæðu að enn eru í lausu lofti þau mál sem hér hafa verið reifuð núna í síðustu ræðum þingmanna, þ.e. málefni starfsmanna þeirra fyrirtækja sem verið er að einkavæða á vegum ríkisstjórnarinnar. Og ég verð satt að segja að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það hvað það hefur gengið óskaplega hægt að koma skikki á þau mál. Þegar tekist var á um einkavæðingu eða stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins þá kom það t.d. fram hjá hv. formanni sjútvn. og hann sagði það hér í ræðustól í þinginu að hann væri andvígur því að standa svona að málum eins og gert væri í þessum frv. Hann teldi að það ætti að gera breytingar á lögunum um opinbera starfsmenn þar sem þessi ákvæði eru inni, þ.e. 14. gr. laga nr. 38/1954. Ég taldi eftir að þetta kom fram þá mundi slík breyting koma fram við það frv. sem lá fyrir um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðju ríkisins í fyrravetur. En það sýndi sig ekki og enn er beðið. Nú upplýsir hæstv. fjmrh. að það séu loksins komnar í gang viðræður um þessi mál og þá verð ég að segja að það er ástæða til þess að bíða með að klára þetta mál og þessa umræðu þar til það liggur fyrir hver niðurstaðan verður af þessum umræðum. Ég vil mælast til þess að hæstv. fjmrh. hugsi sig um með það hvort hann vilji ekki reyna að ná einhverri samstöðu um þetta mál aftur því það hafði tekist í nefndinni að ganga það langt að nefndarmenn skrifuðu allir undir nál., þó sumir gerðu það með fyrirvara. Ég tel reyndar að þeir hafi kannski pínulítið látið plata sig í því því ég vil meina að það sé ekki ásættanlegt að samþykkja lagafrv. með þessu formi eins og hér er gert, þ.e. að það sé raunverulega sagt í lögunum að starfsmenn sem eiga þessi réttindi samkvæmt lögunum nr. 38/1954 missi þau þann dag sem hlutafélag um viðkomandi fyrirtæki tekur reksturinn yfir. Því þannig er það. Og það er algerlega haldlaust það ákvæði laganna að menn eigi rétt á störfum hjá þessum fyrirtækjum einfaldlega vegna þess að þann dag sem stjórn hlutafélagsins tekur við stjórn fyrirtækisins þá getur hún sagt þessum mönnum upp bótalaust. Það er búið að vera að snúa út úr þessu hlutum svo lengi að ég held að það sé full ástæða til þess að segja það eins og það er. Og það hefur verið gert. Menn skulu bara rannsaka hvernig hefur verið gengið að starfsmönnum Sementsverksmiðju ríkisins frá því að hún var gerð að hlutafélagi. Það er búið að segja upp nokkrum tugum manna. Þeir eiga engan rétt með þessum hætti. Það hefur að vísu verið reynt að semja við þá og þeir hafa verið neyddir inn í alls konar samninga um það að ljúka störfum. En það er ekki falleg saga hvernig að því hefur verið staðið. Auðvitað veit ég að það er erfiður róður hjá stjórn Sementsverksmiðju ríkisins að halda því fyrirtæki gangandi við þær aðstæður sem nú eru. En mér finnst það ekki réttlæta sumar af þeim starfsaðferðum sem þar hafa verið notaðar við starfsmenn þar sem þeir hafa verið kallaðir til viðtals við yfirmenn fyrirtækisins og þeim boðið upp á það að segja upp sjálfir þann dag sem þeir hafa verið kallaðir inn á teppið og að þeir fái þá sex mánuði greidda á fullum launum en hætti um leið, þ.e. þennan dag sem þeir voru kallaðir inn á teppið. Og ef þeir féllust ekki á þessa vinsamlegu tillögu yfirmannanna þá myndu þeir fá uppsagnarbréf daginn eftir og ekki nóg með það þá áttu þeir að fá fimm mánuði á fullum launum en þeir skyldu sko hætta sama daginn og þeir fengju uppsagnarbréfið. Mér finnst að svona vinnubrögðum sé ekki annað hægt en að mótmæla. Og ég nota þetta tækifæri hér til að gera það vegna þess að ég tel að alþingismenn eigi að vita hvert framhaldið var á einkavæðingu Sementsverksmiðju ríkisins gagnvart starfsmönnum og hvernig hefur verið komið fram við starfsmenn sem hefur verið sagt upp í vetur.
    Mér finnst að virðingin fyrir þeim störfum sem þessir starfsmenn unnu hafi verið býsna lítil og ég tel reyndar að það hefði verið lágmarksvirðing fyrir þeim mönnum sem stjórn fyrirtækisins komst að þeirri niðurstöðu um að ætti að segja upp að láta þá vinna sín störf á meðan uppsagnarfrestur stóð yfir nema því aðeins að þeir færu þá fram á það að fá að hætta fyrr af einhverjum ástæðum. En það má segja að þessi aðferð stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins sé nánast yfirlýsing um það að störf þessara manna hafi verið einskis virði.
    En þá vil ég koma að því hvort það sé einhver ástæða til þess að einkavæða Lyfjaverslun ríkisins. Ég útiloka það ekki og mér finnst alveg eðlilegt að það mál verði skoðað niður í kjölinn. Ég tel að allur rekstur á vegum ríkisins eigi að vera undir smásjánni með það hvort það sé skynsamlegt og eðlilegt að ríkið reki viðkomandi starfsemi. En ég tel það fráleitt að gefa sér það fyrir fram að ríkið eigi ekki að reka atvinnustarfsemi. Það hlýtur að verða að metast í hverju einstöku tilfelli og ég get ekki séð fyrir mér neitt sem er heilagt í því máli. Ef ríkið kýs t.d. að reka fyrirtæki sem starfar á almennum markaði undir eðlilegum samkeppnisskilyrðum, það finnst mér ekki fráleitt að ríkið geri, en þá á ríkið líka að reka þá starfsemi undir alveg sömu formerkjum og þeir sem við ríkið keppa á markaðnum. Þá skal það auðvitað vera hlutafélag sem þarf að borga arð og þarf að vinna með sama hætti og önnur fyrirtæki í bransanum ef maður orðar það svo. En sé um að ræða fyrirtæki sem hafa af einhverjum ástæðum séraðstöðu til markaðarins og það getur verið af mörgum ástæðum. Ég nefni Sementsverksmiðju ríkisins aftur. Það er enginn aðili í samkeppni við Sementsverksmiðju ríkisins um framleiðslu og sölu á sementi og það var þess vegna engin forsenda fyrir því að huga að því að ætla að selja Sementsverksmiðju ríkisins á almennum markaði eins og ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni. Ég held reyndar að meiri hluti á bak við það að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi og ætla síðan að selja hafi nú verið æðitæpur hjá hæstv. ríkisstjórn. Og ég veit það reyndar að margir af þeim mönnum, sem studdu frv. um að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag, gerðu það í trausti þess að það ætti að reka þetta fyrirtæki alfarið í eigu ríkisins áfram. En hvað gerðist svo strax sama árið og lögin um Sementsverksmiðju ríkisins tóku gildi? Það gerðist þá að hæstv. fjmrh. lét setja það inn í 6. gr. fjárlaga að hann fengi heimild til þess að selja hlutabréfin í Sementsverksmiðju ríkisins. Og þetta ákvæði var inni í fjárlagafrv. þegar það var rætt við 2. umr. fyrir jólin. Það var ekki tekið út úr því fyrr en við lokaafgreiðslu málsins. Það segir sitt um það hvernig átti að standa við þau loforð sem þeim þingmönnum höfðu verið gefin sem studdu þetta mál í trausti þess að ríkið ætlaði að reka Sementsverksmiðju ríkisins áfram alfarið í sinni eigu. Þetta er t.d. ein af þeim ástæðum sem ég hef fyrir því að vantreysta hæstv. ríkisstjórn fyrir einkavæðingarmálum. Ég held að þingið eigi ekki að samþykkja frumvarp eins og þetta þar sem verið er að treysta á þessa ríkisstjórn með framgang málsins.
    Það má svo bæta því við að það er nú kannski fleira í þessu máli heldur en bara það að selja lyf á almennum markaði í samkeppni við aðra sem annast lyfjasölu í landinu. Þessu fyrirtæki hafa verið falin ýmis verkefni og það hefur starfað á dálítið öðrum grundvelli en sum af þeim fyrirtækjum sem eru að keppa við það á markaðnum. Það hefur m.a. haft hlutverk í öryggisskyni og Almannavarnir ríkisins hafa átt að treysta á að þetta fyrirtæki héldi uppi í landinu birgðum af lyfjum þannig að það væri hægt að treysta á það ef erfiðleikar kæmu upp af einhverjum ástæðum, náttúruhamförum, stríðsástandi eða einhverju öðru. Mér finnst að það hefði verið ástæða til að ganga betur frá þeim málum hér. Ég tel að það sé nú lítið hald í því að setja bráðabirgðaákvæði inn í þessi lög um það að ráðherra eigi að gefa Alþingi einhverja eina skýrslu um birgðahald fyrir Almannavarnir ríkisins. Ég held að það þurfi að vera skýrara með hvaða hætti á að koma til móts við þær þarfir sem Almannavarnir ríkisins telja að séu fyrir þetta birgðahald. Ég sé ekki annað en að það hefði þurft að liggja fyrir hverjar þessar kröfur Almannavarna eru og með hvaða hætti á að koma til móts við þær kröfur. Mér finnst því að það væri af þessari ástæðu rétt að nefndin skilaði a.m.k. eitthvað skýrari hugmyndum um það með hvaða hætti ætti að standa að þessum málum.
    Við vitum það, hv. alþm., að ríkisstjórnin hæstv. hefur á stefnuskrá sinni einkavæðingu fyrirtækja og við vitum líka að þessi einkavæðing hefur gengið dapurlega hjá ríkisstjórninni. Það hefur ekki margt tekist í þeim efnum og það fáa sem virðist hafa haft framgang er í óvissu. Það er t.d. í mikilli óvissu hvernig fer með einkavæðingu Síldarverksmiðja ríkisins. Þar standa yfir málaferli og þingið þarf að ræða það mál áður en það fer heim nú í vor. Það hefur verið beðið um skýrslu um þetta mál en það hafa ekki borist fréttir af því hvenær sú skýrsla verður tilbúin. Verði þessi skýrsla ekki tilbúin fyrir þinglokin þá tel ég mjög nauðsynlegt að þetta mál verði tekið til umræðu í þinginu. Ég vil láta það koma fram í umfjöllun um þetta

mál vegna þess að ég tel að það sé ekki bara vegna málsins sjálfs sem er mjög stórt heldur líka vegna þess með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn fer með þau völd sem Alþingi hefur falið henni með samþykkt frv. um Sementsverksmiðjur ríkisins, Síldarverksmiðjur ríkisins og fleiri fyrirtæki sem stendur til að breyta í hlutafélög eða hefur þegar verið breytt í hlutafélög.
    Vegna þess að ég nefndi að það þyrfti að ræða þetta mál áður en þingið færi heim þá vil ég taka það fram að það er mjög nauðsynlegt að fram fari umræða um þá skýrslu sem allir þingmenn Alþb. hafa beðið um um árangurinn af einkavæðingu Bifreiðaeftirlits ríkisins, þ.e. Bifreiðaskoðun Íslands hf. En ég bið hæstv. forseta, að ganga mjög fast eftir því að sú skýrsla verði lögð fram. Ef ég man rétt þá mun það hafa verið einhvern tímann í október eða nóvember sem beðið var um þá skýrslu. Hún hefur ekki birst enn þá og mér þætti það undarlegt ef ekki tækist að ræða þá skýrslu á þessu þingi. Ég fer fram á að því verði fylgt mjög fast eftir því það eru margir sem hafa áhuga á að fá glöggar upplýsingar um með hvaða hætti þessi einkavæðing sem er ekki á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr, heldur á ábyrgðar hæstv. ríkisstjórnar sem sat á undan, því hún kom þessu máli í gegnum þingið. Að vísu hefur hæstv. dómsmrh. gengist fyrir breytingum á þeim samningi sem gerður var við Bifreiðaskoðun Íslands hf. um bifreiðaskoðun í landinu þannig að að því leyti til ber hæstv. ríkisstjórn ábyrgð á málinu. Hún hefur nánast skrifað upp á framhald málsins og þar er ýmislegt sem er athugavert og ég ætla ekki að fara að ræða hér en tel ástæðu til þess að nefna það með öðrum einkavæðingarmálum sem ég hef verið að tala um og vegna þess að ég tel mikla nauðsyn á því að þessi skýrsla verði til sem fyrst og það sé hægt að fá um hana umræðu í þinginu.
    Ég vil svo, vegna þess sem ég sagði áðan um Sementsverksmiðju ríkisins og þá gerð að breyta því fyrirtæki í hlutafélag og þess sem ég sagði um starfsmenn þessa fyrirtækis að það hefði tekist illa til í sambandi við uppsagnir þeirra, segja það að á sínum tíma mæltu starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins með því að Sementsverksmiðju ríkisins væri breytt í hlutafélag. Þegar það síðan kom í ljós að forsrh. og fjmrh. sögðu í fjölmiðlum að það stæði til að selja m.a. Sementsverksmiðju ríkisins til einkaaðila þá drógu starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins til baka sína samþykkt. Ég vil lesa upp stutta samþykkt sem starfsmennirnir gerðu því það segir sitt um það hvernig hugarfarið breyttist þegar menn áttuðu sig á því að stefna ríkisstjórnarinnar væri önnur í þessum málum en hún hafði gert grein fyrir. Þessi yfirlýsing hljóðar svona, með leyfi forseta:
    ,,Tilefni núverandi mótmæla eru yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í fjölmiðlum um sölu ríkisfyrirtækja til einkaaðila. Þar með eru forsendur fyrri samþykktar starfsmanna Sementsverksmiðju ríkisins brostnar því þá var aðeins talað um að ríkið ætti verksmiðjuna, þ.e. öll hlutabréfin yrðu í eign ríkisins. Þess vegna óttast starfsmenn nú mjög um hag sinn og framtíð fyrirtækisins.
    Starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins.``
    Undir þetta skrifuðu fjölmargir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins. Ég hef ekki tölu þeirra hér en ég veit að þeir voru margir.
    Þá langar mig að víkja aftur að sölu SR-mjöls hf. og ítreka að ég tel að sú umræða verði að fara fram áður en þingið fer heim. Þar eru á ferðinni gerðir ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar sem eiga fullt erindi inn í þá umræðu sem hér fer fram um einkavæðingu. Það er kannski aðalrökstuðningurinn fyrir því sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég treysti ekki þessari hæstv. ríkisstjórn fyrir húshorn með hf. upp á vasann gagnvart neinu fyrirtæki, það er hvernig með það mál hefur verið farið. Það liggur þannig að á einu ári breytist eigið fé þessa fyrirtækis úr ef ég man rétt eitthvað rúmlega 21,1 millj. kr. í árslok 1992 yfir í 1.311 millj. 754 þús. í árslok 1993. Það er sem sagt hátt í 1.300 millj. kr. sem eigið fé fyrirtækisins hækkar á einu ári. Þetta fyrirtæki var selt fyrir 725 millj. kr.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill nú spyrja hv. þm. hvort hann á mikið eftir af sinni ræðu. Það var gert ráð fyrir að fresta fundi kl. hálfeitt. Ef hann á ekki eftir langan tíma þá vill forseti gefa honum tækifæri á að ljúka ræðu sinni.)
    Mér finnst nú vegna þess að mér hefur fundist vera ákaflega hljótt og fámennt hér í salnum eftir því sem hefur liðið á þessa ræðu mína að það væri kannski rétt að ég fengi tækifæri til að hefja hana aftur. Það verður ekki mjög löng ræða en ég tel samt að það sé ástæða til að fresta þessari ræðu ef hæstv. forseti vill fallast á það.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill gjarnan leyfa hv. þm. að ljúka henni ef það er ekki mjög löng ræða. En ef hún er mjög löng væri skynsamlegt að fresta henni.)

    Hæstv. forseti. Ég hef ekki alveg áttað mig á því hvað mjög löng ræða er. Ég hlustaði á eina sem var einn og hálfur tími í gær. Ef forseti er að meina hvort ég muni tala lengur en svona tíu mínútur eða eitthvað svoleiðis þá tel ég það nú vera.
    ( Forseti (SalÞ) : Ef hv. þm. reiknar með að tala lengur en tíu mínútur þá held ég að það væri bara ágætt að fresta þessu núna.)
    Ég fellst á það.