Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 15:40:45 (6337)


[15:40]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég kann illa að meta það hvort það er rétt afstaða að ekki skuli mega skoða skýrsluna um söluna á SR-mjöli þó svo þessi málshöfðun sé í gangi. Ég tel að skýrslan hljóti fyrst og fremst að fjalla um hagsmuni ríkisins sem fjárln. hlýtur að vera að hugsa um í þessu dæmi en málshöfðunin er beinlínis vegna hagsmuna þeirra aðila sem voru að bjóða í fyrirtækið og er að ýmsu leyti af öðrum toga en sú skýrsla sem fjárln. hefur sjálfsagt verið að biðja um. Þess vegna hef ég verið að efast um að það væri rétt að láta þetta mál liggja þann tíma sem málatilbúnaður gengur fyrir sig í kringum þetta.