Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 15:49:31 (6342)


[15:49]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi stuttlega gera grein fyrir áliti mínu í þessu máli og þeirri staðreynd að ég rita undir nefndarálit á þskj. 681 um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins.
    Ég vil fyrst fara stuttlega yfir að það hefur verið álit míns flokks að atvinnurekstur skuli almennt vera í höndum einstaklinga og samtaka þeirra, þ.e. ef um er að ræða atvinnurekstur sem er í samkeppni á markaði og býr ekki við einokun. Við gátum þess vegna stutt það og beittum okkur m.a. fyrir því að skipuð var nefnd til þess að semja frv. til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins. Á sínum tíma var það okkar skoðun að það væri mögulegt að ná samkomulagi um það mál hér á Alþingi, m.a. með því að ekki væri gengið jafnhratt fram í að selja fyrirtæki. Það væri rétt að fara hægar í sakirnar, stofna hlutafélag, selja það smátt og smátt á almennum markaði og fyrst í stað væri nóg að selja ekki meira en svo sem helminginn.
    Það má færa fyrir þessu mjög mörg rök. Það hefur verið almennur áhugi hjá lífeyrissjóðunum í landinu að taka þátt í atvinnurekstrinum og allar forsendur fyrir því að slík fyrirtæki geti komist í eigu almennings og samtaka þeirra en ekki í eigu fárra.
    Það var ekki vilji fyrir því á sínum tíma í sjútvn. að taka tillit til breytingartillagna stjórnarandstöðunnar í því máli, en hún var samstiga í því og þess vegna var skilað tveimur nál. og það var enginn stuðningur við það mál af hálfu stjórnarandstöðunnar á sínum tíma.
    Í þessu máli gilda að mörgu leyti sambærileg lögmál. Hér er um að ræða fyrirtæki sem keppir á markaði og er í samkeppni við önnur lyfjafyrirtæki í landinu og það hefur verið skoðun mín og míns flokks að það væri mikilvægt að þetta fyrirtæki starfaði áfram en það ætti alls ekki að útiloka að fyrirtækið kæmist í eigu annarra aðila en ríkisins en þá væri mikilvægt að eignaraðildin væri dreifð og það gegndi áfram því mikilvæga hlutverki sem það hefur gegnt fram til þessa.
    Við gátum ekki stutt frv. eins og það lá fyrir þegar hæstv. fjmrh. flutti það, en sögðum með svipuðum hætti og við gerðum að því er varðaði Síldarverksmiðjur ríkisins, að við gætum fallist á það að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, enda væri það tryggt að það starfaði áfram af fullum krafti og yrði frekar eflt en hitt. Við gerðum það m.a. vegna þess að það er mjög óheppilegt að hafa umræðu um fyrirtæki eins og þetta um hvort það skuli starfa áfram sem ríkisfyrirtæki eða hlutafélag eða hvort það skuli lagt niður eða selt í heilu lagi. Slík umræða er mjög óheppileg og hlýtur að veikja viðkomandi fyrirtæki og stofna á margan hátt öryggi þess og framtíð í hættu. Það kom mjög skýrt fram hjá framkvæmdastjóra fyrirtækisins í þeim viðræðum sem hann átti við nefndina að hann taldi að þessi umræða kæmi í veg fyrir það að fyrirtækði gæti sótt fram, m.a. með því að styrkja framleiðslustarfsemi þess sem hefur verið lagt mjög mikið í og farið í mjög mikla fjárfestingu vegna þess.
    Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það hvort sú fjárfesting var rétt eða ekki en það er hins vegar staðreynd að ríkið hefur lagt mikið í fjármagn í uppbyggingu þessa fyrirtækis. Það hlýtur líka að vera ljóst að það er erfiðara fyrir slíkt fyrirtæki að beita sér í samkeppni við önnur fyrirtæki þegar slík óvissa ríkir um framtíð þess.
    Gengið var til móts við þær skoðanir að ekki væri rétt að selja meira en helming hlutabréfa í fyrirtækinu og að frekari sala væri háð samþykki Alþingis. Ég vil taka það skýrt fram að ég skil það svo, og vildi gjarna heyra útskýringar hæstv. fjmrh. í því sambandi, að engin frekari áform séu um það á þessu stigi að leita eftir heimildum Alþingis til frekari sölu. Það sé verkefni númer eitt að koma þessu félagi af stað, bjóða helming af hlutafé í því við þau nýju skilyrði til sölu á almennum markaði og sjá til í nokkurn tíma,

án þess að ég ætli að fara að tiltaka hann, hvernig þar tekst til og hvernig hinu nýja félagi muni ganga. Það er engin ástæða til annars en því muni vegna vel á þessum markaði og ég vænti þess að svo verði.
    Það er rétt að taka það fram að það er ekki alveg nýtt mál að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag. Það voru uppi umræður og áform um það í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að sú ríkisstjórn sem ég sat í á sínum tíma útilokaði það alls ekki að þessu fyrirtæki yrði breytt í hlutafélag, enda hefði það ekki verið í samræmi við venjulegar venjur fyrirtækja sem keppa á almennum markaði. Það á allt annað við þegar um einokun er að ræða.
    Fyrirvari minn á nál. og okkar framsóknarmanna snýr að málefnum starfsmanna. Það hefur ríkt mikil óvissa um réttindi og skyldur starfsmanna í þessu sambandi og vitna ég þar m.a. til 3. gr. Þar hefur ríkisstjórnin gengið mjög klaufalega fram að mínu mati og ég ætla ekki að fara að rekja það. Það hefur verið rætt svo ítarlega hér á Alþingi í sambandi við ýmis önnur mál og þar hafa menn ekki haft lögfræðina alveg sín megin í þeim málum. Það á við um Síldarverksmiðjur ríkisins, Sementsverksmiðjuna og fleiri fyrirtæki sem hafa komið til umræðu hér. Svo geta menn lengi deilt um það hvar réttlætið er í sambandi við slík mál en það er að sjálfsögðu fyrir öllu að farið sé rétt að málum og menn gangi þannig frá hnútum að það standist bæði löggjöf og gagnrýni.
    Hins vegar er ljóst að það er ekki mögulegt að þetta fyrirtæki taki til starfa 1. maí 1994 eins og gert er ráð fyrir í brtt., enda verður ekki hjá því komist að gera þar breytingu á vegna þess hve málið hefur dregist lengi. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvenær það skuli vera en mér hefur skilist að hæstv. fjmrh. telji hæfilegan tíma t.d. 1. sept. í haust. Ég held að það sé ekki aðalatriðið hvort það er 1. sept., 1. okt. eða 1. nóv. en mikilvægt að það sé undirbúið. Nú má vel vera að ég hafi eitthvað heyrt rangt um það hvaða dagsetningu hæstv. fjmrh. telur hæfilega í því sambandi. Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að málið verði undirbúið með þeim hætti að það fari sem best úr hendi og vel sé gengið frá málefnum starfsmanna.
    Ég hef skilið það svo og ég vildi gjarnan fá það staðfest hjá hæstv. fjmrh. að það standi til að fara yfir réttindamál hvers og eins. Það sé ekki stefnt að því að segja upp fólki í þessu fyrirtæki eða fækka fólki. Það sé hins vegar stefnt að því að efla fremur fyrirtækið og verja þá starfsemi þess og þar með störf þess fólks sem hefur hagsmuna að gæta. Ég vil taka slíkar yfirlýsingar eins og þær eru settar fram og treysta þeim. Það hefur komið fram í starfi efh.- og viðskn. að þannig verði staðið að málum og við sem stöndum að nál. hljótum að treysta því að svo verði. Við þurfum á því að halda við þau skilyrði sem nú eru í þjóðfélaginu að efla starfsemi atvinnufyrirtækja. Þetta er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur allmikla möguleika til að auka sína starfsemi. Það kom m.a. fram að uppi eru áform um samstarf við erlenda aðila í sambandi við framleiðslu lyfja og það er vitað mál að slíkt mun auka störf hér á landi sem hlýtur að vera aðalatriðið.
    Ef þessi breyting getur orðið til þess að auka starfsemina og hasla okkur jafnvel völl á erlendum vettvangi, þá er það af hinu góða. Það er líka af hinu góða að þetta fyrirtæki geti staðist þá miklu samkeppni sem innlendur lyfjaiðnaður á við erlendan lyfjaiðnað. Það er alveg ljóst að risarnir í þessari atvinnugrein í heiminum eru gífurlega sterkir og geta beitt undirboðum eftir því sem þeim sýnist nánast til þess að reyna að yfirtaka markað. Það hlýtur að vera keppikefli okkar Íslendinga að eiga okkar eigin lyfjaiðnað sem getur staðist þessa samkeppni sem best. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að eyða óvissu um þetta mál og ég tel að sá samstarfsvilji sem kom fram af hálfu fjmrh. í þessu máli við nefndina hafi verið góður og hann hafi komið til móts við sjónarmið sem þar voru sett fram og það hafi verið af hinu góða.
    Það átti sér hins vegar ekki stað í sambandi við söluna á SR. Þar var allt öðruvísi staðið að málum og enginn vilji kom fram til þess að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem höfðu komið fram. Ég tel að það hafi sýnt sig í því máli að það hafi verið rangt en auðvitað getur tíminn einn leitt það í ljós hvernig þar tekst til, en að sjálfsögðu er mikilvægt að því stóra fyrirtæki sem hefur miklu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu gangi sem best í framtíðinni. Þar eru mörg byggðarlög sem eiga gífurlegra hagsmuna að gæta og það fyrirtæki er mjög stórt að því er varðar verðmætasköpun í landinu.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ég vildi aðeins að lokum leggja áherslu á það að samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða er ráðherra skylt að leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins sem Lyfjaverslun ríkisins annast verði háttað eftir stofnun hlutafélagsins þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt. Ég tel að með þessu komi fram viljayfirlýsing Alþingis í málinu og ráðherrar taki það að sér á næstunni að leita fullnægjandi lausna á því máli þannig að engin óvissa þurfi að ríkja í sambandi við það. Ég býst við því að um þetta geti verið full samstaða og það hefur komið fram af hálfu fulltrúa fjmrn. í samtölum við nefndina að þeir telji nauðsynlegt að leita verði lausna í þessu máli og með þessu ákvæði hafi sú skylda verið lögð á fjmrn. án þess að það sé nákvæmlega tilgreint hvernig það skuli gert. Það er ekki aðalatriðið, heldur er það aðalatriðið að fullnægjandi birgðir séu fyrir hendi ef eitthvert neyðarástand skapast og það hlýtur að vera eðlilegur þáttur í almannavörnum í landinu.
    Ég mun því eins og kemur fram í reynd í þessu nefndaráliti styðja þetta frv. eins og það liggur fyrir. Þó höfum við fyrirvara um þá grein sem fjallar um réttindi starfsmanna og ég ætla ekki að fjölyrða um það. Við höfum svo oft farið yfir það og haft sömu afstöðu í öllum öðrum málum og gert þar ítarlega grein fyrir okkar máli og ég ætla ekki að endurtaka það. En ég vænti þess að þannig verði haldið á þessu máli af hálfu fjmrn. að það verði unnið að því að efla þetta fyrirtæki og þar með að tryggja störf þess fólks sem á hagsmuna að gæta og skapa ný störf fyrir fleiri einstaklinga þannig að það færist kraftur í þetta fyrirtæki sem hefur alla burði til þess að sækja fram í samkeppni við aðra, bæði hér innan lands og kannski ekki síst við erlenda lyfjaframleiðendur.