Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 16:46:06 (6344)


[16:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Í lok þessarar umræðu þá held ég að sé rétt að ég fjalli örlítið um þau viðhorf sem hér hafa komið fram, a.m.k. hjá síðari hv. ræðumönnum. Ég hef reyndar tekið þátt í umræðunni með andsvörum og þess vegna mun ég fyrst og fremst einbeita mér að þeim viðhorfum sem komu fram hjá annars vegar hv. 1. þm. Austurl. og hins vegar hv. 9. þm. Reykv.
    Ég vil að það komi fram að ég var hv. 1. þm. Austurl. í nánast öllum atriðum sammála. Ég vil staðfesta það sem kom fram í ræðu hans að það eru engar frekari hugmyndir nú um ráðstöfun fyrirtækisins. Ég tel að þau viðhorf sem hann ræddi í því sambandi séu afar eðlileg. Ég tek undir það sem hann sagði um að það sé til bóta fyrir fyrirtækið, bæði starfsfólk og stjórnendur þess, að óvissu sé eytt og þess vegna sé það besti kosturinn í stöðunni að samþykkja frv. Ég er einnig sammála honum að mér finnst líklegt að lífeyrissjóðirnir muni vilja líta á þetta mál sérstaklega. Ég minni á að lífeyrissjóðirnir margir hverjir, flestir hverjir, geta lagt til hliðar einmitt til hlutafjár- eða verðbréfakaupa 5% af ráðstöfunarfjármagni sínu. Sé litið á það heildarfjármagn sem gæti út úr því komið á ári hverju miðað við að allir lífeyrissjóðirnir væru með, þá eru það sjálfsagt u.þ.b. 2 milljarðar á ári. Það er allnokkurt fé. Víðast hvar hjá lífeyrissjóðum er skilningur á því að það er ekki einungis tilgangur þessara sjóða að viðhalda fjármunum sínum með því að reyna að halda uppi vöxtum heldur geti það verið gagnlegt að breikka þann stofn sem þeir ná fjármunum af með því að stuðla að nýjum atvinnutækifærum með því að tryggja þau atvinnutækifæri sem til eru og með því að tryggja það streymi í gegnum sjóðina sem nauðsynlega þarf að vera fyrir hendi. Þess vegna er ég sammála hv. 1. þm. Austurl. um það að lífeyrissjóðirnir eru mjög líklegir til þess að vilja kaupa hluti fyrirtækja á borð við Lyfjaverslun ríkisins. Þetta segi ég án þess að nokkur skoðun hafi farið fram um það mál eða án þess að nokkur áform séu uppi um það að lífeyrissjóðunum skuli selja.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að um það varð samkomulag, að ég hélt nokkuð víðtækt samkomulag að heimild í frv. yrði einungis til að selja helming fyrirtækisins og ég gat vel sætt mig við þá niðurstöðu enda taldi ég þá að með því væri verið að vinna að lausn sem sem flestir gætu samþykkt og ég er sammála honum að ég held að það sé mikill kostur ef sem flestir vilja vera með og treysta sér til að styðja frumvörp sem hafa jafnmikil áhrif og einkavæðingarfrumvörp hljóta að hafa.
    Ég tek enn fremur undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. að það er nauðsynlegt að fara mjög vandlega yfir réttindamál starfsmannanna. Ég kem að því síðar hvað nefndin, sem margoft hefur verið nefnd til sögunnar, er að sýsla. Þessi samráðsvettvangur ríkisins og BSRB. En ég vil auðvitað strika undir það af minni hálfu að mér finnst réttindamálin vera þau mál sem báðir aðilar, starfsfólk fyrirtækisins og ríkið, verða auðvitað að ganga frá nægilega snemma og áður en breytingin á sér stað. Þess vegna hef ég lagt það til eða sagt frá því að eðlilegt sé að það verði lagt til, annað hvort af minni hálfu eða nefndarinnar, við 3. umr. að fresta gildistökunni til þess að vinna þennan tíma.
    Ég tel að það eigi að efla þetta fyrirtæki og ég tel að það sé eðlilegt að það gerist með því að fyrirtækið sé rekið eins og hvert annað einkafyrirtæki og það eigi að nota þetta tækifæri til að tryggja samkeppnina á lyfjamarkaðnum hér á landi, í lyfjaframleiðslunni og í sölu lyfja. Ég minni á að ríkisvaldið hefur gífurlega hagsmuni af því að lyfjaverð lækki og samkeppni aukist. Þess vegna held ég að það skipti miklu máli að þegar og ég segi ef, ég leyfi mér nú að segja þegar fyrirtæki verður selt að þá sé það gert með þeim hætti að samkeppnin sé tryggð. Ég get ekki hugsað mér, með fullri virðingu fyrir ágætum fyrirtækjum sem eru rekin hér, einkafyrirtækjum á sviði lyfjaframleiðslu, að þau fyrirtæki gleypi Lyfjaverslun ríkisins einfaldlega vegna þess að það gæti skapast sú hætta að hér myndaðist fákeppni, nánast einokun á markaðnum og að því vil ég ekki stefna.
    Loks vil ég --- það er nú sérkennilegt að ég skuli standa hér upp og lýsa yfir að í einu og öllu kannski sé ég sammála hv. 1. þm. Austurl. þar sem hann er einn af fyrirliðum stjórnarandstöðunnar, en ég vil líka undirstrika að þetta fyrirtæki hefur verið vel rekið og þetta fyrirtæki hefur að undanförnu staðið í því að undirbúa útflutning á hugviti og þekkingu sem ég held að sé mjög til fyrirmyndar, ekki síst vegna þess að með því tekst okkur að verða þátttakendur í því starfi sem til að mynda Norðurlandaþjóðirnar hafa beitt sér fyrir, en það er að byggja upp atvinnurekstur smárra og meðalstórra fyrirtækja hjá Eystrasaltsríkjunum. Íslendingar hafa lagt til þess fjármuni í samstarfi við aðrar þjóðir bæði beint og eins með óbeinum hætti með aðstoð Norræna fjárfestingarbankans og annarra fyrirtækja í eigu norrænna aðila. Þetta held ég að sé til fyrirmyndar og segir okkur að fyrirtækið er vel rekið og það er engin ástæða til þess að halda annað en að það verði það áfram og geti orðið grundvöllur starfa hér á landi og starfa við útflutning á þessari þekkingu sem fyrirtækið býr yfir.
    Ég vil að það komi fram að allt þetta fellur að minni skoðun og ég er fyllilega sammála hv. 1. þm. Austurl. um öll þessi atriði og er honum þakklátur fyrir að hafa beitt sér fyrir því í nefndinni að ná samkomulagi um málið. Ég hef fallist fyrir mitt leyti alveg á þær brtt. sem komið hafa fram í nefndinni og nefndin flytur á þskj. 682 og tel að það sé til bóta, þó ég hafi þurft að slá kannski af ýtrustu stefnu minni í þessu sambandi, þá tel ég að það sé kostur að hafa náð þessu samkomulagi sem hér var minnst á.
    Því miður get ég ekki, hæstv. forseti, sagt alveg það sama um ræðu hv. 9. þm. Reykv., enda hygg ég að hann verði nú lítið hissa á því þó ég segi að ég hafi ekki verið eins ánægður með ræðuflutning hans. Ég kannast að vísu við það og veit að hv. 4. þm. Norðurl. e. kom þeim skilaboðum mjög vel til skila til nefndarinnar að það væri ekki öldungis víst að frv. ætti stuðning allra alþýðubandalagsmanna. Þannig að það er ekkert nýtt og kom mér í sjálfu sér ekkert á óvart. Hv. þm. Svavar Gestsson skoraði margoft í sinni ræðu á mig og reyndar ríkisstjórnina, forsrh. líka, að draga þetta frv. til baka að sinni og bíða með það til næsta þings. Þetta skilst þegar það er haft í huga að hv. þm. sagði aftur og aftur í ræðu sinni að hann væri á móti einkavæðingu þessa fyrirtækis. Af skiljanlegum ástæðum vill sá sem er á móti því að fyrirtækið verði gert að hlutafélagi og hverfi jafnvel úr opinberri eign, m.a. vegna þess að þetta sé heilbrigðismál, að sjálfsögðu vill hann fresta málinu. Að sjálfsögðu vill sá aðili fresta málinu þannig að það getur ekki komið nokkrum manni á óvart.
    Ég vil taka það fram og hef reyndar gert það margoft . . .  ( SvG: Það voru nú ekki rökin, hæstv. ráðherra.) Ja, það voru kannski ekki bein rök þingmannsins, en allar röksemdir hv. þm. skiljast auðvitað

miklu betur þegar það er haft í huga að hann er gjörsamlega á móti frv. Og það er ekkert sem kom fram í hans máli sem bendir til að hann muni skipta um skoðun í sumar, því það er ekki beinlínis það sem hann fjallaði um. Hann hafði að vísu áhyggjur af starfsfólkinu, hann hafði áhyggjur af hinum og þessum þáttum í frv., en aðalatriðið í málflutningi hv. þm. Svavars Gestssonar var að þetta væri heilbrigðismál og af þeirri ástæðu ætti ekki að einkavæða fyrirtækið. Ég vona að ég hafi alls ekki farið rangt með hans mál og ég er ekki að segja að hann þurfi að skammast sín fyrir þessa skoðun, en ég held að ég sé að lýsa skoðun hans mjög rækilega með því að endurtaka hana hér og nú.
    Það breytir hins vegar ekki því að margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. var á þá leið að það er sjálfsagt að það sé kannað. Og ég tek það fram að þegar rætt er um réttindi starfsfólks þá hefur margoft verið sagt að þau mál þurfi að sjálfsögðu að vera í lagi. Það er hins vegar misskilningur að sú nefnd eða sá samráðsvettvangur sem var á fót komið í framhaldi af kjarasamningum opinberra starfsmanna sl. haust hafi átt að fara af stað með þeim hætti að ekki mætti fylgja eftir einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Um þetta áttum við viðræður, ég og formaður BSRB, og við erum að sjálfsögðu ekki sammála um öll atriði er varða breytingar á ríkisrekstrinum og kannski í fæstum atriðum sammála, þó það komi nú oftar fyrir en fólk álítur. Við urðum hins vegar sammála um að setja samráðsvettvanginn af stað og það hefur verið gert og ég hygg að sú nefnd sem rannsakar málin á þeim vettvangi sé að vinna hið ágætasta starf. Það var hins vegar alveg skýrt tekið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og fjmrh. strax í upphafi að það gæti ekki tafið áform ríkisstjórnarinnar hvorki í einkavæðingarmálum né öðrum breytingum sem ríkisstjórnin vill láta gera á ríkisrekstrinum. Ég vil í því sambandi benda á að nú nýlega hefur ríkisstjórnin birt þau áform sín að nota svokallaða samningsstjórnun til þess að ná betri árangri í stjórn og rekstri ríkisstofnana. Þetta eru mál sem vissulega hafa áhrif á starfsmannamálin og við hljótum að þurfa að ræða við okkar viðsemjendur, en við erum ekki bundnir af því þegar við erum í okkar starfi, sú ríkisstjórn sem nú situr, að bera allt undir BSRB og SFR, jafnvel þótt þar sé ágætt fólk í forsvari. Við erum ekki bundnir af niðurstöðu þess fólks. Það væri ekkert lýðræði í landinu ef meiri hluti á þinginu gæti ekki komið frá sér málum án þess að þurfa að bera þau undir aðila sem eru ekki til þess kjörnir að fara með löggjafar- og framkvæmdarvaldið. (Gripið fram í.) Við skulum nú halda okkur við Lyfjaverslun ríkisins í bili, menn geta haft mismunandi skoðanir á skattastefnunni. En þetta vil ég að komi hér mjög skýrt fram, það var aldrei ætlunin að samráðsvettvangurinn stjórnaði ferðinni. Hins vegar var fallist á það að ræða þessi mál og ég held að báðir aðilar séu sammála um að þær viðræður séu til mikilla bóta og ugglaust má gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa ekki verið skjótari í sínum viðbrögðum og hafið þessar viðræður miklu fyrr. Um það skal ég ekkert segja.
    Varðandi biðlaunaréttinn vil ég enn og aftur ítreka það sem margoft hefur reyndar komið fram og það er að aðilar málsins, annars vegar ríkisvaldið, þ.e. ríkisvaldið núna, fjmrh. fyrir hönd ríkisins og hins vegar BSRB fyrir hönd starfsmanna ríkisins, þeirra sem eru í því sambandi, eru á öndverðum meiði um skilning á tiltekinni grein. Skilningur okkar hefur margoft komið fram, skilningur þeirra líka. Og það var rætt í kjarasamningunum árið 1992, fyrir tæpum tveimur árum, þar sem við sóttum mjög fast á að breyta lögunum frá 1954, að fulltrúar BSRB og SFR sögðu að það kæmi ekki til greina að breyta þeim lögum einhliða þá við þá samningagerð og það yrði að sópa því út af borðinu. Á það var fallist en það var jafnframt tekið mjög skýrt fram, mjög skýrt fram, af hálfu ríkisstjórnarinnar að við mundum halda áfram tillöguflutningi á Alþingi þar sem væru lagagreinar í frv. sem segðu að við mundum fella úr gildi við tiltekin skilyrði 14. gr. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þegar fólk fengi vinnu við fyrirtækið eftir formbreytingu, nákvæmlega sams konar vinnu. Og það var tekið fram, þ.e. áður en þessir kjarasamningar voru undirritaðir af hálfu forráðamanna BSRB, að þeir væru þessu ósammála og mundu beita sér gegn því bæði með því að hafa áhrif á þingið og hugsanlega leita til dómstóla. Það er einu sinni þannig í samskiptum aðila að menn þurfa ekki alltaf og geta ekki alltaf verið sammála, en þeir geta orðið sammála um það að vera ósammála og sammála um að beita þá þeim ráðum sem þeir hafa í lýðræðisþjóðfélagi. Og þetta lá algerlega ljóst fyrir. Það er síðan á sl. ári, sl. hausti, þegar gengið er frá nýjum kjarasamningum að ákveðið er að taka upp þessa viðræðunefnd eða þennan viðræðuvettvang.
    Þessi mörgu orð, virðulegur forseti, sem ég hef haft hér um þetta tiltekna atriði, geri ég vegna þess að ég vil að þetta sé alveg skýrt. Samráðsvettvangurinn átti ekki að leysa réttindamálin fyrirtæki fyrir fyrirtæki. Það hefði getað gerst og ef aðilar eru sammála um að það gerist þá mun (Gripið fram í.) Það er ekkert á móti því að það gerist, en við höfum aldrei fallist á það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ráðherrarnir, og ekki fjmrh., að vera bundnir því að ná þessu samkomulagi því það er ekkert víst að okkur takist að ná samkomulaginu og okkur þykir rétt að það sé meiri hluti þingsins sem ráði ferðinni. Hins vegar getur auðvitað BSRB og forustumenn BSRB og starfsfólkið sem telur á sér brotið ávallt sótt rétt sinn til dómstóla. Ég hef mjög ákveðnar skoðanir sem lögfræðingur á því hvað 14. gr. þýðir og ég tel að það sé útilokað að þessi grein þýði það að fólk geti verið á tvöföldum launum í nákvæmlega sama starfi. Aðrir hafa aðra skoðun á því og þeir hafa auðvitað fullan rétt á að hafa sína skoðun á máli sem er jafnumdeilt og þetta.
    Það væri ekki til bóta að fresta þessu máli með tilliti til þessa atriðis. Það verður að fara sína leið. Það liggur í eðli samskipta vinnuveitenda og launþega að það kemur upp ágreiningur og þann ágreining verða menn að leysa með þeim hætti sem þjóðfélagið gerir ráð fyrir á hverjum tíma.

    Ég vil svo áður en ég hverf algjörlega frá starfsmannamálunum segja það og láta það koma fram hér að samstarf mitt við forustumenn BSRB hefur verið snurðulaust að öðru leyti en því að við erum auðvitað ósammála um nokkur grundvallaratriði. En viðræður eiga sér stað um þessi viðkæmu og mikilvægu mál og ég held að þær viðræður séu mjög til fyrirmyndar og þær verða auðvitað að fá að þróast í tímans rás og vonandi skila síðan þeim niðurstöðum sem til var ætlast.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, 8. þm., 9. þm. Reykv. --- mér er gjarnt að hækka hann í röð, það getur nú verið fyrirboði, 9. þm. er hann --- spurði síðan að því hvort það væri eðlilegt að hafa farið í þær endurbætur sem Ríkisendurskoðun hefði gagnrýnt, innan gæsalappa vil ég segja ,,gagnrýnt``, eigum við að segja bent á, í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga. Um þetta vil ég segja: Þetta mál var skoðað mjög rækilega. Það var skoðað af aðila sem er sérfræðingur í verðbréfasölu og sölu á fyrirtækjum og þeir voru spurðir sem sérfræðingar þetta fyrirtæki, fulltrúar þess, hvort það væri hætta á því að ríkið mundi tapa þessum fjármunum ef fyrirtækið yrði selt. Niðurstaða fyrirtækisins var sú að það væri afar ólíklegt og síðan var bætt við að það mætti hins vegar vara sig á því að stöðva eðlilega þróun fyrirtækisins þótt við værum með fyrirhugaða sölu eða fyrirhugaða formbreytingu í gangi. Og það fellur mjög vel að því sem hv. 1. þm. Austurl. sagði hér áðan að þessi óvissa sem verður til er hættuleg og hún hefði verið hættuleg fyrir þetta fyrirtæki ef við hefðum stöðvað eðlilega þróun og uppbyggingu þess. Og ég vil taka það fram að að sjálfsögðu samþykkti Alþingi þetta með sínum hætti. Það kom bæði fram í fjárlögum íslenska ríkisins og einnig í lánsfjárlögum þar sem skýrt var tekið fram að leitað væri heimildar til þess að byggja fyrirtækið upp með þessum hætti. Þetta vil ég að komi hér fram.
    Síðan vegna bóluefnaútboðs. Ég held að það sé óþarfi fyrir hv. þm., sem ég veit að er mikill áhugamaður um heilbrigðismál, að hafa áhyggjur af útboðum þegar þegar um lyf er að ræða. Útboð fara margoft fram þegar um lyf er að ræða. Ég hygg t.d. að fyrirtækið Ríkisspítalar sem hv. þm. þekkir mjög vel láti fara fram útboð í lyfjakaupum, a.m.k. að verulegu leyti af og til. Þannig var það a.m.k. á sínum tíma þegar ég var formaður í umboði hv. 1. þm. Vestf., var formaður stjórnarnefndar Ríkisspítala, þá var þetta gert og ég hygg að svo sé enn.
    Ég vil t.d. benda á, af því að hv. þm. var að tala um og spurði að því hvort fjmrh. ætlaði að láta fara fram slíkt útboð á hundadögum eftir 17. júní, að það minnir mig einmitt á það að rauðir hundar eru nánast upprættir á Íslandi vegna bólusetninga og ég hugsa að það bóluefni sem er notað til þess sé nú fengið m.a. með útboði, ég býst við því. Þó rauðir hundar hafi ekkert með hundadaga að gera þá datt mér það í hug þegar hv. þm. var að ræða um hundadagana í þessu sambandi. ( Gripið fram í: Svo hafa hundar verið í umræðum í þinginu undanfarið.) Já, það eru nú allt öðruvísi íslenskir hundar sem menn geta slegist um í hv. landbn. Nei, það stendur í greinargerðinni, virðulegur forseti, einungis að heilbrrh. geti látið fara fram útboð. Það segir ekkert að það skuli fara fram útboð heldur er bent á að það sé hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti. (Gripið fram í.) Nei. Ef við lítum á 38. gr. laganna þá held ég að það sé eðlilegast þegar um er að ræða kaup á bóluefni að heilbrigðisyfirvöld láti fara fram útboð á þeim efnum. Hins vegar snýr kannski 43. gr. laganna, þ.e. 4. tölul. í greinargerðinni, fremur að fjmrh., en þá er þess að geta að Almannavarnir heyra undir dómsmrh. og málefni Almannavarna eru til umfjöllunar í allshn. þingsins. Þannig að ef menn vilja leita til þess aðila sem fer með málefni Almannavarna ættu þeir kannski að snúa sér til allshn. frekar en heilbrn. því það er Almannavarna að taka ákvörðun um það hvernig birgðahald eigi að vera og þá sérstaklega almannavarnaráðs og hagvarnaráðs. Þetta er útúrdúr, en ég vil aðeins segja að sá ráðherra sem á að leggja skýrsluna fyrir þingið hlýtur að vera fjmrh. Það ber áreiðanlega að skilja, svo að ég gerist nú lögskýrandi, það ber áreiðanlega að skilja brtt. nefndarinnar á þann veg að þetta sé fjmrh., enda hefur fjmrh. farið með málefni Lyfjaverslunar ríkisins og eðlilegt að hann leggi slíka skýrslu fyrir á sínum tíma fyrir Alþingi. Hins vegar finnst mér eðlilegt að fjmrh. hafi um það samvinnu við aðra þá ráðherra sem þessi mál heyra undir, eins og dómsmrh. og hugsanlega heilbrrh.
    Hæstv. forseti. Ég hef nokkuð ítarlega fjallað hér um ræður hv. þm. Annars vegar hef ég lýst yfir stuðningi við öll þau meginatriði sem komu fram hjá hv. 1. þm. Austurl., formanni hv. efh.- og viðskn., og hins vegar hef ég að langmestu leyti hafnað viðhorfum hv. 9. þm. Reykv. Og ég vil ítreka það að ég tel að það sé ekki frambærilegt fyrir mig að taka við rökum hv. þm. þegar ég veit að þau byggjast mestmegnis á því að hv. þm. er í grundvallaratriðum á móti því að fyrirtækið lendi í einkaeigu af ástæðum sem hann segir vera þær að þetta séu heilbrigðismál en ekki fyrirtækjarekstur.