Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:40:13 (6352)


[17:40]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir að setja ofan í við þingmenn fyrir gáleysislega meðferð á þeim ákvæðum þingskapa sem hér um ræðir en þingmönnum er vissulega vorkunn í þessu efni vegna þess að það leitar á þá vorið og umhverfið allt. Hins vegar hygg ég að það sé athyglisverð nýlunda engu að síður þó það sé brot á þingsköpum að þegar verið er að ræða um Lyfjaverslun ríkisins þá skuli menn í andsvörum kasta sér óvara í myndun meiri hluta bæjarstjórnarinnar á Akureyri í síðustu kosningum. Það finnst mér merkilegt og bendir til þess að þeir framsóknarmenn séu ekki enn þá búnir að gleyma því, a.m.k. hvernig það bar að. Við því er kannski til lyf sem fæst annars staðar en í Lyfjaverslun ríkisins.