Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:41:12 (6354)


[17:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég leit út um gluggann og átti helst von á því að sjá fólk með spjöld sem á stæði þessi enski frasi ,,Make love, not war`` en það var nú ekki en úti var íslenska vorið komið, en ég ætla ekkert að ræða það frekar né heldur ástardrykki sem menn hafa verið að ræða hér upp á síðkastið í tilefni umræðunnar (Gripið fram í.) um Lyfjaverslun ríkisins. (Gripið fram í.) Ég klára tímann, forseti, með því að hlusta hérna á hlátrasköll utan úr sal, en ef ég kem að ( Gripið fram í: Kjarna málsins.) já, sem eru tveir, þá langar mig til þess að nefna þau tvö atriði sem hv. þm. fjallaði um.
    Í fyrsta lagi hvernig á að tryggja samkeppnina. Þá vil ég geta þess að það er orðið lögbundið ef frv. verður að lögum því það segir í 4. gr. að það skuli gæta þess að samkeppni verði tryggð og það gerist með því að stærstu fyrirtæki í sömu grein mega ekki kaupa hluti í fyrirtækinu. Það er undirstöðuatriði. Ég get ekki farið nánar út í það núna því tími minn leyfir það ekki.
    Í öðru lagi varðandi ágreininginn um biðlaun vil ég taka það fram að mitt sjónarmið er það að fólk sem heldur starfi sínu hjá sama fyrirtæki eftir formbreytingu á að mínu mati ekki að fá biðlaun. Þegar um biðlaunarétt er að ræða þá er það til fólks sem þarf á þeim að halda þegar störfin eru lögð niður.