Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:49:47 (6358)


[17:49]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. fjallar um afnám á lögum nr. 39 frá 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Frv. er samið af nefnd sem kannaði stöðu Verðjöfnunarsjóðs og var skipuð í októberlok 1991 af sjútvrh. til þess að endurskoða þessi lög. Var Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri formaður nefndarinnar en aðrir í nefndinni voru Björn Björnsson bankastjóri, Hallgrímur Þorsteinsson, löggiltur endurskoðandi, Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og Þorvarður Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi.
    Þeir rekja í alllöngu máli stofnun Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins og lögin um þau og reynsluna af Verðjöfnunarsjóði, sveiflujöfnun og opinbera verðjöfnun og sveiflujöfnun á vegum fyrirtækja, afkomujöfnun í stað verðjöfnunar, andstöðu við opinbera verðjöfnun og lagasetningu um útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Síðan koma niðurstöður nefndarinnar og svo álit nefndarmanna á grundvelli þess sem þeir segja í þessum köflum. Þeir segja að með hliðsjón af aðstæðum í sjávarútvegi, andstöðu hagsmunaaðila við áframhaldandi starfsemi sjóðsins og af stöðu sjóðsins þegar fjármunir hans eru uppurnir eftir að hafa verið nýttir til að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja, þá álíti nefndin að raunhæf skilyrði fyrir því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins starfi áfram séu ekki lengur fyrir hendi. Því sé eðlilegt að lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verði afnumin og sjóðurinn þar með niður lagður.
    Ef þetta frv. verður að lögum þá segja þeir að nefndin telji rökrétt framhald þeirra ráðstafana sem gripið var til í maí sl. að hinar óverulegu innstæður sem enn standa á nafnskráðum reikningum í sjóðnum verði greiddar út til réttra aðila.
    Eftirstöðvarnar af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins eru ekki á nafnskráðum reikningum, eins og menn vita, að hluta til því að þær voru ekki nafnskráðar mörg fyrstu árin sem þessi sjóður starfaði. Því er útilokað að rekja slóð þessara fjármuna til ákveðinna aðila. Nefndin sem leggur þessa tillögu fram segir að henni þyki því eðlilegt að þessar eignir sjóðsins svo og aðrar eignir hans, eftir því sem lög leyfa, verði nýttar í þágu sjávarútvegsins almennt, t.d. til sérstakra verkefna á sviði hafrannsókna eða til að styrkja nýjungar og framþróun í greininni.
    Loks telur nefndin að athugun þurfi að gera á því með hvaða hætti megi bæta skilyrði fyrirtækja til að beita virkri sveiflujöfnun á vettvangi fyrirtækjanna.
    Sjútvn. Alþingis fékk þetta mál til meðferðar og fjallaði ítarlega um þetta frv. á nokkrum fundum og fékk til sín fulltrúa frá sjómannasamtökunum, bæði Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Ísland og Vélstjórafélagi Íslands, fulltrúa Landssambands íslenskra útvegsmanna, fulltrúa Samtaka fiskvinnslustöðva og fulltrúa frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands. Enn fremur frá Samtökum iðnaðarins, frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, frá Alþýðusambandi Íslands, fulltrúa frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, auk fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands og formann nefndarinnar sem komst að þessari niðurstöðu.
    Það varð samkomulag meiri hlutans í sjútvn. að flytja eina brtt. við þetta frv. Hún er þess efnis að síðasti málsliður 2. gr. orðist svo: ,,Aðrar eignir sjóðsins skulu renna til reksturs Hafrannsóknastofnunarinnar utan 10 millj. kr. sem skulu renna til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.``
    Þetta er hugsað sem markaðsátak sem Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda hyggst fara í og veitir ekki af að gera þar mikið átak. Það hefur verið mikil framleiðsluaukning í þessari atvinnugrein en því miður hefur afurðaverð sem greinin verður að búa við ekki verið að sama skapi hagstætt. Afurðaverðið hefur lækkað verulega á síðustu tveimur árum og ekki virðist vera enn þá komin staðfesta í verði hjá þessari atvinnugrein. Því taldi meiri hluti nefndarinnar rétt að verða við óskum stjórnar þessa félags, þar sem flestir rækju- og hörpudiskframleiðendur eru innan þeirra vébanda, og leggur því til að 10 millj. verði varið í þessu skyni.
    Ef við förum til baka og inn á það hvernig Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins varð til þá varð hann til fyrir atbeina greinarinnar sjálfrar. Greinin sjálf óskaði eftir því við löggjafann að lög um Verðjöfnunarsjóð yrðu sett. Ég held að hann hafi fyrst heitið Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins en auðvitað tóku fleiri þátti því og við endurskoðun síðar meir var nafni sjóðsins breytt eftir því sem ég best man. En fyrstu viðbrögð og áherslan sem lögð var á að stofna þennan sjóð var frá sjávarútveginum sjálfum. Þá stóð sjávarútvegurinn lengi vel óskiptur að því að viðhalda og starfrækja Verðjöfnunarsjóðinn. Hins vegar leið ekki á löngu þar til það fóru að koma upp ýmsar efasemdir um það að innstæður úr sjóðnum væru ekki skráðar á nafn viðkomandi framleiðanda eða fyrirtækis og hann gæti því aldrei fengi hærri bætur úr sjóðnum en nam þeirri upphæð sem hann hafði lagt í hann. Áður var þetta ekki skráð neins staðar og margur sá sem ekkert fékk sem hætti í greininni taldi illa með sig farið að hafa verið látinn greiða til sjóðsins árum saman en aðrir hefðu hirt það sem hann hafði greitt.
    Þannig hafa skapast og aukist töluverðar óvinsældir í sambandi við starfrækslu sjóðsins. Það hefur líka komið fram gagnrýni á stjórn sjóðsins í gegnum mörg ár fyrir það hvað stjórnin hefði seint tekið við sér þegar um lækkun afurða var að ræða og haldið áfram of háum inngreiðslum til sjóðsins. Allt þetta hefur gert það að verkum að samstaðan sem var á bak við hann í upphafi hraðminnkaði og þó alveg sérstaklega á síðustu árum. Ég minnist þess að Landssamband íslenskra útvegsmanna var einn sá aðili sem tók sterkast undir nauðsyn þess að efla þennan sjóð. En þar urðu þau umskipti fyrir örfáum árum að landssambandið taldi rétt að starfsemi sjóðsins yrði gerbreytt eða hann lagður niður.

    Bæði ég og fleiri fluttum frv. um breytingar á sjóðnum fyrir allmörgum árum en þær voru ekki afgreiddar. Síðan var farið í að endurskoða lögin um sjóðinn og honum breytt en andstaðan innan greina sjávarútvegsins hefur verulega aukist. Og það má segja að fulltrúar sjávarútvegsins, bæði launþega og atvinnurekenda, vilja leggja þennan sjóð niður. Nú koma aðrir og segja: Þessi sjóður á að starfa áfram. Það er nauðsynlegt að hafa sveiflujöfnunarsjóð í sjávarútvegi. Allt getur þetta verið rétt. En í umsögn Þjóðhagsstofnunar um frv. um afnám laga Verðjöfnunarsjóðsins segir:
    ,,Ef Verðjöfnunarsjóður verður lagður niður án þess að nokkuð komi í staðinn, eins og umrætt frv. gerir ráð fyrir, verður að beita öðrum hagstjórnartækjum (gengi, vöxtum og sköttum) meira í því skyni að jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Þetta hefur óþægilegar hliðarverkanir fyrir aðrar atvinnugreinar og fyrir vikið verður hagvöxtur líklega hægari en án sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Jafnframt verður ekki séð að sjávarútvegur bíði tjón af sérstakri sveiflujöfnun innan greinarinnar. Þvert á móti má færa rök fyrir því að slík tilhögun geti styrkt greinina þegar til lengri tíma er horft.``
    Á sl. ári var meginfjármagn Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins greitt út til fyrirtækjanna í sjávarútvegi. Svo að tiltölulega lág upphæð er eftir miðað við það sem út var greitt á sl. ári. Þannig er málum háttað að sjávarútvegurinn vill ekki Verðjöfnunarsjóð með þessum hætti og því er lagt til að hann verði lagður niður.
    Ég vil segja fyrir mig persónulega að ég tel að Verðjöfnunarsjóðurinn hafi afar lítið að segja í þeirri stöðu sem sjávarútvegurinn er í núna og stöðu sem við sjáum fram á í nánustu framtíð. En það ber að huga að því að skipa sveiflujöfnunarmálum með einhverjum hætti en það getur ekki verið innan þess ramma sem hér er vegna þess að þeir sem eiga hlut að máli og þeir sem eiga að leggja fé inn í sjóðinn og sem eiga að fá rétt til að fá úr honum bætur þegar verðfall verður eru á móti því sem hér er um að ræða.
    Það er mjög athyglisvert þykir mér að meiri hluti sjútvn. skilar nál. 2. mars og í dag er 14. apríl. En minni hluti nefndarinnar skilar ekki álit fyrr en 5. apríl eða það er komið nokkuð á annan mánuð eftir að meiri hlutinn skilar áliti. Og það ( SvG: Hvað var málið lengi í nefndinni?) Það hafa nú sumir menn a.m.k. í minni hlutanum getað skilað vandaðra áliti á skemmri tíma. Nema þeim sé að fara svona ferlega aftur að þeir þurfi svona langan tíma. Þeir voru miklu röskari fyrir nokkrum árum. En það vekur þó enn meiri furðu mína að Seðlabanki Íslands skilar ekki umsögn um frv. fyrr en 17. mars. Var svona náið samspil á milli minni hluta sjútvn. og Seðlabankans sem hunskaðist ekki til að skila áliti á réttum tíma? Var það kannski ástæðan fyrir því að minni hlutinn gat ekki skilað áliti að hann var að bíða eftir Seðlabankanum? Það er nú meira traustið sem minni hlutinn hefur á Seðlabankanum. Vonandi á það eftir að aukast þegar nokkrir dagar líða. En þetta var nú í raun og veru útúrdúr.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að við sem skrifum undir nál. meiri hlutans teljum að eins og málum er komið og eins og ákveðnar óskir koma fram um úr öllum greinum sjávarútvegsins þá sé rétt, sérstaklega eftir þá miklu útgreiðslu sem átti sér stað á sl. ári, að afnema þennan sjóð. En ég segi það fyrir mitt leyti að ég tel að það eigi ekki að leggja árar í bát og það eigi að hugsa í framtíðinni um nýjan sveiflujöfnunarsjóð með öðrum hætti í fullri samvinnu við atvinnugreinina.
    Undir nál. skrifa auk þess sem hér stendur, Árni R. Árnason, Gunnlaugur Stefánsson, Vilhjálmur Egilsson og Guðmundur Hallvarðsson.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 3. umr.