Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 18:06:57 (6359)


[18:06]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrst aðeins víkja að því sem hv. formaður sjútvn. sagði um vinnubrögð í nefndinni. Því er ekki að leyna að þetta mál var tekið út úr nefndinni með miklum mótmælum minni hlutans. A.m.k. mótmælti sá sem hér stendur því mjög harðlega. Ástæðurnar voru þær að til viðtals við nefndina komu fulltrúar mikilvægra stofnana okkar samfélags, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabankans, Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Samtaka iðnaðarins og allar þessar mikilvægu stofnanir okkar samfélags vöruðu mjög við því sem þarna var verið að gera. Það má vel vera að það eigi að taka slíkt heldur léttilega og segja sem svo að það séu allar líkur til þess að það hafi í þessu tilviki verið eitthvert samstarf á milli minni hlutans og Seðlabankans. Ég vil ekki gera seðlabankamönnum það að þeir starfi þannig að þeir taki upp sérstakt samstarf við minni hlutann á Alþingi. Ég hef ekki kynst því fram að þessu og þó það megi ýmislegt um Seðlabankann segja þá tel ég að þeir hagfræðingar sem þar hafa starfað fyrr og síðar hafi verið mætir menn og oft lagt margt gott til mála.
    Það var okkar mat að þegar svo miklar aðvaranir komu fram, sem komu mér ekki á óvart, þá væri nauðsynlegt að fara betur ofan í málið. Þá væri nauðsynlegt að fá skriflegar umsagnir þessara stofnana. Við vildum bíða eftir því í minni hlutanum að álit Seðlabankans og annarra stofnana kæmu. Við töldum nauðsynlegt að leggja þau gögn fram í sambandi við þetta mál og drógum þar af leiðandi nokkuð að skila nál. enda var ekkert sérstaklega rekið á eftir því. Það var ýmislegt annað á dagskrá í þinginu en við höfum í sjálfu sér verið tilbúnir til þess að skila þessu hvenær sem er ef það hefði verið talið nauðsynlegt að taka

málið á dagskrá. Svo var ekki. Síðan tafðist það af fjárveru og af ýmsum öðrum ástæðum þar til nál. var skilað og allir nefndarmenn höfðu farið yfir það og gert nokkrar leiðréttingar og athugasemdir á því.
    Þetta kunna að þykja óeðlileg vinnubrögð en ég tel þau vera mjög eðlileg. Hins vegar taldi ég það óeðlilegt að leggja svona mikla áherslu á að taka þetta mál út úr nefndinni eins og formaður nefndarinnar gerði. Og þá er rétt að velta því fyrir sér: Af hverju er verið að samþykkja þetta frv.? Hvað er það sem raunverulega liggur að baki? --- Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., ef hann getur svo við haft, séu viðstaddir þessa umræðu vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og nauðsynlegt að ræða við ríkisstjórnina um það. En ástæðan er sú að það eru til rúmar 200 millj. í þessum sjóði. Og ríkisstjórnin, sem talar næstum því dag hvern um sértækar aðgerðir fyrri ríkisstjórna, sjóðasukk og guð má vita hvað, henni liggur svo mikið á að ná út þessum peningum að hún getur ekki beðið lengur. Það liggur svo mikið við að það þarf að leggja niður eitt mikilvægasta hagstjórnartæki samfélagsins. Er þetta hagstjórnartæki í gangi? Er það að vinna einhverjum skaða? Er einhver að borga inn í þennan sjóð núna? Eru þannig aðstæður í okkar þjóðfélagi? Nei, það eru engar slíkar aðstæður, því miður. Ef menn trúa því, minni hluti nefndarinnar trúir því og hefur það mikla trú á framtíðinni að þessar aðstæður muni koma. En hæstv. ríkisstjórn, meiri hluti sjútvn. og meiri hluti Alþingis hefur enga trú á því. Þeir eru búnir að grúfa sig niður í svartnættið og eru ákveðnir í að vera þar. Þeir sjá ekkert nema svart. Hér muni aldrei koma þeir tímar að það þurfi að taka og nota svona tæki.
    Nei, það á sem sagt að taka þessa peninga út vegna þess að það skiptir ríkissjóð óskaplega miklu máli. En hvaða máli skyldi það nú skipta? Hvaða þjóðhagslegu áhrif mun það hafa að taka tvöhundruð og eitthvað milljónir út af bundnum reikningi í Seðlabankanum og flytja þær yfir á reikning ríkissjóðs? Ekki nokkur áhrif. Það er þá helst að það muni hafa þau áhrif að ríkissjóður muni eyða heldur meira vegna þessa og því muni það verða til þess að auka opinber útgjöld. Að vísu er nú þessi fjárhæð svo lítil að það tekur ekki að tala um það í því samhengi og ekki ætla ég að fara að gera mikið úr því. En þetta er tilgangurinn með þessu frv., að nálgast þessar krónur. Og þá segja menn: Það er sjálfsagt að afnema þetta mikilvæga hagstjórnartæki án þess að taka upp nokkurn skapaðan hlut í staðinn. Það er sagt að það eigi að fara í gang eitthvert starf til að skoða það. Þó að það hafi verið hlutverk nefndarinnar að gera tillögur um það. Hins vegar hefur hæstv. iðnrh. Sighvatur Björgvinsson, þingmaður Vestf., komið því frá sér hvað eigi að koma í staðinn. Ég reikna með að hann hafi nokkurn stuðning til þess í ríkisstjórninni vegna þess að hann setti það fram á opinberum vettvangi, á vettvangi iðnaðarins, þar sem hann talaði fyrir því að það yrði tekin upp ný sveiflujöfnun hér í þjóðfélaginu. Hver átti sú sveiflujöfnun að vera? Auðlindaskattur. Það var greinilegt á máli ráðherrans að hann teldi það vera mjög mikilvægt að leggja Verðjöfnunarsjóðinn niður til að geta nú farið að snúa sér að því sem skiptir máli og hann hefur verið að tala fyrir með aðstoð Morgunblaðsins og hluta af Sjálfstfl. að nú skyldu menn snúa sér að auðlindaskattinum.
    Ég á ekki von á að hv. formaður sjútvn. styðji það og ég veit að hann gerir það ekki. Og ætla ekki að gera honum upp neitt í því sambandi. ( Gripið fram í: Nú, er ekki stjórnarfrumvarp?) Ég ætla ekki að gera hæstv. sjútvrh. það upp að hann vilji fara þá leið. Hann hefur sagt að hann vilji það ekki. En með því að samþykkja þetta frv. er verið að undirbúa slíkan jarðveg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Og ég bendi á máli mínu til stuðings það sem segir í áliti samtaka iðnaðarins, sem ég ætla að koma að betur síðar, að þau segja í lok sinnar umsagnar, með leyfi forseta:
    ,,Umræða um arftaka Verðjöfnunarsjóðs hefur enn ekki farið fram.`` Ég endurtek: Hefur enn ekki farið fram. Ekki að frumkvæði ríkisstjórnarinnar, ekki að frumkvæði hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem flestir eru á móti þessu frv. Það er rétt en það þarf ekki endilega að vera rétt út af því. En síðan segir í þessari umsögn:
    ,,Búast má við að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu. Ekki má líta svo á að umræða um leiðir til að draga úr sveiflum í starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs sé einkamál samtaka í sjávarútvegi.``
    Það er nú svo að íslenskir iðnrekendur eða Félag íslenskra iðnrekenda hafði áður lagt áherslu á það að styðja Verðjöfnunarsjóðinn og vildu ekki mæla fyrir því að taka upp auðlindaskatt. Það er alveg ljóst að nú er það komið á dagskrá hjá þeim. Að vísu höfðu þau samtök sem sameinuðust þessum samtökum haft það á sinni dagskrá og mælt fyrir því. En það er náttúrlega ljóst að iðnaðurinn sér alveg hvað er að gerast. Ef það á að afnema þessa sveiflujöfnun þá mun það þýða að það þurfi að beita tækjum í framtíðinni eins og gengi og vöxtum í ríkari mæli eins og hæstv. formaður sjútvn. benti réttilega á úr umsögn Þjóðhagsstofnunar. Það er það sem koma skal að beita sköttum, gengi og vöxtum til að halda þenslunni í skefjum sem mun áreiðanlega koma og hvaða áhrif mun það hafa á aðrar atvinnugreinar í landinu. Auðvitað mun það kyrkja þær og drepa í fæðingu ýmislegt sem gæti orðið hér til verðmætasköpunar í landinu. Og það er nú ekki nema von að mönnum blöskri að hæstv. fjmrh. skuli liggja svona mikið á að færa 200 millj. af bundnum reikningi í Seðlabankanum inn á reikning ríkissjóðs. ( StG: Til einskis.) ( SJS: Þetta eru ljótu blankheitin.) Auðvitað veit ég að ríkissjóður stendur illa. En það þarf að hugsa fyrst og fremst um þjóðarheildina og þjóðarhag og áhrif þessa á þann hag en ekki einhver skammtímasjónarmið út frá því hvernig kontóinn í fjmrh. stendur á hverjum tíma. Síðan er rétt að taka það fram að nú um þessar mundir eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að reyna að ná samstöðu um aðgerðir í sambandi við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og þróunarsjóðinn. Okkur hefur verið sagt að menn leggi mikið upp

úr því að afgreiða þau mál fyrir þinglok og ná sem bestri samstöðu um þau mál. En er það nú skynsamlegt að vera að eyða tíma þingsins í þetta mál sem skiptir svo litlu máli til skamms tíma litið en svo miklu máli til lengri tíma litið? Ætli það væri ekki skynsamlegra að nota tímann í annað. En auðvitað verðum við sem störfum í minni hluta nefndarinnar að reyna okkar ýtrasta til að reyna að koma einhverri skynsemi inn í þessa umræðu og fá menn til að líta til lengri tíma því það kemur dagur eftir þennan dag. Ég minni á í þessu sambandi að þetta mál tengist breytingunum á lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins á sínum tíma. Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því frv., að þá lá svo mikið á að breyta lögunum um stjórn Hagræðingarsjóðs, var sú að ríkisstjórnin þurfti að ná rúmum 500 millj. kr. inn í ríkissjóð sem annars hefðu runnið í Hagræðingarsjóð og í reynd var ekki grundvöllur fyrir vegna þess að það var verið að draga saman hér veiðiheimildir. Síðan var fallið frá því góðu heilli og ákveðið að gera það ekki. Þá missti ríkissjóður þessar 500 millj. kr. sem aldrei var grundvöllur fyrir að taka. Þá er greinilegt að menn fóru að leita hvar væru nú til peningar. Er einhvers staðar einhverja aura að finna úr sjóðunum sem allir áttu að vera tómir? Jú, þá fundu menn að það væru til einhverjar rúmar 200 millj. kr. í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins og það væri rétt að nota þær sem skiptimynt. Það var gert ráð fyrir þessu á fjárlögum ársins í ár og nú verður að keyra þetta í gegn til að uppfylla þau vitlausu áform.
    Þetta er að mínu mati allt með miklum eindæmum. Þá er nú rétt að víkja nokkuð að því nefndarstarfi sem átti sér stað í sambandi við þetta mál. Það er alveg ljóst að nefndin fékk út af fyrir sig nokkuð gott hlutverk og það er ekki margt að athuga við skipunarbréf hennar en þó eitthvað eins og gengur. En ég ætla aðeins að vitna í skipunarbréfið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það er hlutverk hennar að meta hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegs og áhrifum þeirra á þjóðarbúið. Þá er nefndinni falið að taka afstöðu til þess hvort ná megi þeim markmiðum eftir öðrum leiðum. Loks er nefndinni ætlað að leita samráðs við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og meta þær tillögur sem af þeirra hálfu hafa verið settar fram varðandi sjóðinn.``
    Að mínu mati hefur nefndin unnið starf sitt vel að því er varðar það hlutverk hennar að meta það hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegs og áhrifum þeirra á þjóðarbúið. Ég hef engar athugasemdir við þetta starf nefndarinnar sem ég skal koma betur að hér á eftir.
    Það má segja að niðurstöður nefndarinnar séu einfaldlega þær eins og ég les þær að verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr þessum sveiflum. Þeir sýna fram á að það hafi gerst 1990--1991. Og það er sýnt fram á með skýrum rökum og það kemur fram í athugasemdum margra annarra að ef þetta tæki hefði ekki verið starfandi á árunum 1990--1991 þá hefði mun verr farið í okkar efnahagsmálum. Þetta voru uppgangstímar og því er ekki að neita að gengi var nokkuð hátt þrátt fyrir þetta á þessum tíma. En þetta var viðurkennt og það var safnað upp miklu fé á tiltölulega stuttum tíma og alveg ljóst að það kom í veg fyrir þenslu og varð þess valdandi að iðnaðurinn hafði bærileg starfsskilyrði ekki síst á árinu 1990 þó að þau versnuðu á árinu 1991. Þetta viðurkenna allir. Og það er alveg ljóst að það mun koma aftur uppsveifla í íslenskum sjávarútvegi og íslenskum þjóðarbúskap. Þessar sveiflur hafa því miður verið nokkuð reglulegar og þær hafa alltaf komið og við höfum þurft að læra að lifa með þeim með því að taka á okkur kjaraskerðingu, með því að skera ýmislegt niður og neita okkur um margt það sem annars hefði verið hægt að gera eins og nú er. En það er alveg ljóst að allt sem lagt er til hliðar í uppganginum hvort sem það er á vegum fyrirtækja, einstaklinga eða þjóðfélagsins í heild er til mikilla bóta. Og það verður til þess að við getum fremur lifað af kreppuna og lifað það af þegar niðursveiflan kemur.
    Það hefur mikið verið gagnrýnt að svokallaður Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hafi verið settur á fót. Og það er eins og gengur með þann sjóð eins og allt annað að það var ýmislegt sem fór þar úrskeiðis en annað sem gekk vel. Ég nefni sem dæmi að það fyrirtæki sem fékk fyrst fyrirgreiðslu í þeim sjóði er það ágæta og vel rekna félag Grandi í Reykjavík. Það þurfti á því að halda á þeim tíma hvað svo sem sagt er um það. Það fyrirtæki þurfti á því að halda að fá lengingu sinna lána og skuldbreytingu. Það var rétt og nauðsynlegt að hjálpa því fyrirtæki í því sambandi. Enda hefur það spjarað sig. Það var gert ráð fyrir því á þeim tíma að veiðiheimildir gætu verið nokkuð stöðugar á næstu árum. M.a. vegna þess að það voru uppi mjög ákveðnar spár um það að meiri þorskur kæmi frá Grænlandi sem reyndust því miður ekki á nægilega góðum grunni reistar hvernig svo sem á því stendur. Trúlega er það kuldinn í hafinu sem þar hefur mest spilað inn í. Það var mikilvæg forsenda á þeim tíma að mínu mati að Verðjöfnunarsjóður starfaði. Vegna þess að ef verr færi þá væri það mikilvægt út af möguleikum fyrirtækjanna til að endurgreiða þessa peninga að hann starfaði. Því miður fór nú svo að það þurfti að taka alla þessa peninga út, tæpa 3 milljarða, sem var mjög slæmt. Auðvitað hefði mátt standa öðruvísi að málum með því að reyna að mæta áfallinu fyrr sem var orðið staðreynd. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef greitt hefði verið út úr Verðjöfnunarsjóðnum eftir venjulegum og eðlilegum leikreglum þá hefði sennilega verið búið að greiða út megnið af þessu fjármagni. Og það væru full skilyrði til þess að greiða þar út enn þann dag í dag. Það er enginn ágreiningur um það í neinu af því sem kemur fram að þetta er mjög mikilvægt. Við hljótum að spyrja sjálfa okkur í þessu sambandi: Hvernig á að standa að þessum málum í framtíðinni? Fella þennan sjóð niður og taka eitthvað upp í staðinn eins og hv. formaður sjútvn. sagði hér? Nefndin, sem ég vitnaði til, kemst m.a. að þeirri niðurstöðu í lokin þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur loks til að hafin verði athugun á því með hvaða hætti megi bæta skilyrði fyrirtækja til að beita virkri sveiflujöfnun á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra.``

    Hvert ætli hafi verið hlutverk nefndarinnar í þessu sambandi? Það var þetta, með leyfi forseta:
    ,,Þá er nefndinni falið að taka afstöðu til þess hvort ná megi þeim markmiðum eftir öðrum leiðum.``
    Ég tel að nefndin hafi í reynd tekið afstöðu til þess hvort megi ná verðjöfnun með öðrum leiðum. Hún fer hér ítarlega yfir, sem ég skal koma betur að síðar, sveiflujöfnun og opinbera verðjöfnun, sveiflujöfnun á vegum fyrirtækja og afkomujöfnun í stað verðjöfnunar og kemst að þeirri niðurstöðu í umfjöllun sinni að allar þessar aðferðir séu háðar slíkum annmörkum að það sé ekki hægt að mæla með þeim. Það þurfi hins vegar að skoða ýmislegt þar betur. En samt endar hún með því að leggja það til að þetta verði að skoða betur. Að mínu mati er það algerlega óábyrg afstaða að skilja málið eftir með þessum hætti út af einhverjum 200 millj. sem þarf að millifæra milli sjóða í okkar þjóðfélagi. Það er ekki boðlegt að mínu mati og hæstv. ríkisstjórn ætti að sjá sjóma sinn í því að lesa þessi álit sem hér hafa komið frá þessum stofnunum og eru þrátt fyrir allt mikilvægustu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar á sviði hagstjórnar. Þannig að ef ráðgjöf stofnana eins og Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar, Vinnuveitendasambandsins, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Samtaka iðnaðarins og Alþýðusambands Íslands, ja ef þetta er allt saman rangt og byggt á einhverju delluverki þá hlýtur að vera eitthvað mikið að í þjóðfélaginu. En ég segi líka: Það hlýtur að vera mikið að þeirri ríkisstjórn sem ekkert hlustar á þessi samtök. Það kemur mér á óvart að samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi séu orðin svo áhrifamikil og svo þýðingarmikil í okkar samfélagi að það eigi að fara í einu og öllu eftir því sem þau segja. Það er ekki nóg að bera þau fyrir sig annan daginn en neita að hlusta á þau hinn daginn eftir því sem hentar hverju sinni.
    Út af þessu öllu saman er ástæða til þess, virðulegur forseti, að rifja það nokkuð upp hvaða saga liggur hér að baki því hún er orðin mjög löng. Það má segja að verðjöfnun hafi fyrst orðið til í upphafi viðreisnarstjórnarinnar vegna þeirra erfiðleika sem þá voru. Það hefur margt verið kennt við þá stjórn og ég vissi ekki betur en þegar núv. ríkisstjórn var mynduð að þá hafi nánast staðið til að vera nokkurs konar ný viðreisnarstjórn og vera alveg eins og þeir. Og haga sér í einu og öllu eins og þeir á þeim tíma. Það var a.m.k. tónninn í formönnum stjórnarflokkanna þegar þeir komu frá Viðey að nú ætti að endurtaka þetta merkilega tímabil Íslandssögunnar og vera eins og foringjarnir miklu á þeim tíma og gera allt eins og þeir. Það var mikil bjartsýni í þeim og þeir ætluðu sér greinilega að stjórna landinu a.m.k. næsta áratug og kannski miklu lengur. ( Gripið fram í: Hver er boðskapurinn?) Boðskapurinn er eingöngu sá að fjmrh. þarf að fara og ég hef fullan skilning á því að hann þurfi að fara. Ég hef fullan skilning á því að fjmrh. þurfi að sinna ýmsum verkum til að sjá til þess að ekki fari allt of mikið út úr ríkissjóði. En ég ætla að biðja hann að vera ekki að eyða tíma sínum allt of mikið í ónauðsynlegar millifærslur. Ég kann það mikið í bókhaldi að það er alveg út í hött að vera alltaf að dútla við að færa á milli reikninga fram og til baka það verður enginn ríkissjóðshalli lagaður með því. Og þetta er dæmi um það. Þess vegna ef fjmrh. víkur sér frá með það í huga sér að hætta svona millifærsluleik þá get ég vel sætt mig við það. (Gripið fram í.) Það voru ekki mín orð.
    En þetta var nú það sem menn ætluðu sér og það var eitt ágætis verk sem var unnið í tíð viðreisnarstjórnarinnar að menn sáu þörfina fyrir það að reyna að jafna sveiflurnar meira í okkar samfélagi. Það höfðu verið miklar sveiflur alveg frá stofnun lýðveldisins og reyndar miklu lengur en auðvitað höfðu menn ekki sömu möguleika á því að takast á við vandamálið og þess vegna var það mikilvægt að taka upp slíka sveiflujöfnun. Síðan hefur Verðjöfnunarsjóður starfað með einum eða öðrum hætti og það er alveg ljóst að þessi starfsemi hefur verið mjög umdeild allan þennan tíma og kannski ekki síst á árunum frá 1970--1990. En allan þennan tíma starfaði Verðjöfnunarsjóður og ég veit ekki betur en að um það hafi verið tiltölulega gott pólitískt samkomulag í þessu landi þrátt fyrir að þessi starfsemi væri nauðsynleg með einum eða öðrum hætti.
    Á árunum frá 1985--1990 störfuðu margar nefndir til þess að fjalla um þetta mál. Ein skilaði af sér 17. sept. 1986 en í þeirri nefnd voru fulltrúar allra þingflokka og hagsmunaaðila og sú nefnd starfaði undir forustu Jóns Sigurðssonar. Hún skilaði áliti sem gekk út á það að Verðjöfnunarsjóður starfaði áfram. Það voru gerðar nokkrar breytingar á starfsemi sjóðsins í framhaldi af þessu nefndarstarfi en hins vegar héldu deilurnar áfram um sjóðinn. Þá var enn skipuð tiltölulega lítil nefnd til þess að starfa í málinu í janúar 1988 og skilaði hún áliti í maí 1988 og svo öllu sé rétt til skila haldið þá var það niðurstaða þeirrar nefndar að það væri rétt að leggja Verðjöfnunarsjóðinn niður. Hins vegar var tekið fram í þessu nál., með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að komið verði til móts við fyrirtæki í sjávarútvegi með því að heimila þeim að mynda sérstaka sveiflujöfnunarsjóði innan fyrirtækjanna. Fyrirtækið gæti lagt tiltekið hlutfall hreinna skattskyldra tekna,`` t.d. 60%, sem er mjög hátt hlutfall, 60% af hagnaði, ,,í sveiflujöfnunarsjóð og dragist tillagið frá tekjusjóðsstofni þess árs. Tillag yrði einnig takmarkað við tiltekið hlutfall af árlegu aflaverðmæti eða útflutningsverðmæti sjávarafurða í því skyni að afmarka sveiflujöfnunarsjóðsheimildina við fyrirtæki í sjávarútvegi. Fyrirtæki sem nýtir þessa heimild legði ákveðið hlutfall af sjóðstillaginu inn á bundinn bankareikning. Eðlilegt er að hlutfall sjóðstillags sé jafnhátt skatthlutfalli lögaðila. Fyrirtækið legði þá jafnháa fjárhæð inn á hinn bundna reikning og næmi þeim skatti sem það frestar greiðslu á við myndun sjóðsins. Framlag í sveiflujöfnunarsjóð framreiknast árlega í samræmi við almenna verðlagsþróun. Sveiflujöfnunarsjóð mætti einungis nýta til að mæta rekstrartapi.``

    Þótt þessi nefnd kæmist að þessari niðurstöðu að það væri rétt að leggja Verðjöfnunarsjóð niður, en á þessum tíma voru miklir erfiðleikar í íslenskum þjóðarbúskap og það var mikið stríð í gangi að lifa þá erfiðleika af, þá lagði hún nú samt til að eitthvað væri tekið upp í staðinn. En það vill nú bara svo til að þetta var ekki ásættanlegt fyrir aðrar atvinnugreinar. Iðnaðurinn, þjónustan, aðrar útflutningsgreinar, gátu ekki sætt sig við það að sjávarútvegurinn sérstaklega fengi leyfi til þess að leggja í sérstakan varasjóð og leggja hluta af sínum hagnaði þannig til hliðar. Þeir töldu það ekki standast jafnræðisreglur stjórnarskrár og skattalaga, og mönnum leist ekki á að fara þessa leið. Niðurstaðan varð sú að leggja þetta starf til hliðar. Þá er enn tekið til við að reyna að ná niðurstöðu í þetta mál sem endaði með því að það var skilað áliti nefndar en sú nefnd skiptist í afstöðu sinni. Í þeirri nefnd voru margir ágætir menn. En þeir sem voru hlynntir verðjöfnun á þeim tíma voru þessir: Árni Benediktsson, Geir Gunnarsson alþingismaður, Ísólfur Sigurðsson, Jón Kristjánsson alþingismaður, Karl Steinar Guðnason alþingismaður, Lárus Jónsson alþingismaður, Þórunn Friðriksdóttir og Þórður Friðjónsson.
    Ólafur Ísleifsson og Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, sem sat lokafund nefndarinnar í fjarveru Matthíasar Bjarnasonar alþingismanns, studdu tillögu að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins yrði lagður niður, voru hlynntir því að frv. fengi þinglega meðferð en höfðu fyrirvara um einstök efnisatriði. Benedikt Valsson var fylgjandi verðjöfnun í öðrum greinum en botnfiskvinnslu, samanber bókun sem hann lagði fram. Sigurður Haraldsson var andvígur þessu máli og sama má segja um Friðrik Pálsson sem sat fyrir SH. Hann var þeirrar skoðunar að fyrirtæki mættu leggja í varasjóð til að mæta tekjusveiflum í útflutningi. Kristján Ragnarsson, Hreggviður Jónsson alþingismaður og Óskar Vigfússon lögðu til að núverandi Verðjöfnunarsjóður yrði lagður niður og enginn nýr sjóður tæki við hlutverki hans.
    Það er því ekkert nýtt að ýmsir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi lagst gegn Verðjöfnunarsjóði. Það liggur t.d. fyrir að í þessu nál. þann 3. apríl 1990 voru nánast allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi andvígir því að Verðjöfnunarsjóður tæki til starfa með nýjum hætti. En frv. var lagt fram í þinglok 1990 og sem betur fer var það samþykkt. Þetta frv. varð til þess að það hófst inngreiðsla í Verðjöfnunarsjóð stuttu eftir að lögin voru samþykkt. Og það er ástæðan fyrir því að þeir tæpu 3 milljarðar --- og að er rétt að taka það fram að þetta gerðist m.a. með ágætum stuðningi Matthíasar Bjarnasonar og eins og hann gat hér um þá varð það til þess að það voru lagðir miklir peningar til hliðar á árunum 1990 og 1991. Ég held að það deili enginn um það í dag, hvort sem menn voru á móti þessu eða ekki, að þetta var gæfuspor. Og ég veit ekki betur en að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi verið mjög ánægðir og fegnir því að þessir þrír milljarðar voru til þegar þeir voru borgaðir út. Þannig að það verður ekki allt dæmt út frá því hvernig mál líta út á hverri stundu og það er alveg ljóst að hér er ekki um að ræða eitthvert einkamál sjávarútvegsins. Þetta er málefni þjóðfélagsins alls og sjávarútvegurinn verður, ef hann vill lifa í góðu sambýli við aðrar atvinnugreinar og stéttirnar í landinu og þjóðina í heild sinni, að vera tilbúinn að starfa við þau skilyrði að dregið sé sem mest úr hagsveiflunum enda þjónar það hagsmunum sjávarútvegsins sjálfs. Það er alveg ljóst að atvinnugrein, sem getur haft mikinn hagnað þegar vel gengur en þarf síðan að búa við mjög erfið skilyrði í aflaleysinu og verðhruninu, þarf á því að halda þegar til lengri tíma er litið.
    Ég ætla þá ekki, virðulegur forseti, á þessu stigi málsins að gera nánari grein fyrir þessu nefndarstarfi sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Ég ætla að víkja síðar aðeins betur að starfi þeirrar nefndar sem nýlega hefur skilað af sér. Ég vil taka það fram að hún hefur sett á blað ágæta greinargerð um málið sem styður starfsemi verðjöfnunar í einu og öðru en ég get með engum hætti botnað í því hvernig hún fór að því að skrifa álitið á grundvelli þess sem á undan er gengið. Mér finnst að álitið á bls. 15 sé ekki í samræmi við röksemdafærsluna. Það má vel vera að það hafi í reynd verið ágreiningur í nefndinni og að lokum hafi allir nefndarmenn skrifað undir niðurstöðu og látið það í léttu rúmi liggja þó það væri í þetta mikilli andstöðu við það sem áður er skrifað.
    En ég vil benda á að það kom ekki ósvipað álit í maí 1988 nema að í því áliti var tekið skýrt fram hvað ætti að taka við og það er það sem vantar í þessu nál. og í frv. Það þýðir ekki að benda á leiðir sem eru ófærar og ekki er hægt að fara því það hefur svo oft verið gert, eins og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi benda iðulega á að það þurfi að taka upp sveiflujöfnun á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra. Þetta er búið að gera árum saman. En niðurstaðan hefur ávallt verið sú að þessi leið væri mjög illa fær. Það kemur í reynd fram í nál. þeirrar nefndar sem skilað er og sem grundvöllur frv. Þeir benda á slíka annmarka á þessari leið, sveiflujöfnun á vegum fyrirtækjanna, að það verður ekki annað séð en þeir séu í reynd að mæla gegn henni. Þetta verður að hafa í huga.
    Í sambandi við umsagnir einstakra aðila þykir mér það miður að það hefur fallið niður að prenta sem fylgiskjal með nál. okkar í minni hlutanum umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. Það er slæmt en það er hægt að leiðrétta. Að vísu eru ýmsar aðrar umsagnir frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi líka mikilvægar, þó þær komist flestar að annarri niðurstöðu, en við töldum ekki ástæðu til að gera jafnmikið úr þeim vegna þess að við alla þá aðila var rætt af nefndinni. Nefndin sinnti því hlutverki sínu vel að hafa samráð við þessa aðila en hins vegar talaði nefndin ekki við nein önnur samtök. Nefndin sá enga ástæðu til þess að ræða málið við Seðlabanka Íslands. Nefndin sá enga ástæðu til þess að ræða við Þjóðhagsstofnun eða Vinnuveitendasambandið eða Alþýðusambandið eða Samtök iðnaðarins. Að vísu stóð ekki í skipunarbréfi nefndarinnar að það skyldi gert, sem ég tel að hafi verið mistök, en það var að sjálfsögðu skylda þingnefndarinnar að gera það og taka álit þessara aðila alvarlega, en það hefur því miður ekki verið gert.

    Afstaða Alþýðusambands Íslands til þessa frv. er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþýðusambandið telur brýnt að tryggja að þau markmið sem lágu til grundvallar starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, þ.e. nauðsyn þess fyrir uppbyggingu annarra atvinnugreina að sveiflur í afkomu sjávarútvegs verði jafnaðar með einhverjum hætti, nái fram að ganga. Verði það ekki gert standa stjórnvöld frammi fyrir því að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með breytingum á gengi krónunnar eða vöxtum með þeim skaða sem það hefði fyrir aðrar greinar sem ekki nytu t.d. sambærilegrar uppsveiflu og í sjávarútvegi.``
    Það er nauðsynlegt að því sé svarað af þessu tilefni, og þetta kemur fram í ýmsum öðrum umsögnum: Er verið að fara út á það svið? Er verið að boða þá stefnubreytingu að beita eigi gengi og vöxtum við þessi skilyrði? Það er nauðsynlegt að því verði svarað. Það hlýtur að vera, a.m.k. ef hæstv. iðnrh. fær ekki framgengt sinni kröfu að það verði tekinn upp auðlindaskattur. Það er ekki hægt að skilja svona mikilvægar spurningar eftir.
    Síðan segir Alþýðusamband Íslands, með leyfi forseta: ,,Íslenskt efnahagslíf hefur farið í gegnum mjög erfiða aðlögun að sífelldum samdrætti í þorskveiðiheimildum á undanförnum árum og ljóst er að leggja verður höfuðáherslu á að efla aðra útflutningsstarfsemi ef okkur á að takast að treysta og auka það velferðarstig sem við höfum búið við. Ef það á að takast þá verðum við einfaldlega að jafna afkomusveiflur í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, þó þannig að sú sveiflujöfnun hafi ekki skaðleg áhrif á aðrar greinar.``
    Þetta er mikið sagt. Þetta er í reynd stutt af öðrum umsögnum. Hér segir Alþýðusambandið að ef okkur eigi að takast að efla aðra útflutningsstarfsemi, sem er lífsspursmál fyrir Íslendinga að efla alla þá útflutningsstarfsemi sem getur orðið til þess að draga úr atvinnuleysi og auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, verði að vera sveiflujöfnun, verðjöfnunarsjóður. Á ekkert að hlusta á það? Eða er það ekkert lengur á dagskrá að reyna að takast á við þetta viðfangsefni á sviði hagstjórnar? Því er ekkert svarað og við hljótum að krefja hæstv. ríkisstjórn svara við þeim spurningum sem er að sjálfsögðu miklu einfaldara að gera þannig að taka þetta mál af dagskrá um sinn svo að menn fái tíma til að taka það aftur til nefndar og reyna að ná einhverjum áttum í málinu.
    Síðan er sagt, með leyfi forseta, sem ég hef svo sem áður sagt: ,,Á þessu er ekkert tekið í frv. og hvorki liggur fyrir nein stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnar né Alþingis hvernig bregðast eigi við. Það er t.d. óljóst hvort hér sé verið að undirbúa ákvörðun um að taka upp auðlindaskatt en ákvörðun um að fella lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins úr gildi mun óhjákvæmilega færa meiri þunga yfir á þá umræðu.``
    Þetta er álit Alþýðusambands Íslands og þeir sem vilja og hafa þá skoðun að ekki eigi að færa meiri þunga yfir í þá umræðu en orðið er hljóta að vera andvígir því að fara þessa leið. Ef menn vilja hins vegar fara á fullt í þá umræðu er alveg ljóst að hér hefur verið tekinn burtu mikilvægur varnarmúr sem er nauðsynlegur ef menn ætla að standast þessa umræðu.
    Síðan segir í umsögninni: ,,Ef snögg umskipti verða á afkomu sjávarútvegs gæti sú umræða þurft að fara fram í verulegri tímaþröng þar sem við stæðum frammi fyrir annaðhvort gengishækkun eða upptöku auðlindaskatts.``
    Hvað er það sem Alþýðusambandið á við í þessu sambandi? Þeir eiga einfaldlega við það að ef hér sköpuðust mjög góð skilyrði í sjávarútvegi, sem alltaf eru að skapast annað slagið og ég minni t.d. á þau miklu umskipti sem urðu að því er varðaði loðnuveiðarnar í vetur. Þær voru mikil búbót fyrir fyrirtæki austan lands, sunnan lands og vestan og urðu til þess að bjarga miklu. Ef slík almenn skilyrði sköpuðust í sjávarútveginum, sem er að vísu heldur ólíklegt, þá er alveg ljóst að menn standa frammi fyrir miklum vanda. Þetta getur gerst mjög skyndilega eins og gerðist vorið 1990. Þá er nauðsynlegt og mikilvægt að hafa tæki sem þetta starfandi, hafa það til staðar til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort því skuli beitt því það verður ekkert gert á einu augabragði að koma á á nýjan leik lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að þá sé lítið annað að gera en annaðhvort að hækka gengið, sem hefði mjög slæmar afleiðingar á aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu, t.d. iðnaðinn, þjónustustarfsemina og ferðamannaiðnaðinn, sem er vaxandi. Það gæti haft skelfilegar afleiðingar á okkar þjóðarbúskap.
    Ef það væri hin almenna pólitíska skoðun að þessar afleiðingar væru svo skelfilegar fyrir þessar atvinnugreinar þá stæðu menn einfaldlega frammi fyrir því að fara út í að leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn í ríkissjóð til þess að draga úr uppsveiflunni. Ætli sé nú ekki betra og nauðsynlegra fyrir sjávarútveginn í heild sinni að leggja slíkan afgang í sérstakan sjóð til að mæta framtíðaráföllum? Og þar af leiðandi þjónar það hagsmunum sjávarútvegsins sjálfs að gera það. Það eru ekkert annað en skammtímasjónarmið að mínu mati að sjá þetta ekki fyrir. Þetta mun hafa mjög skaðvænleg áhrif á sjávarútveginn til lengri tíma því upptaka auðlindaskatts við þessi skilyrði, við slík uppgangsskilyrði, yrði til þess að ekkert væri eftir til að borga út þegar verð fellur á nýjan leik eða afli minnkar. Það gæti þess vegna orðið til þess að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi yrðu gjaldþrota og það gæti valdið miklum vandræðum í byggðarlögum um land allt. Ég held að það sé enginn vafi á því að ef það hefðu verið eftir mun meiri peningar í Verðjöfnunarsjóði árið 1991, sem hefði í sjálfu sér verið skilyrði til að safna upp áður fyrr, þá hefðum við staðið mun betur í dag.

    Það er búið að gagnrýna okkur stjórnarandstæðinga mjög fyrir það þegar við vorum í ríkisstjórn á árum áður að við hefðum ekki lagt nægilega mikið til hliðar þegar vel gekk. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa t.d. staðið framarlega í þeirri gagnrýni en ekki varð ég var við að þar væri sérstaklega mikið lagt til hliðar á árum áður. Það má vel segja að það sé nokkuð til í þeirri gagnrýni að það hafi ekki nægilega mikið verið lagt til hliðar. Það eru ýmsar ástæður fyrir því en aðallega liggja ástæðurnar í þjóðarsálinni sjálfri en ekki eingöngu á vettvangi stjórnmálanna þó stjórnmálin beri vissulega ábyrgð. En hér er verið að leggja það til að þessu verði hætt og þessu öllu kastað fyrir borð.
    ( Forseti (VS) : Forseta langar að grennslast um það hjá hv. þm. hvort hann er um það bil að ljúka máli sínu eða hvort hann óskar eftir að fresta ræðu sinni. Það er komið fram í þann tíma sem meiningin var að gera matarhlé.)
    Virðulegi forseti. Ég á nokkuð eftir af ræðu minni og get vel hugsað mér að fresta henni.