Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 22:11:45 (6364)


[22:11]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt í einfeldni minni að nú ætlaði hv. 16. þm. Reykv. að koma í andsvar og segja mér hvaða leiðir væru nothæfar. Hv. þm. vill ekki sjóði og ég spyr þá um álit hans á þróunarsjóði því að það er hugarfóstur og dekurbarn samherja hans í ríkisstjórninni. Ég hlýt að spyrja að því vegna þess að eins og mál standa núna er þetta eitt af því fáa sem virðist eiga að koma í staðinn. Hann fór að vísu aðeins út í að ræða fiskmarkaði. Hann sá ágalla á því. Við getum verið sammála um að það þarf alltaf að laga kerfi. En hann hefur ekki komið með nokkurn hlut sem svaraði mínum spurningum frekar en nokkur annar. Hann er ekkert verri en aðrir fyrir það. Hann kemur bara ekki með svörin því að þau eru ekki til. En ég spyr: Ef hv. þm. er á móti því að fara að safna fleiri sjóðum hvað segir hann þá um þróunarsjóðinn?